Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Tuesday, May 15, 2007

Próf búin – afslöppun tekin við

Jæja, þá eru blessuð prófin búin. Eftir allt of langt tímabil lærdóms og lestrar er ég frjáls. Nú taka við rúmar tvær vikur hérna úti í Ný-Jórvíska vorinu. Veðrið er búið að vera þægilegt síðustu vikurnar, þetta 20+ og sól. Veðurspáin bendir ekki til annars en að það haldi áfram. Vonandi fer þetta ekki að detta upp fyrir 30, það er allt of mikið fyrir litla albinóastráka eins og mig.

Fór aftur á NBA-leik í gær. Þessi var öllu skemmtilegri en sá sem ég fór á í vetur. Nú tóku Nets á móti Cleveland Cavaliers í undanúrslitum austandeildarinnar og freistuðu þess að jafna einvígið í 2-2. Eftir æsispennandi lokasprett hafðist það ekki. Okkar menn fengu 10 sekúndur til að jafna, tveimur stigum undir, en Vince Carter skeit í brók, eins og oft áður í leiknum. Hann missti boltann út af, náði ekki einu sinni skoti. Nú virðist öll nótt úti fyrir mína menn í New Jersey.

Maður verður nú líka að tjá sig eitthvað um kosningarnar. Heilt yfir ágæt úrslit. Yfir litlu að kvarta nema því að Íslandshreyfingin náði ekki inn. Ef hún hefði gert það þá hefði stjórnin fallið og allar vinstri stjórnir nema 4-5 flokka stjórnir verið ómögulegar og þá værum við komin með stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í stað þess þurfum við að bíða og vona að menn sjái ljósið. Það er alveg ljóst að SS-stjórnin yrði sterk og nyti stuðnings mjög stórs hluta þjóðarinnar. Þetta er líklegasta stjórnin til að afnema ýmiss afturhaldsmál eins og að hefja afnám landbúnaðarkerfisins, fyrst með víkkun innflutningsheimilda. Þá munu mál eins og bjór í búðirnar og samkynhnegiða upp að altari ekki bíða lengi.

Nú eru líka metnaðarfull plön um að komast aftur í form. Það er af sem áður var þegar maður hljóp maraþon án þess að svitna. Próftörnin og nauðsynleg sykurneysla liggur þungt á mér og ekkert að gera nema að spretta úr spori.

Tuesday, May 01, 2007

2 niður, 2 eftir

Þá er próf nr.2 búið. Niðurstöður úr fyrstu tveimur prófunum eru þegar komnar og eru jákvæðar sem gefur byr undir báða vængi í undirbúningnum fyrir seinni prófin tvö. Það verður þó æ erfiðara að sitja við eftir því sem nær dregur frelsinu. Veðrið er nú líka orðið fast í bongó-stillingunni. Það er yfirleitt sól og svona 20 stig þessa dagana. Ég ætla að reyna að nýta blíðuna með hlaupum á morgnana í lestrinum svona til að stemma að einhverju leyti stigu við fitusöfnun. Tók eitt hlaup í morgun í Central Park sem er að springa út þessa dagana. Vorlitadýrðin er glæsileg; bleik, hvít, gul blóm á trjánum með mismunandi blæbrigðum af grænum.

Ég mun ná að kjósa héðan úr Jórvíkinni Nýju og hvet ég alla til að kjósa líka eins og Íslendinga er hefðin. Muna svo að það er bannað að kjósa flokka sem byrja á F.

Wednesday, April 25, 2007

Fyrsta prófið og nokkrir góðir dagar

“Eitt niður, þrjú eftir” svo hljóðar hin heilaga prófatalning þetta vorið. Og vorið er komið og nú í alvörunni! Um helgina voru 5 dagar í röð með sól, blíðu og 25 stiga hita. Hæst sleikti hitinn 30 stigin að neðan. Nú er reyndar undir 20 stigum og skýjahula yfir en þetta er greinilega allt að koma. Ég er búinn að hlaupa rykið af hlaupaskónum, tók þrjú hlaup í þessum steikjandi hita og væntingar eru um að lýsið muni renna nú á vordögum.

Hin heilaga íslenska kirkja gefur samkynhneigðum enn langt nef. Gott að eiga góða þjóðkirkju sem þjónar okkur öllum svo dyggilega. Ég er enn svo mikill klaufi að vera skráður í þetta batterí en það mun breytast í sumar.

Vil svo benda á pistil hjá Bjarrgna nafna mínum Harrrðarrsyni í dag. Hann er óttalegur landbúnaðarlurkur en það er sjaldan leiðinlegt að hlusta á hann og ratar oftar en ekki skemmtileg ræða á munn. Skemmtileg færsla hjá honum í dag: "Svo ergist hver sem eldist"

Ég vona að hann komist ekki á þing en það er ljóst að rifrildi þingmanna verða öllu betur mælt ef hann bætist í hópinn.

Thursday, April 19, 2007

Enn á ný í skotgröfunum

Ég hef nú ekkert tjáð mig hér í nokkurn tímann, eins og þeir þolinmóðu sem hingað hafa kíkt vita. Ástæðan er einföld. Ég geri ekkert þessa dagana nema læra og því frá litlu að segja. Síðustu vikur hafa flogið án þess að maður hafi tekið eftir þeim.

Mamma mætti með bæði páskasteik og páskaegg að heiman sem var krúsjalt fyrir lokasprettinn. Málshættirnir eru alltaf áhugaverðir. Ég fékk þessa:

“Sá er árla rís verður margs vís” – þörf ábending, ég reyni að forðast að vakna snemma ef ég get.

“Allt kann sá er hófið kann” – ég held að ég fylgi þessu enn sem komið er en alltaf gott að vera minntur á hinu sönnu gildi.

“Það læra börnin sem fyrir þeim er haft” – Sé ekki hvernig þetta tengist mér.

Eins og talnaglöggir sjá þá er ég búinn að háma í mig 3 páskaegg og var að fá það fjórða upp í hendurnar. Maður þarf alla orku sem maður getur náð sér í til að halda sér gangandi í lestrinum. Það verður síðan verkefni vorsins og sumarsins að skafa af sé prófapundin og skipta þeim út fyrir glansandi gulbrúna vöðva.

Var síðan að birta pistil á Deiglunni í dag um góðvin minn LÍN.

Meira var það ekki í bili.

Friday, April 06, 2007

Páskar

Nú þegar hin heilaga páskahátíð er að ganga í garð er rétt að rifja upp gamlan og góðan páskaskít. Hann var birtur á páskum fyrir þremur árum síðan. Njótið heil.

Blanda af ofsteiktu grænmeti

Nú er páskahátíðin senn liðin en á páskunum minnumst við andláts Jesú og upprisu hans. Sumir halda upp á páskana með því að láta krossfesta sig, aðrir með því að éta páskaegg og flestir fagna fríinu sem páskunum fylgir. Þetta árið fékk píslargangan óvenjumikla athygli vegna myndar Mel Gibson, The Passion of the Christ. Ég sá hana og kíkti reyndar líka á mynd Monty Python, Life of Brian, sem fjallar um krossfestinguna á annan hátt. Með hugann svo fastan við píslargönguna fann ég umfjöllun um hana á stað sem ég reiknaði ekki með, í þungarokklagi.

Lagið sem um ræðir er vinsælt meðal ritstjórnar Skítsins og nefnist Chop Suey eftir System of a Down. Ég minntist á það í kommenti í síðustu viku en langaði til þess að útlista mínar pælingar um lagið. Textinn í heild sinni fylgir á eftir pistlinum en annars ætla ég bara að brjóta textann niður, kafla fyrir kafla (texti lagsins er skáletraður og á eftir fylgir túlkun), endurtekin textabrot eru ekki endurútskýrð.

Lagið hefst eftir að barsmíðum og pyntingum á Jesú hefur lokið og krossfestingin nálgast:

Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable

Verðirnir vekja Jesúm harkalega og segja honum háðskulega að drattast á lappir og gera sig snyrtilegan fyrir gönguna upp á Golgata, hann verði að fela örin sem hann fékk við pyntinguna. Lyklatilvísunina skil ég eins og að verðirnir séu að spyrja Jesúm hvers vegna í ósköpunum hann hafi gert handtökuna og refsinguna svona auðvelda. Í stað þess að neita sök og gangast við mannleika sínum, hvers vegna gefur hann tilefni til refsingar? Síðasta línan þarf svo vart skýringa við.

Því næst tekur Jesús við:

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die, Die.

