Strákurinn kominn í stórborgina
Fyrir rétt rúmri viku fjölgaði íbúum New York borgar um einn, þegar Bjarni nokkur Torfason mætti á svæðið. Fáir kipptu sér nú upp við það enda lítill dropi í mannhafið sem fyrir er.
Föstudagskvöldið fyrir brottför var að sjálfsögðu nýtt til að mála Reykjavík rauða og svo tók barnaafmæli við á laugardeginum. Þaðan lá leiðin út á flugvöll. Eftir rúmlega fimm tíma flug með vinalegum íslenskum flugfreyjum var maður allt í einu kominn í gin ljónsins. Allir töluðu útlensku og helst það hratt og með nógu skrítnum hreim að litli strákurinn varð að segja “Sorry?” með tilheyrandi pirringi.
Eftir hálftímalanga bílferð í týpískum gulum taxa, þar á meðal í gegnum Harlem komst ég í íbúðina sem ég átti eftir að gista í næstu vikuna. Þegar ég settist inn í þessa litlu íbúð, með gluggum inn í port á laugardagskvöldi var ekki laust við að ég saknaði Reykjavíkurdjammsins og barnaafmælisins. Lítill strákur var nú kominn í stórborg.
Það auðveldaði mér nokkuð aðlögunina að hitta Baldur sem var að heimsækja New York frá Boston. Hann kynnti mig fyrir hinu heillandi hverfi, Williamsburg í Brooklyn. Þetta hverfi er mun lágreystara en Manhattan, mun minni erill og er víst orðið mjög vinsælt meðal listamanna þar sem leiguverð á Manhattan hefur hrakið flesta tekjulitla í burtu. Að sjálfsögðu dró Baldur mig á indí-tónleika sem haldnir voru í gamalli sundlaug í Williamsburg. Stemmningin var mjög skemmtileg, fólk lék sér með bolta, spilaði dodge ball, renndi sér í vatnskastala og bara sötraði bjór og hafði gaman. Auðveldur fyrsti dagur.
Síðan tók lífsbaráttan við, íbúðaleitin hófst á mánudeginum. Ég var reyndar búinn að komast inn í íbúðakerfi Columbia en að velja úr því sem til var átti eftir að reynast erfiðara en ég hélt. Kerfið virkar þannig að maður fær ákveðinn forgang á hverjum degi, síðan sér maður lauslega hvað stendur til boða og velur sér íbúð/herbergi til að skoða. Ef enginn forgangshærri tekur þá íbúð/herbergi sem maður skoðar þá getur maður annaðhvort a) Tekið íbúðina/herbergið eða b) Sagt nei, takk og þá er komið “Strike one” og maður hefur bara fjögur strike. Eftir það verður maður að taka því sem manni býðst. Ef einhver forgangshærri tekur svo íbúðina telur hún ekki. Þannig að það voru miklar leikjafræðipælingar varðandi það hvaða íbúðir skyldi skoða enda vill maður nýta strike-in eins vel og maður getur. Síðan voru mér líka tímamörk sett því aðeins ein vika var eftir á úthlutuninni.
Til að bæta ofan á þetta var methiti, 37 stig, og sól til þess að steikja litla föla strákinn.
Tvö strike voru tekin fyrsta daginn enda lítið merkilegt í boði, lítil dimm herbergi og herbergi á jarðhæð (með rimlum fyrir gluggum) og ekkert sérlega vel staðsett, voru það sem stóð til boða. Daginn eftir kom ekkert nýtt inn og ekki hýrnaði brúnin við það. Næsta dag datt inn studíó-íbúð á fyrstu hæð (með rimlum að sjálfsögðu) en einhver á undan mér í forgang tók hana (og sá ég ekki eftir henni). Á fjórða og næstsíðasta degi duttu inn tvær vel staðsettar stúdíó-íbúðir. Önnur var algjör draumaíbúð, enda missti ég hana til forgangshærri keppinautar en hina tók ég á síðasta degi vikunnar.
Baráttunni var lokið. Ég veit ekki hvort ég kem út úr henni sem sigurvegari en ég held að ég hafi ekki tapað. Íbúðin er ekki stór á íslenskan mælikvarða (30-40 fm að grunnfleti) en ég held að hún sé bara allt í lagi á New York mælikvarða. Hún er ekki björt. En hún er vel staðsett. Þannig að eftir stendur að þegar húsgögn verða keypt inn í hana þarf að beita miklu hyggjuviti til að nýta pláss og birtu sem best.
Nú taka við tvær vikur af aðgeraleysi og lestri (ég er búinn með eina og hálfa af þeim fjórum bókum sem skólinn vill að ég sé búinn að lesa áður en skólinn sjálfur hefst). Ég er búinn að taka einn góðan verslunarleiðangur í miðbæinn, kaupa mér flest dry-fit sem til er fyrir hlaupin. Ég er reyndar ekki byrjaður að hlaupa (ber fyrir mig önnum og hita) en stefni að því að taka fyrsta hlaup á morgun. Síðan mun ég reyna að viðhalda hlaupadagbók til þess að þjálfarinn geti tekið upp svipuna þegar þarf.
Frekari fréttir munu berast þegar þær gerast.
Strákurinn kveður.
5 Comments:
Til lukku með íbúðina. Er gestaherberið með sér baði?
:)
Tinna frænka
velkominn í hverfið:) hvar er íbúðin staðsett?
Gríðarlega ánægjulegt að heyra einhverjar fréttir og sjá bjarna.com skríða úr holunni sinni.
Menn hér á klakanum eru afar forvitnir að heyra lýsingu á hinum Nýja Bjarna. Hvaða stefna var tekin á þetta? Bóhem, indy, kallinn kannski kominn með tattú? Persónulega sting ég upp á því að þú safnir í pony og fjárfestir í pípu.
Gestasvæðið er í eldhúsinu, mitt á milli ísskápsins og vasksins, svona 2 fermetrar þannig að ef fólk getur kannski valið að kalla eldhúsvaskinn sérbað.
Takk. Íbúðin er á 113, mitt á milli Broadway og Amsterdam.
Nýi Bjarni er enn í vinnslu. Það er enn hugmyndavinna í gangi. Eins mikið og mig langar nú að safna í pony þá held ég að sú hugmynd verði ekki ofan á. Sjáum til hvort pípan kemst að.
Velkominn til nyc!!
Ther ad segja tha eru 30-40 fermetrar bara ljomandi god staerd a ibud i borginni, og ef kakkalakkar/mys/rottur fylgja ekki med, tha ertu dottinn i lukkupottinn :-)) (Veit samt ekki alveg med thessa rimla ... spurning ad fara frekar ad lyfta lodum heldur en ad hlaupa til ad geta barid fra ser.)
Sjaumst fljotlega,
Brynja
Post a Comment
<< Home