Jesús áttar sig ekki alveg á því hvers vegna þessi fórn hans fær ekki þann skilning sem eðlilegt er. Hér kemur fram háðskuleg afstaða textahöfundar gagnvart Jesú sem kristallast í orðunum self righteous (sjálfumglatt), höfundi telur Jesúm greinilega vera of sannfærðan um eigið ágæti. Ég er ekki alveg pottþéttur á síðustu línunni en ég held að meiningin sé sú að Jesú hryggist þegar englar á borð við hann eru taldir eiga dauðann skilinn.

Síðustu tveir hlutarnir eru þeir sem komu mér á sporið varðandi efni textans og eru þeir báðir einræða Jesú við hinn almáttuga föður sinn:

Father, Father, Father, Father,
Father/ Into your hands/I/commend my spirit,
Father, into your hands,

Hér er bein biblíutilvitnun, t.d. stendur í Lúkasarguðspjalli, 23:46:

Then Jesus, crying with a loud voice, said, “Father, into your hands I commend my spirit.” Having said this, he breathed his last.

Hinn hlutinn:

Why have you forsaken me,
In your eyes forsaken me,
In your thoughts forsaken me,
In your heart forsaken, me oh,

Aftur bein biblíutilvitnun, Mattheus 27:46:

And about three o'clock Jesus cried with a loud voice, "Eli, Eli, lema sabachthani?" that is, "My God, my God, why have you forsaken me?"

Titilinn skil ég ekki alveg, en hann er nafn á kínverskum rétt sem er víst upprunninn í Bandaríkjunum og er blanda af ofsteiktu/ofsoðnu grænmeti. Ég sé ekki alveg tenginguna hér. Ef einhver hefur frekari skýringar við texta lagsins vil ég endilega heyra þær, enda búinn að pæla svolítið í þessu.

Góðar stundir.

Chop Suey
Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable

You wanted to,
Grab a brush and put a little makeup,
You wanted to,
Hide the scars to fade away the shakeup,
You wanted to,
Why'd you leave the keys upon the table,
You wanted to,

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die, Die,

Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable

You wanted to,
Grab a brush and put a little makeup,
You wanted to,
Hide the scars to fade away the shakeup,
You wanted to,
Why'd you leave the keys upon the table,
You wanted to,

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die
In my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die

Father, Father, Father, Father,
Father/ Into your hands/I/commend my spirit,
Father, into your hands,

Why have you forsaken me,
In your eyes forsaken me,
In your thoughts forsaken me,
In your heart forsaken, me oh,

Trust in my self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die,
In my self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die.

Wednesday, April 04, 2007

Deiglan

Ég birti pistil í dag á Deiglunni um vexti og verðbólgu sem menn gætu verið gríðarlega spenntir fyrir.

Monday, April 02, 2007

Íslenskt, já takk, styðjum hamingjusömu hóruna!

Lítið af mér að frétta, er á kafi í bókum. Tók mér reyndar frí á fimmtudag þegar Snæbjörn fór hér í gegn og á föstudagskvöld fór ég út með nokkrum íslenskum bankamönnum í Kobe-nautalund. Syndsamlega góður matur. En hvað um það, fyrst ekkert er af mér að frétta kemur pæling í staðinn:

Nú er búið að lögleiða vændi á Íslandi eins og flestir vita, sér í lagi lesendur Bjarna.com. Rökin fyrir því eru að minnka neyð vændiskvenna á Íslandi og gera þeim kleift að leita sér aðstoðar með sín vændiskonuvandamál. Hins vegar er ljóst að þetta hlýtur að auka vændi eitthvað. Búið er að stimpla þetta “í lagi” þótt auðvitað fylgi hóru jafnan hornauga. Því er spurningin: Mun þessi lögleiðing valda því að fleiri konur streyma frá Austur-Evrópu í vændi á Íslandi? Mun lögleiðingin því snúast upp í andhverfu sína?

Eina leiðin til að koma í veg fyrir þetta er að íslenskar konur fylli upp í það markaðsgat sem myndað hefur verið á vændismarkaðnum. Aðeins þannig mun eftirspurnin eftir erlendum vændiskonum ekki aukast. Það er ljóst að nú er loksins komið alvöru tækifæri fyrir hamingjusömu íslensku hóruna. Því hvet ég allar íslenskar konur sem verju geta valdið að drífa sig út á markaðinn, stöllum sínum í austri til varnar. Að sjálfsögðu hvet ég líka alla vændisleitendur líka til þess að velja íslenskt. Það er enda vel þekkt að íslenska vændiskonan er afbragðsvændiskona enda alin á íslensku lambakjöti í marga ættliði aftur.

Það var vel við hæfi að ég held að ég hafi einmitt rekið augun í vændi í New York í fyrsta skipti á leiðinni í Kobe-kjötið á föstudaginn. Þar virtist vera á ferð nokkuð stór karlmaður klæddur í lítinn topp og stutt pils sem leiddur var eitthvert af litlum skömmustulegum gaur.

Monday, March 26, 2007

Póker og vændi

Nú er ég að sigla inn í endasprettinn af þessu fyrsta ári mínu í Columbia og ljóst að þær 6 vikur sem eftir eru verða helvíti strembnar. Nú verður hver áfengisdropi sem drekka skal settur í nefnd til þess að meta hvort hann eigi rétt á sér. Nú eykst líka gleðijaðarkostnaður hverrar lesinnar blaðsíðu þar sem veðrið er að batna með hverjum deginum. Nú er orðið að jafnaði 10-15 stig og upp úr og yfirleitt léttskýjað.

Annars tókum við viskí-klúbb um helgina í fyrsta skipti síðan í október. Viskíin eru smám samana að færast upp skalann og sumir a.m.k. farnir að kunna að meta sopann. Ég er enn ekki í þeim hópi. Hins vegar tók strákurinn sig til og vann pókerinn í þetta skiptið. Minn fyrsti sigur eftir tvo ósigra. Ágóðinn rennur þó allur í flotta flösku fyrir næsta klúbb þannig að þetta er meira upp á heiðurinn er hagnaðinn.

Síðan verð ég að lýsa undrun minni á því hversu lögleiðing vændis hefur farið hljóðlega í gegn, að því er virðist. Ekkert heyrðist um þetta fyrr en fyrsta opinbera íslenska karlhóran kærði fjármálaráðherr. Mér finnst þessi löggjöf frekar undarleg, bæði kaup og sala vændis er lögleg en síðan er nánast bannað að tala um að maður sé að velta því fyrir sér að ná sér í vændiseinstakling, eða þá að gerast slíkur. Síðan hefur ekki einn femínisti látið á sér kræla varðandi þetta. Ég geri mér grein fyrir því að rökin fyrir þessari lögleiðingu eru þau að það skuli svipta tilneyddar vændiskonur sök til þess að auka ekki neyð þeirra frekar en af hverju er enginn feministi að snappa yfir því að kaupandinn skuli enn vera löglegur, til dæmis? Ef klámkompaní má ekki halda hópefli á Íslandi, hvernig má það vera að kaup vændis séu í lagi? Eru femínistar kannski bara farnir á vertíð? Hysterísk hjarðhegðun stýrir greinilega umræðunni á Íslandi.

Og moggabloggið er algjör vitleysumagnari. Moggabloggið er nú með um 20.000 bloggara að því er mér skilst sem keppast hver um að svara hinum. Að mörgu leyti er þetta frábært og þarna er kominn vettvangur fyrir fólk sem hefur eitthvað að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Hins vegar er þarna líka kominn vettvangur fyrir algjöra bavíana sem hafa ekki neitt skynsamlegt að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Þannig geta stórar fréttir runnið óséðar í gegn á meðan smámál magnast upp í stærðarinnar vitleysu.

Vil annars mæla með einum moggabloggara sem er jafnan hnitmiðaður og lætur ekki glepja sig í eitthvað bull: Ívar Páll Jónsson .

Thursday, March 22, 2007

Dauði og skattar og þorrablót

Ég fór á mitt fyrsta þorrablót á laugardaginn. Mörgum þykir það kannski merkilegt en hitt þykir kannski merkilegra að þar borðaði ég skyr í fyrsta skipti, a.m.k. svo að ég muni til. Það var úr búi Sigga skyrs sem rekur skyrgerð hér ytra og get ég með góðri samvisku sagt að þetta hafi verið besta skyr sem ég hef smakkað. Annars var blótið hið ágætasta. Það kom mér á óvart hversu mikið af ætum mat var á svæðinu og ég hefði alveg getað sleppt því að slengja í mig pizzusneið áður en ég mætti. Annars var spilað, sungið og dansað og almennt ríkti gleðin. Undirritaður var í hópi hressari manna, aðallega framan af, en þegar mikið stendur til vill það oft brenna við að menn vanmeta aðstæður og eigið þol og það fór svo að ég flaug of hátt á lánuðum vængjum. Ég firra mig að sjálfsögðu allri ábyrgð og kenni veikindum og óvæntum brennivínsstaupum um að hafa farið út af fyrirfram útreiknaðri leið enda hárfín vísindi þar á ferð.

Annars hafa téð veikindi haldið áfram að valda mér leiðindum og er ég búinn að vera hóstandi eins og argasti berklasjúklingur. Akkúrat það sem maður þarf á að halda þegar skólinn er að fara á fullt aftur. Annars var ég í dag í fyrsta tíma í kúrsi sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz kennir. Hörkugaman að fá svona nagla sem er á stöðugri ferð og flugi að segja fólk hvernig eigi að stýra hinum ýmsu hagkerfum. Hann var skemmtilegur í fyrsta tíma og vonandi verður svo áfram.

Nú er árstíð skattframtala í algleymingi og er ég svo heppinn þetta árið að telja fram í öðru veldi og vel það. Hið klassíska íslenska skattframtal er svo sem ekki mikið verk, þótt það flæki aðeins málin að vera ekki á Íslandi, en svo er það gleðin að fá að telja fram hér í Bandaríkjunum í fyrsta skipti. Hér þarf ég að skila inn tveimur framtölum, fyrir New York ríki og alríkið.

Að lokum vil ég óska öllum íbúum norðurhvels jarðar með það að nú er dagurinn orðinn nóttunni yfirsterkari og vex nú aðeins styrkur fram á sumarið. Ég ætlaði að segja einhvern svæsinn Grænlendingabrandara hérna en læt það vera að sinni.

Saturday, March 17, 2007

Skíðavor

Eftir að ég kom heim frá Íslandi eftir síðustu helgi datt inn slík og þvílík rjómablíða að Íslendingurinn skildi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Á þriðjudag var 15 stig og á miðvikudag skreið hitinn yfir 20 stig ásamt sól. Báða dagana var tækifærið gripið til að hlaupa 10km í Central Park og seinni daginn stóð manni hreint ekki á sama með hitann. Líkaminn hafði engan veginn við að kæla mann niður. Í gær, föstudag, tóku dyntir New York-veðursins við og hitinn fór svolítið undir frostmark og það snjóaði vel.

Það var reyndar mjög heppilegt þar sem við höfðum ákveðið að fara á skíði á umræddum föstudegi. Við fórum á fimmtudegi með tveimur félögum okkar heim til annars þeirra í dæmigert bandarísk smábæjarúthverfi í New Jersey. Þar elduðu foreldrar hans fyrir okkur og við gistum í gestaherbergjum hússins. Á föstudeginum héldum við síðan upp í Pokonos-fjöllin og skíðuðum um eftirmiðdaginn fram á kvöld. Síðan var haldið heim á leið í þó nokkurri snjókomu. Við keyrðum fram hjá og sáum nokkur bílslys og ökumaðurinn í okkar bíl ætlaði að gera okkur vitlausa með hægum akstri. Við Íslendingarnir töldum okkur aldeilis kunna að keyra hraðar og öruggar í snjónum. Síðan tókum við rútu aftur inn á Manhattan seint um kvöldið og skelltum okkur í háttinn. Í kvöld mun ég síðan hlæja að íslenskum matarsiðum á margfrægu Þorrablóti Íslendingafélagsins í New York. Flugferðin heim, öll þessi veðrabrigði og líkamsrækt hafa reyndar farið eitthvað illa í ónæmiskerfið og fer ég léttkvefaður og hálsbólginn á blótið. En ekki þýðir að kvarta. Ekki hefði Egill Skallagrímsson látið kvefpest stöðva sig í að fara í gott blót.

Fyrir þá sem ekki fylgjast með neinum öðrum vefmiðlum en bjarni.com er rétt að benda á breytingar á kynferðislögum Íslendinga. Til dæmis verður vændi til framfærslu gert löglegt, ekki veit ég hvort kaupandi vændis er lögbrjótur eður ei. Síðan verður samræðisaldur hækkaður úr 14 ára í 15. Mörgum finnst þetta enn fulllágt og margt til í því. Manni finnst erfitt að sjá að það sé rétt að fertugir karlar, nú eða konur, kræki sér í 15 ára unglamb. Hins vegar fyndist manni erfitt að refsa 16 ára strák, nú eða stelpu, fyrir að sænga með 15 ára stelpu, nú eða strák. Þess vegna væri kannski æskilegt að bæta við einhverju svona “gráu svæði” sem myndi leysa þetta vandamál. Þarna er kannski loksins komið tækifæri fyrir hina margfrægu gullnu hjásvæfureglu til að komast í lög. Þ.e. að allir megi sofa hjá öllum sem eru yfir 18 ára en þar sem einstaklingar undir 18 ára koma við sögu skuli eftirfarandi regla gilda:

“Skal yngri/yngsti einstaklingur í mökum ávallt hafa í minnsta lagi náð þeim aldri sem reiknast út frá aldri eldri/elsta einstaklings í téðum mökum:

(hæsti aldur)/2 +7”

Pæling.

Wednesday, March 14, 2007

Helgi á Íslandi

Helgi Hjörvar er á Íslandi. Meira var það ekki að sinni.

Nei, djók. Smá glens fyrir langþreytta lesendur sem bjarni.com hefur vanrækt upp á síðkastið.

Eftir að hafa þreytt miðannaprófin var förinni heitið heim til Íslands. Orðinn vanur þeim þægindum að fljúga í hálftómum flugvélum var það mjög slæm tilbreyting að ferðast í fullri vél á leiðinni heim. Ég var sem sagt í gluggasæti með konu, köllum hana þétta, mér við hlið, fullvaxinn karlmann fyrir framan og lítið barn fyrir aftan. Konan myndaði þrýstipúða í hliðinni, maðurinn hallaði sér vel aftur þegar ég í augnabliksbrjálæði gaf honum möguleika á því og barnastóllinn fyrir aftan mig skorðaði mig þannig að ég gat ekki hallað mínu sæti aftur. Allt saman mjög óheppilegt og flugið til baka var mun þægilegra þegar frelsi þess að hafa engan við hliðina á mér sneri aftur. Þegar ég kom heim var bjartur og fallegur morgun, ólíkt svartnættinu sem mætti mér um jólin. Þótt ég timdi varla að sofa daginn frá mér varð ég að gera það til þess að vera með orku til þess að trylla lýðinn um kvöldið, enda búinn að setja talsverða pressu á sjálfan mig með umfjöllun og skoðanakönnun um viðreynslur.

Niðurstöður þeirrar könnunar sönnuðu hið fornkveðna að hagsmunir viðreynanda og áhorfenda viðreynslunnar fara sjaldan saman. Þrátt fyrir að lesendur hafi verið nokkuð ósammála um hvaða aðferð væri best var einhugur um það að haglabyssan skyldi verða notuð, helst afsöguð. Þá fékk ég það líka staðfest að a.m.k. tvær stúlkur/konur lesa bjarni.com þar sem “Vertu bara þú sjálfur” fékk tvö atkvæði. Þegar á hólminn var komið var að sjálfsögðu öll ákvarðanataka út um gluggann og handahófskennt vopnaval með áfengiseitrun varð niðurstaðan. Þrátt fyrir, eflaust, mikinn spenning lesenda verð ég að valda vonbrigðum og gefa ekkert upp um árangur veiðiferðarinnar. Slíkt bæri vott um dómgreindarleysi auk þess sem ég er nærgætnari en svo að taka ekki tillit til tilfinninga þeirrar stúlku/stúlkna sem kunna að hafa komið við sögu.

Annars var helgin bara helvíti góð. Alltaf gaman að koma heim, hitta fjölskyldu og vini og komast í bolta.

Fyrir tilviljun horfði ég á tvær myndir í gær sem fjölluðu um sjónhverfingamenn frá því um 1900. Mér finnst alltaf magnað þegar svona myndir koma í pörum. Sem dæmi um fyrri pör má nefna Volcano/Dante´s Peak og Armageddon/Deep Impact. Sjónhverfingatvennan The Illusionist/The Prestige skaut nú líklega hinum ref fyrir rass enda leiðum að líkjast. Vil ekki segja mikið um þær. Þær eru frekar keimlíkar, en ég ráðlegg þeim sem eru að leita sér að góðri mynd um sjónhverfingalistamenn frá 1900 að velja sér Prestige frekar.

Sunday, March 04, 2007

Midterms og svo heim

Ágæt helgi er senn að baki. Tvei íslenskir bankapjakkar voru á ferð í gegn og við Rabbi tókum þá út á lífið, út að borða og svo á klúbbana í Meat-Packing.

Annars standa nú yfir reglubundin leiðindi, næsta vika er uppfull af prófum. En þegar þeim lýkur ætla ég að verðlauna sjálfan mig með dirty weekend in Iceland. Af því tilefni finnst mér ástæða til að slengja fram einu gamlagotti sem fjallar um ýmsar leiðir til að nálgast hið margfræga hitt kyn. Þessi pistill var birtur á Skítnum þann 9.september, 2004. Njótið heil.

Vopnaval

Eins og einhverjir lesendur Skítsins kannski vita er ég einhleypur. Hvers vegna það er veit ég ekki alveg. Sambandsviljinn er alveg fyrir hendi svo að ekki er það vandamálið. Því hlýtur annað tveggja eiginlega að vera satt: Annaðhvort er ég mjög óáhugaverður eða ég er að beita röngum aðferðum í tilraunum mínum til þess að komast í kynni við hitt kynið. Ef hið fyrra er rétt er lítið við því að gera og raunar frekar niðurdrepandi. Gerum því ráð fyrir að það sé seinna atriðið sem sé satt.

Viðreynsla getur í grundvallaratriðum endað á tvo vegu: Með árangri eða höfnun. Það sem knýr mann til viðreynslu er að sjálfsögðu löngunin til þess að ná téðum árangri og það sem heldur aftur af manni er óttinn við höfnunina. Spurningin er bara hvort löngunin til árangurs yfirstígur óttann við höfnun. Í raun snýst þetta um væntar afleiðingar viðreynslunnar, þ.e. hvers virði telur maður árangurinn, hversu slæmt er að láta hafna sér og hverjar líkurnar á hvoru fyrir sig eru.

Mér sýnast fjórar aðferðir koma til greina:

i) Sniperinn.

Hérna er eingöngu stefnt að besta mögulega árangri. Þessi aðferð felst í því að kanna alla möguleika, meta hvern og einn vel og vandlega, velja það skotmark sem hefur hæst árangursgildi og jafnframt jákvætt væntigildi og eyða öllum nauðsynlegum tíma og orku í viðkomandi skotmark.

ii) Hálfsjálfvirka.

Þessi aðferð felst í því að hámarka væntigildi kvölds. Hér er reynt við allt sem hefur jákvætt væntigildi. Aðferðin gengur út á það að á endanum hlýtur eitthvað að takast sem maður kann að meta án þess að líða mikið fyrir hafnanir. Lítið vægi er sett á höfnun.

iii) Shotgun.

Þessi aðferð felst í því að hámarka líkur á einhverjum árangri. Hún gengur út á að reyna hratt og örugglega við allt sem maður sér. Viðreynsluhraðinn er svo keyrður meira upp eftir því sem á kvöldið líður. Svo fremi sem maður sé ekki stórslys ætti að vera ómögulegt að ná ekki árangri með þessari aðferð. Árangurinn getur hins vegar verið mjög umdeildur. Ekkert vægi er sett á höfnun.

iv) Byssustingur.

Þessi aðferð felst í því að lágmarka líkur á höfnun. Hér er beðið eftir algjöru dauðafæri. Bráðin er lokkuð hægt og rólega án þess að taka nokkra alvöru áhættu á höfnun. Þegar alveg ljóst er í hvað stefnir er látið til skarar skríða. Þessi aðferð er ekki mjög afkastamikil en ætti að skila manni mjög öruggum og traustum árangri þegar hún gengur.

Allar hafa þessar aðferðir kosti og galla og eflaust eru til fleiri. Sjálfur held ég að ég beiti byssustingnum of mikið. Hann er hægvirkt veiðitæki sem áhættufælnir sækja oft í. Ég hef séð menn í shotgun-ham og á erfitt með að sjá sjálfan mig með haglarann að vopni. Fyrir áhorfendur er þó shotgun líklegast með hæst skemmtanagildi.

Friday, March 02, 2007

1.mars - Fyrsta hlaup - Vor í lofti

Eftir kaldan janúar og ískaldan febrúar er loks farið að hylla undir bjartari tíma. Dagarnir eru farnir að lengjast lítillega en það sem mikilvægara er hitinn er farinn að rísa viku frá viku.

Ég er búinn að bíða eftir því lengi að geta tekið fram hlaupaskóna að nýju og hlaupið í sólinni í Central Park og loksins kom tækifærið. Ég fór reyndar fullgeyst til að byrja með, eins og kýrnar á vorin, og sprakk á limminu eftir 5 km. En rölti síðan og skokkaði til skiptis aðra 5. Síðan hljóp ég upp á campusinn, þar sem nemendur eru greinilega farnir að finna vorlyktina því aðaltröppurnar á campusnum voru þéttsetnar af fólki sem baðaði sig í sólinni. Síðan fór ég í gymmið, tók nokkur tæki og sneri heim á leið. Á leiðinni niður umræddar þéttsetnar tröppur, er ég labba niður, helvíti reffilegur í hlaupagallanum eftir lyftingar og hlaup, skrikar mér fótur og ég hryn niður tröppurnar og ligg kylliflatur. Fólk allt í kring brosti létt og spurði mig, af almennilegri New York kurteisi, hvort ekki væri í lagi með mig. Ég játti því og rölti svo heim á leið, aðeins minna kúl en nokkrum sekúndum áður en samt helvíti reffilegur.

En frábært að vorið skuli vera farið að láta í sig glitta og ljóst að nú fer hlaupum að fjölga jafnt og þétt.

Thursday, March 01, 2007

Kvöldstund í Carnegie Hall

Á mánudagskvöldið fór ég í hina fornfrægu tónleikahöll Carnegie Hall. Höllin hefur frá 1890 hýst ýmsa stórlistamenn og menn muna kannski eftir því að Andy Kaufmann hélt sína frægu “Milk and Cookies” sýningu þar.

Tónleikarnir sem ég fór á voru til að styrkja og vekja athygli á neyð Tíbeta. Sem ötull baráttumaður fyrir sjálfstæði Tíbeta gat ég að sjálfsögðu ekki látið mig vanta á þetta. Það hafði ekkert með alla listamennina að gera sem voru á dagskránni. Alls voru um 10 mismunandi listamenn.

Fyrstir á svið voru tíbetskir ungmunkar sem hummuðu og blésu í trérör í allt of langan tíma. En þegar þeir luku sér loksins af tók betra við. Sigur Rós var meðal þeirra fyrstu, tóku tvö lög af stakri prýði og fengu rífandi viðtökur frá öllum salnum. Á eftir þeim kom Lou Reed, fyrrum söngvari Velvet Underground og stórsólóisti. Ég var mjög spenntur fyrir að sjá hann, enda á hann bæði Velvet-perlur sem og eigin gullmola á við “Walk on the Wild Side” og “Perfect Day”. Hann skeit hins vegar í brók. Mætti í einhverjum gulskræpóttum ælugalla, frekar sjúskaður á að líta og tók nýtt stöff, tvö lög. Skaut algjörlega framhjá. Á eftir honum kom síðan Debbie Harry, fyrrum söngkona pönk-sveitarinnar Blondie. Hún byrjaði á einhverju lítt þekktu lagi en tók síðan “Heart of Glass” við mikinn fögnuð. Þá kynnti hún líka til sögunnar besta flytjanda Ray Davies, fyrrum söngvara Kinks. Þau tóku saman “Lolu” og síðan tók Ray helstu slagara Kinks. Karlinn fékk alla höllina með sér í söng, var að reita af sér djóka milli laga og var í alla staði til hins mesta sóma. Lou Reed hefði betur mátt haga sér svona. Næstur á svið var Ben Harper, hvers tónleika ég fór á í Central Park í haust. Hann var fínn en mátti sín lítils í samnburði við Ray gamla. Þá var komið að Micheal Stipe, söngvara REM. Hann byrjaði á tveimur nýlegum lögum, eitthvað Jesús-tengt rugl og svo lag um Kurt Cobain. Hvort tveggja saug dauða rottu. Hann bjargaði andliti með því að enda á Everybody Hurts sem Patti Smith aðstoðaði hann með. Patti þessi Smith er orginal pönk-rokk-hippaljóðagella sem opnaði tónleikana á löngu og dramatísku ljóði um eitthvað, ég missti einbeitinguna fljótt. Síðan endaði Patti á að kyrja eitthvað “People are the Power”-lag sem hún samdi örugglega í Víetnam-stríðinu og hefur verið að raula síðan.

Í það heila var þetta ljómandi skemmtilegt kvöld. Flottir flutningar með nokkrum skitum inn á milli og mjög gaman að hafa komið inn í þessa mögnuðu höll.

Og gleðilegan bjórdag.

Þetta var flytjendalistinn:

Laurie Anderson
Ray Davies (fyrrum söngvari Kinks)
Philip Glass
Ben Harper
Debbie Harry (fyrrum söngkona Blondie)
Lou Reed (Velvet Underground og sólókarl)
Sigur Rós
Patti Smith
Micheal Stipe (REM)

Tuesday, February 27, 2007

Þorrasturlun
-opið bréf til Íslendinga í New York og víðar

Kæru vinir.

Á hverju ári höldum við Íslendingar upp á þá fornu tækni sem fólst í því að taka ólíklegustu innyfli, útyfli og aðra dýraafganga og gera úr þeim geymsluþolinn herramannsmat. Eins og þið vitið væntanlega flest ætlar Íslendingafélagið hér í New York að halda slíkan fögnuð eftir réttrúmlega hálfan mánuð, laugardaginn 17. mars. Áhuginn á blótinu hefur verið í veldisvexti síðan tilkynnt var um það, miðasala er nú í algleymingi og fer hver að verða síðastur að verða sér úti um miða. Búist er við sturlaðri stemmningu og er stórtímaritið “Fólk tímarit”, eða “People Magazine” eins og það heitir á frummálinu, með mikinn viðbúnað vegna The Curse of Thorri Party eins og þeir orða það svo skemmtilega.

Ef þetta dugði ekki til að sannfæra ykkur þá má benda strákunum á að New York er ein helsta módelgeymsla Íslendinga og aldrei að vita að ungmódelin flykkist á blótið til að innbyrða blóðmör og hamsatólg nú þegar þyngdarlágmörk eru farin að ryðja sér til rúms í tískuheiminum. Fyrir stelpurnar nægir væntanlega að vita að ég mæti.

Ég hvet því alla til að skella sér á miða hið snarasta og byrja að pússa ballskóna. Allar nánari upplýsingar má finna hér og ef menn vilja taka forskot á sæluna og kíkja á salinn má sjá hann hér. Og endilega dragið þá Íslendinga sem þið þekkið með.

Fyrir þá sem ekki borða umræddan þorramat má búast við því að einhverji taki skrens á mac fyrir blótið að íslenskum sið þótt vissulega væri það líka mjög skemmtilegt ef einhverjir myndu sleppa því alfarið að borða og drekka þeim mun meira í staðinn. Slíkt getur ekki gert neitt nema æsa leikana.

Svona fyrifram þá vil ég segja að þótt ég viti að þau ykkar sem láta sannfærast af þessum fortölum mínum og mæta verði mér mjög þakklát þá þurfið þið ekki að þakka mér. Það er mér næg umbunun að vita að ég hef aukið gleðina í heiminum.

Með von um að ég sjái ykkur þar,
Bjarni.

Monday, February 26, 2007

Listirnar

Var að koma heim eftir kvöld í leikhúsinu og svo að horfa á Óskarsverðlaunaafhendinguna.

Ég fór í kvöld í annað skipti á söngleik hér í New York, en það var söngleikurinn Fantasticks (ég er ekki að misrita, það er skrifað svona). Þetta er víst “longest running musical” á einhvern mælikvarða og átti Tom Jones hlut í samningu þessa söngleiks. Hann er svokallaður “off-broadway” sem þýðir að þetta er ekki einn af stóru söngleikjunum sem eru í gangi. Þetta var í litlu leikhúsi, voðalega létt og svona mátulega skemmtilegt. Áður hafði ég farið á Lion King sem var mun skemmtilegra. Það var risauppfærsla, með flottri tónlist og búningum, stórum flytjendahópi og í stóru leikhúsi. Mæli mun frekar með einhverju slíku ef fólk vill fara á söngleik en fínt að hafa prófað þetta.

Stærsti sigurvegari Óskarsins í ár var án efa Martin Scorsese með mynd sína Departed, sem fékk alls fern verðlaun, besta mynd, besti leikstjóri, besta ófrumsamda handritið og klippingu. Það hefði verið spurning hver fengi leikstjóraverðlaunin ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að Scorsese hefur aldrei fengið verðlaunin og mörgum finnst hann eiga þetta inni. Leikaraverðlaunin fóru að þessu sinni bæði til túlkenda frægra persóna mannkynssögunnar; Forrest Whittaker í hlutverki mannætunnar Idi Amins og Helen Mirren sem Englandsdrottning. Annars má segja með þetta árið að verðlaunin dreifðust býsna jafnt yfir myndirnar. Til dæmis var ég mjög ánægður með það að Little Miss Sunshine fékk tvenn verðlaun, fyrir handrit og leik í aukahlutverki. Lágstemmd en stórskemmtilega mynd þar á ferð. Ein óvæntustu verðlaunin voru veitt fyrir besta aukaleik kvenna þar sem fyrrum Idol-keppandinn Jennifer Hudson bar sigur úr býtum og náði næstum að komast með tærnar þar sem Gwyneth Paltrow hafði hælana í að væla í þakkarræðunni.

Sú mynd sem má vera svekktust með útkomuna er Babel, sem hafði verið talin líklega til afreka. Þá fengu Bréfin frá Iwo Jima lítið í sinn hlut. Clint Eastwood þarf svo sem ekkert á neinum skratufjöðrum að halda, hvorki fyrir arfleifð sína né fyrir sjálfan sig því hann hefur unnið allt. Hins vegar finnst mér að þessi hugmynd hans um að skrifa um sömu orrustuna frá báðum hliðum vera það mikilvæg, að mér hefði fundist gaman að hann fengi eitthvað. Hann fékk reyndar æðstu orðu Frakklands fyrir þetta framlag sitt til gagnkvæms skilnings og heimsfriðar þannig að hann fékk væntanlega næga viðurkenningu. Annar sem líklegur er til að hljóta viðurkenningar fyrir sitt framlag til heimsins er Al Gore sem uppskar líka eins vel og hann gat búist við. Heimildamyndin, An Inconvenient Truth, sem hann er hjartað og sálin í fékk tvenn verðlaun. Pólitísk skilaboð Hollywood eru skýr og það kæmi mér ekki á óvart að þessi fyrrum verðandi forseti Bandaríkjanna fengi á endanum friðarverðlaun Nóbels fyrir þessa vakningarherferð sína.

Síðan er ég að fara á tónleika í Carnegie Hall á morgun/í dag (mánudag) sem verður betur skýrt frá á morgun eða hinn.

Vil minnast á að ég fór á Bubba-Gump Shrimp veitingastaðinn á Times Square. Hann var eins og við var að búast, eins ofurtúristalegur og hægt var, maturinn lala og Forrest Gump í gangi á öllum veggjum. Það er svo sem almenn regla að maður á ekki að borða nálægt Times Square og ef fólk neyðist til þess þá mæli ég með Olive Garden, hann er hvað skástur þarna.

Að lokum vil ég hvetja alla til þess að fylgjast með því þegar hlutabréfamarkaðurinn opnar á morgun. Eftir frábærar fréttir af lánshæfismati bankanna er annað ómögulegt en að þeir stökkvi á morgun. Persónulega spái ég því að bankarnir hækki um 4-5% á morgun og haldi svo áfram að hækka á næstu dögum og vikum. Þeir sem ekki enn eru stokknir á lestina ættu að gera það ef þetta springur ekki þeim mun hærra upp á morgun.

Monday, February 19, 2007

Körfubolti

Ég fékk ágætisskammt af körfubolta síðustu vikuna. Fyrst á leik í deildinni og svo sá ég stjörnuleikinn. Niðurstaðan er að þetta er óttalegt drasl.

Á þriðjudaginn fór ég sem sagt með Magnúsi bróður á New Jersey Nets vs. San Antonio Spurs í New Jersey. Ég hef farið á einn annan NBA-leik áður, á Knicks-leik síðasta vor. Báðir þessir leikir báru þess sterk merki að heimaliðið sem ég varð auðvitað að styðja gat ekki blautan. New Jersey er reyndar enn í einhverjum séns á að komast í úrslitakeppnina en hann virðist ekki mikill. San Antonio labbaði yfir þá í öðrum leikhluta og hélt síðan 20 stiga mun út leikinn og þegar ég segi labba þá meina ég labba. Það voru engin átök í þessu, þetta var bara hægt og rólegt og menn leggja sig greinilega ekki 100% í alla leiki.

Síðan var stjörnuhelgin núna að líða. Hún var haldin í Las Vegas þetta skiptið og hún fer þannig fram að á föstudegi er nýliðaleikur, milli bestu nýliða austur- og vesturdeildarinnar. Daginn eftir eru svo hæfileikakeppnirnar þar sem ber hæst þriggjastiga- og troðslukeppnina. Reyndar var núna óvenjuleg keppni þar sem gamli refurinn og núverandi vínarbrauð, Charles Barkley, fór í kapphlaup við 67 ára gamlan dómara og marði sigur. Það er alltaf gaman að troðslukeppninni, sjá hvað mönnum dettur í hug en vandinn er samt bara sá að það er búið að gera flest og lítið nýtt að sjá. Þess vegna fannst mér eiginleg þriggjastigakeppnin skemmtilegri, hún er hröð, mikill metnaður og menn eru að gera sitt allra besta. Á sunndeginum er svo stjörnuleikurinn sjálfur þar sem allir bestu leikmenn austurs og vesturs mæta. Þetta er óttalegur súkkulaðikúluleikur þar sem enginn spilar vörn og öllum finnst allt voðafyndið og menn eiga bara að troða sem mest. Leikurinn fór enda 153-132 og það var bara ekkert varið í hann. Það er ekkert mál að troða og eitthvað ef maður er 2,10 metrar og það er enginn að reyna að stoppa mann. Þetta er svona eins og að horfa á fyrirgjafaleik í fótbolta, algjört fret. Það var reyndar gaman að sjá gamlar troðslur úr alvöru leikjum endursýndar, sem er líka highlight síðustu 50 ára.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta hægur leikur og menn spila allt of marga leiki yfir tímabilið þannig að það leggur sig enginn alveg í þetta. Síðan gengur körfubolti náttúrulega umfram allt út á það að vera stór og samkeppnin er í sjálfu sér ekki mikil þar sem búið er að sía út svo stóran hluta þjóðarinnar sem er undir tveimur metrum. Annað en til dæmist í fótbolta þar sem meira og minna hver einasti maður fittar inn í kríteríuna ef svo má segja. Úrslitakeppnin á það reyndar til að vera skemmtileg, þegar menn eru farnir að gefa sig alla í leikinn. Þannig að kannski kíkir maður á það þegar vora tekur.

Síðan fór ég í partý til Jóa Wiium sem var að klára einhver próf í sínu námi á föstudeginum. Það var fínt geim sem teygði sig vel inn í nóttina. Annars eru núna midterms að fara að detta inn þannig að það gæti farið svo að maður verði rólegri næstu vikurnar en ella. En enginn veit hvað framtiðin ber í skauti sér fyrr en öll er nema þótt síður sé þannig að við sjáum hvað setur um síðir.

Monday, February 12, 2007

Í rólegri kantinum

Á fimmtudagskvöldið voru teknir nokkrir skyldubjórar, hvað er fimmtudagur án smá öls? Ég, Rabbi og tvær íslenskar stelpur tókum nokkra á local-stað. Þar sem við Rabbi vorum enn heitir eftir Justin voru tekin nokkur lauflétt spor og þóttum við taka okkur sérstaklega vel út á gólfinu.

Föstudagurinn var eins rólegur og hann getur orðið, ég passaði bara litla pjakk.

Á laugardeginum mætti svo Gummi Kristjáns á svæðið og hélt upp á afmælið sitt. Það var farið á Tapas-bar, ég held að það sé í fyrsta skipti sem ég fer á svoleiðis. Fínt að prófa það, skemmtileg stemmning að vera með haug af smáréttum og narta sitt á hvað. Síðan var farið á léttpöbbarölt í kuldanum sem er búinn að vera ógurlegur síðustu tvær vikurnar. Allt að 10 stiga frost, og 18 með vindkælingu. Bölvað drasl.

Komandi vika verður vonandi hress og skemmtileg. NBA-leikur á morgun og svo plönuð djömm á fimmtudag og föstudag. Vonandi næ ég að gera eitthvað sem þess virði er að minnast á eftir helgi.

Ég læt annars eitt gamlagott fylgja. Þessar lífsreglur þarf að minna reglulega á þannig að menn verði ekki eins og kjánar.


Klæddu þig eins og maður, maður

Ég reif mig aðeins upp úr venjunni um síðustu helgi og skellti mér í sund í þynnkunni. Ég dýfði mér í pottana í Laugardalnum með félaga mínum og ræddi menn og málefni eins og gömul kempa. Þegar ég var svo að klæða mig sá ég svona gamla kempu, nokkuð vel í holdum og komin með þó nokkur ár í reynslubankann, vera að klæða sig. Öllu heldur sá ég hann þegar hann var kominn í báða sokkana og ekkert annað. Þetta er sjón sem ég vil helst ekki sjá aftur. Þetta brýtur í bága við allt sem mér finnst gott og eðlilegt varðandi það hvernig maður á að klæða sig.

Þegar karlmaður klæðir sig eru tvö grundvallarsjónarmið sem þarf að taka tillit til. Það eru annars vegar útlitssjónarmið og hins vegar hagnýt sjónarmið. Almennt skal klæða sig þannig að á sérhverjum tímapunkti væri hægt að labba inn á mann og maður liti ekki út eins og kjáni. Einnig skal reyna að hámarka hluta líkama sem er hulinn þegar hver flík er klædd á. Það eru mest megnis karlmenn sem eru í kring og almennt vilja þeir sem minnst af öðrum karlmönnum sjá. Þá aðeins má víkja frá þessari reglu ef slíkt skapar sérstaka örðugleika við íklæðningu eða ef miklum þægindum er fórnað.

Grundvallarregla

Fyrsta flík sem líkaminn er klæddur í skal ávallt vera nærbrók. Það er fátt kjánalegra en maður í sokkum eða bol einum saman. Þessi regla er aðeins frávíkjanleg ef ekki er ætlunin að vera í nokkurri nærbrók (eða vera commando eins og sagt er). Þá skal jafnan klæða sig fyrst í innstu brókina, hver sem hún má vera.

Viðmiðunarregla 1

Að undanskillinni nærbrók skal aldrei vera tveimur flíkum meira á efri líkama heldur en neðri eða öfugt. Til dæmis skal ekki klæða sig í bol og peysu áður en í buxurnar er komið. Einnig er óeðlilegt að ef tvennar buxur, svo sem stillongs og ytri buxur, eru planaðar í klæðnaðinum að í þær báðar sé farið áður en eitthvað er komið á efri hlutann. Helsta undantekningin frá þessari reglu er sú að ef endanlegur alklæðnaður brýtur gegn reglunni er ekkert við því að gera. Til dæmis ef alklæðnaður samanstendur af nærbuxum, sokkum, bol, peysu, jakka og buxum er ómögulegt annað en á einhverjum tímapunkti verði tveimur flíkum meira á efri hluta líkamans.

Viðmiðunarregla 2

Sokkar eru lítils háttar atriði í alklæðnaði í samanburði við aðra þætti. Íklæðning þeirra er ekki forgangsatriði og skal að jafnaði vera komin flík á efri og neðri hluta líkamans (fyrir utan nærbrók) áður en sokkarnir eru settir á fæturna. Engu að síður eru sokkar hluti af innsta lagi klæðnaðarins svo að eðlilegt er að röðin komi að sokkunum þegar ein flík að ofan og ein að neðan er íklædd. Helstu undanþágur frá þessari reglu eru ef sokkar eru sérstaklega erfiðir í að klæðast, til dæmis vegna stærðar, eða ef almenn lýti eru á fótum sem ástæða er að hylja.

Þessar reglur eiga við klæðnað karlmanna en nokkuð samsvarandi reglur ættu að gilda um konur, eðlilegt er að nærbrók og svo brjóstahaldari séu fyrstu skref íklæðningar kvenna. Svo væri eðlilegt að pils/buxur/sokkabuxur kæmu næstar. Þó eru málefnaleg rök fyrir því að, ef ætlunin er að vera í sérlega þröngum bol eða toppi, þá sé klætt í hann áður en neðri hlutinn er hulinn. Þessar hugleiðingar mínar geta þó aldrei verið annað en vangaveltur þar sem ég hef ekki kynnst því að klæða mig í alklæðnað kvenna og þeim vandræðum og sjónarmiðum sem kunna að vakna er íklæðningin er tvinnuð saman við farðaásetningu og þess háttar.

Thursday, February 08, 2007

Tónleikar með Justin Timberlake!

Ég var að koma af tónleikum í Madison Square Garden með hinum eina sanna JT. Þetta var mögnuð upplifun. Justin er án efa stærsta poppstjarnan í dag og sýndi í kvöld hvers vegna.

Við Rabbi vorum á leiðinni á tónleika með Margréti Eir niður í bæ í kvöld þegar Rabbi mundi eftir tónleikum með Justin Timberlake. Hann hafði reynt að fá miða á þá en það var löngu uppselt. Við ákváðum því að stoppa við í Madison Square Garden, á leiðinni til Margrétar, til þess að sjá hvort nokkuð væri mögulegt að fá miða fyrir utan. Eftir nokkrar samningaviðræður við nokkuð vafasama gaura og könnun á gæðum miðanna slógum við til. Margrét var því kvödd með söknuði og við röltum inn í höllina í miðjum hópnum af 15 ára stelpum.

Pink var á sviðinu þegar við komum í hús. Ég hef nú ekki mikið um hennar tónlist að segja en hún gerði ágætis loftfimleikashow með tveimur bikini-vinkonum sínum. Eftir að hún lauk sér af tók við millibilskafli á meðan sviðið var undirbúið fyrir JT. Allt í einu trylltist svo höllin og eftir að við náðum að átta okkur á því hvaðan mestu lætin komu sáum við að fasteignagreifinn Donald Trump var mættur við gríðarlegan fögnuð. Hann tók því ágætlega og þurfti í kjölfarið að sitja fyrir á nokkrum myndum og gefa eiginhandaráritanir. Aftur trylltist höllin og við staðsettum lætin og þá var Sean Puffy Puff Daddy P.Diddy Combs mættur á svæðið við svipaðan fögnuð og Trumparinn, enda menn með svipaðan bakgrunn.

Þá tók við nokkur bið en svo dimmuðust ljósin og komið var að því. Tónlistin hófst, crowd-ið trylltist og þá kom Justin upp úr sviðsgólfinu í hvítum jakkafötum og þakið ætlaði af húsinu. Hann byrjaði rólega, tók síðan sínar helstu partýbombur eins og Seniorita, SexyBack og fleiri lög sem heyrast á hverju kvöldi á Oliver. Síðan tók hann sér hlé og heitasti producerinn í dag, hinn íturvaxni Timbaland, þeytti skífur og glamraði. Þá mætti Justin aftur, spilaði nokkur af sínum hressari, róaði sig síðan niður í lögum eins og Cry Me a River. Undir blálokin tók hann síðan lag úr Saturday Night Live við gríðarlegan fögnuð. Það er lagið “Dick in a Box” sem hefur farið sigurför um netið og má meðal annars finna hérna á youtube.

En í það heila þá hef ég aldrei áður upplifað þvílíka popptónleika og aldrei séð einn mann eiga crowdið jafngjörsamlega, nema kannski þegar ég kemst í vibe-ið og á gólfið á Oliver. En það var óhugnarlegt til þess að hugsa að hann var þarna með fleiri þúsund konur sem hefðu allar lagst flatar við minnstu bendingu. Það er alveg ljóst að Justin er búinn að reka af sér slyðruorðið frá N´Sync og er orðinn miklu meira. Hann minnir að milu leyti á goðið sitt, Micheal Jackson, og blandar saman lagahöfundar-, söng-, hljóðfæra- og danshæfileikum sínum til að búa til hina últimötu poppstjörnu. Þessi pjakkur sem er árinu yngri en ég skilgreinir bara einfaldlega töff í dag. Þegar ég verð stór ætla ég að verða eins og hann.

Farinn í söng- og danstíma.

Tuesday, February 06, 2007

Síðasta vikan

Ég hef verið duglegur við að reyna að njóta Nýju Jórvíkur síðustu dagana. Eftir að hafa skilað af mér skiladæmum á fimmtudagskvöldið síðasta var Happy Hour tekinn. Ég náði nú reyndar bara rétt í rassinn á ókeypis bjórnum en Rabbi hafði þá verið iðinn við kolann og innbyrt á við tvo þannig að eftir að okkur var hent út úr business skólanum lá leiðin á local pöbbana þar sem ég reyndi að ná upp forskotinu sem Rabbi hafði. Ég náði því nú aldrei en náði samt marktæktri ölvun. Hins vegar voru hverfisbúllurnar ekki jafnheillandi og tveimur vikum fyrr. Það virðist sem upphafsannartryllingurinn sé runninn af college-píunum.

Kvöldið eftir fórum við ásamt íslensku pari á ágæta tónleika þar sem stærsta nafnið var Chris Garneau sem fæstir kannast væntanlega við. Garneau var ágætur þrátt fyrir að vera þveröfugur, mjög róleg píanó-ballöðu-tónlist sem sumum fyndist kannski fullmikið væl. En í það heila fínir tónleikar og fínt kvöld.

Laugardagskvöldið var rólyndismatur með nokkrum Íslendingum og svo nokkrir öllarar.

Sunnudagskvöldið var síðan stærsti hátíðardagur Bandaríkjanna á eftir Þakkargjörðinni, það er Super Bowl. Brynja Sig er greinilega með mikil sambönd í Harlem því hún kom okkur í rosapartý í því ágæta hverfi. Þar komum við inn í þokkalega stóra íbúð með þremur sjónvörpum, þar af tveimur 40+ tommu plasmadjöflum. Í það heila hafa líklega komið um 50-70 manns og við vorum svona 5 hvít! Restin var locallinn úr Harlem, blanda af svörtum og hispanics. Mjög sérstakt að vera allt í einu orðinn svona rosalegur minnihlutahópur og mjög gaman að sjá alvöru tjáningu ólíkt því sem þekkist hjá hvíta manninum.

Leikurinn sjálfur byrjaði ótrúlega með snertimarki eftir upphafsspyrnuna sem hefur aldrei áður gerst í Super Bowl. Skömmu seinna kom annað flott snertimark en eftir það var þetta steindautt drasl. Rigning olli mörgum mistökum og leikurinn varð mjög hægur og vélrænn. Hálfleikssýningin kryddaði leikinn þó nokkuð. Það var hinn eini sanni Prins sem tróð upp. Hann endaði dagskrána á því að taka hið ljúfsára Purple Rain í rigningunni og purpuraupplýstri stúkunni við gríðarlegan fögnuð bæði viðstaddra á leiknum og í partýinu. Í það heila mjög skemmtileg upplifun.

Vonandi heldur maður áfram að vera svona duglegur.

Ég hvet fólk, sem áhuga hefur, að kíkja á myndasíðuna hans Rabba til að sjá þetta allt í myndmáli.

Monday, January 29, 2007

Skyndiáhlaup á Ísland

Eftir tæpar tvær vikur hérna í the U.S. of A. var ástæða til að skella sér aftur heim á hinn skammdegishrjáða Klaka. Ástæðan var brúðkaup Jóa Árna, eðaldrengs og æskuvinar. Ég flaug því heim á fimmtudagskvöldið síðasta, lenti á föstudagsmorgun, lagði mig í nokkra tíma og skellti mér svo í brúðkaupið. Það tókst vel í alla staði, fyrst falleg athöfn í kirkjunni sem endaði á “We are the champions” á orgeli og síðan glæsileg veisla í Rúgbrauðsgerðinni. Þar stal senunni frábær veislustjóri, Daníel Isebarn, sem lagði salinn með hárfínni blöndu af fimmaurum (Brúðkaupsgerðin mun sitja lengi eftir í minnum manna), góðlátlegu gríni og svívirðingum þar sem enginn var óhultur, hvort sem það voru foreldrar brúðhjónanna eða fyrrverandi forseti Alþingis. Eftir þessa glæsiveislu þótti kallinum að sjálfsögðu ástæða að taka Óliverinn. Þar rakst ég á fullt af góðkunningjum og í það heila var kvöldið bara frábært.

Kvöldið eftir var líka nokkuð gott þótt þynnkan hefði dregið úr manni nokkurn mátt. Kvöldið var hafið á léttri pungadrykkja með Jóa Ben og nafna mínum Gíslasyni og bæjarferð í kjölfarið. Nokkrir pöbbar voru teknir, þar á meðal Óliver aftur þar sem trylltur stríðsdans var stiginn.

Síðan kom ég aftur heim til NY á sunnudagskvöldið. Góð helgarferð með góðri keyrslu.

Gamla-gott vikunnar er að þessu sinni í bundnu máli og er einmitt sérlega viðeigandi fyrir þessa helgi. Það er stórljóðið “Veruleikinn snýr aftur” sem birtist á Skítnum 19.janúar 2004.


Veruleikinn snýr aftur

Nú helgin er liðin svo helvíti fljótt
og heilafrumurnar færri.
Og mánudagsins, myrkur sem nótt,
morgun svo asskoti nærri.

Á föstudegi fjörið hefst,
fyrsti sopinn er laptur.
En fyrsti bjórinn félaga krefst
og fljótlega sopið er aftur.

Gamanið ríkir með gleði við völd
og gleymast áhyggjur allar.
Fjörið er mikið og fagurt er kvöld,
nú fögnum við konur og kallar.

Lítið frábrugðið laugardagskvöld
líður á svipaðan hátt.
Aftur er gaman og gleði við völd
og gengur svo langt fram á nátt.

En svo kemur sunnunnar dagur
og sviptir mann vímunni.
Og þá upphefst þunglyndisbragur
Í þynnkuglímunni.

Já, glíman er hörð og glíman er römm,
nú glímir hver fylliraftur.
Því vínið er svikult og víman er skömm
og veruleikinn snýr aftur.

Monday, January 22, 2007

Mánudags-gamla-gottið

Hér að neðan er fyrsti vikulegi skammturinn af gömlum skrifum mínum af Skítnum Græna sem okkur þótti öllum svo vænt um. Þetta er pistill sem hefur lengi verið mér hjartfólginn og vona ég að sem flestir hafi gaman að.

Ertu hress?
[birt þann 10.mars 2003]

Fyrir tæplega hálfu tungli síðan fjallaði Björn um Njörðinn, merkilega dýrategund sem hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á síðasta áratugnum. Annar merkilegur stofn er Hressi gaurinn. Hressi gaurinn er meindýr sem allir kannast við. Síðustu kynni mín af hressa gaurnum voru er einn slíkur labbaði inn á pizzastaðinn Devito’s og bað um tvo kjúklingabita, stóran franskar og stóra kók (laglegt hressi!). Það er nefnilega einn helsti eiginleiki hressa gaursins að hann telur sig vera fyndinn. Hressi gaurinn ferðast yfirleitt einn en þó kemur fyrir að hann birtist í fylgd nokkurra tímabundinna viðhlæjenda. Hendir hann jafnan mannskemmandi fimmaurum eins og fyrrnefndum í kringum sig í þeim tilgangi að bæta við þá sorglegu hjörð sem hann leiðir hverju sinni.

Annar stór eiginleiki hressa gaursins er sá að flestar þær sögur sem hann segir snúa að afrekum hans og mikilvægi. Flestar sögupersónur ævintýra hans eru kvenkyns og enda yfirleitt á því að lýsa hrifningu sinni á honum, biðja hann um að uppfylla þarfir sínar eða vegsama hann á annan hátt. Karlkyns sögupersónur eru minni háttar og lúta yfirleitt í lægra haldi fyrir hressa gaurnum. Þá er hressi gaurinn þeim eiginleika gæddur að, sama hversu góða sögu einhver nærstaddur á, þá getur hann alltaf toppað hana enda langhressastur.

Loks verður að geta þriðja stóra eiginleika hressa gaursins en það er almennur hávaði. Hinn hressi verður ávallt að láta fólk vita af nærveru sinni og gerir það jafnan með mikilli fyrirferð. Hressi gaurinn líkist að þessu leyti mikið systur sinni, Hávaðamellunni, sem reyndar hefur ekki verið gerð nógu góð skil á skítnum en aldrei að vita hvenær það gerist.

Nú ættu flestir lesendur að vera komnir að þeirri spurningu hvort þeir séu hressi gaurinn. Ef fleiri en einn eiginleiki á við ætti lesandi að fara að hugsa sig um og velta fyrir sér afhressun.

Þó skal þessi geta að stundarhressleiki er ekki talinn vítaverður enda sé viðkomandi hressi gaur þá einnig fulli kallinn. Viðmiðunarregla um hvort maður er fulli gaurinn er: “Ef þú veist ekki hver er fulli kallinn þá ert það þú.” Þó skal maður ekki vera fulli kallinn að jafnaði enda sé maður þá hressi gaurinn að jafnaði.

Að lokum verður að benda þeim ógæfusömu einstaklingum sem falla undir skilgreiningu hressa gaursins að einkar slæmt og varasamt er að vera einnig Njörður. Hinn hressi Njörður er eitt óvinsælasta dýr merkurinnar og á sér jafnan leiðinlega lífdaga.

Saturday, January 20, 2007

Gamalt og gott

Fjölmargir lesendur bjarna.com hafa komið að máli við mig og kvartað undan lágri pistlatíðni á síðunni. Oft er lítið við því að gera þar sem líf doktorsnemans getur orðið býsna þurrt í þó nokkurn tíma og þykir Bjarnanum þá oft skárra að birta ekkert heldur en að kreista blóð úr steini. Þar sem bjarna.com er hins vegar mjög umhugað um kröfuharða lesendur sína hefur verið ákveðið að brydda upp á ákveðinni nýbreytni. Á hverjum mánudegi verða héðan í frá birtar gamlar perlur Bjarnans af hinum Græna Skít heitnum eins og birgðir endast. Pistlarnir voru, eins og alþjóð veit, oft á tíðum algjörlega óborganlegir og verður síst of mikið að birta þá aftur marga hverja. Vonandi verður þetta lesendum bjarna.com einhver huggun þegar námið sverfur að og líf mitt verður leiðinlegra en Dr.Phil þáttur.

Friday, January 19, 2007

Fyrsta dagarnir og fyrsta djammið

Hélt áfram að sjá áhugavert mannlíf í bænum. Í þetta skiptið var það grimmdarlegur maður sem var að búinn að sérhæfa sig í krákuhljóðum af ýmsu tagi. Hann stóð sig sérlega vel, náði að tjá hin ýmsu hughrif krákunnar með fádæma tilbrigðum.

Annars hafa fyrstu dagar New York verunnar einkennst af öllu nema námi, hver þarf enda nám? Á fyrstu dögunum er lögð áhersla á að massa gymmið. Lykilatriði að skafa af sér jólasteikurnar og meðfylgjandi öl. Fyrr en varir verður maður orðinn vöðvafjall með fituhlutfall undir 5% og má ekki smeygja sér í þröngan bol án þess að þurfa að berja af sér æsta ungpíuhópa. Heimadæmin eru samt að byrja að hrannast upp og því er eins gott að tvíhöfðinn verði byggður upp sem fyrst!

Síðan var fyrsta djammið tekið í gær, fimmtudag. Byrjað var á Happy Hour í skólanum og svo farið á local bari Columbia-svæðisins til þess að sjá hvað nýársmarkaðurinn hafði upp á að bjóða. Heppnaðist bara nokkuð vel.

Í það heila byrjar endurkoman bara vel. Fyrstu tvær vikurnar á Íslandi voru líka frábærar þannig að ég leyfi mér að taka svolítið djúpt í árinni og segi bara eins og Kevin Federline: “Árið 2007 hefur bara byrjað alveg frábærlega hjá mér.” Vonandi verður áframhald á því.

Monday, January 15, 2007

Aftur í Stóra Eplinu

Nú er ég aftur kominn til New York eftir rúmlega þriggja vikna stórgott frí á Íslandi. Eftir gleði, gaman, sukk og svínarí á Stormskerinu er víst aftur komið að náminu.

Ég skellti mér strax á fyrsta degi niður í bæ í verslunarhugleiðingum. Ég fór beint niður á Times Square þar sem ég fékk strax skammt af New York. Á lestarstöðinni sat kona og spilaði á sög með fiðluboga. Gaman að því þótt maður hefði nú lítinn áhuga á að eiga svona á plötu. Síðan fór ég í Virgin Megastore þar sem ég sá þéttvaxinn “bróður” stíga dans út um alla verslun. Dansinn hafði nú ekki mikil áhrif á mig en megn svitalyktin af kauða olli því að ég hélt alltaf um 5 metra fjarlægð milli mín og hans. Á röltinu frá Tímatorginu sá ég svo öllu hæfileikaríkari rytmalistamann en sá var vopnaður ýmsum prikum, málningafötum og öðrum ílátum og framdi hið fínasta stomp við nokkuð góðar undirtektir nærstaddra. Alltaf gaman að góðum götulistamönnum.

Annars hefst skólinn á miðvikudag og þá fer allt á fullt.

Sunday, December 03, 2006

Dagar víns og rósa – aðallega víns

Frá því síðasti pistill var ritaður hefur verið öllu minni pressa heldur en fyrir maraþon og midterms. Kúrsar hafa verið rólegri og ég hef almennt verið rólegri yfir kúrsunum. Þá hefur líkamanum hrörnað hratt og örugglega þar sem hlaupum var alfarið skipt út fyrir áfengisneyslu þannig að í stað þess að hlaupa um þrisvar í viku, u.þ.b. eitt maraþon á viku, hafa verið tekin hátt í þrjú fyllerí á viku, flest í skemmtiskokkflokknum, eitt til tvö hálfmaraþon og eitt maraþon-fyllerí sem hafði mun meiri líkamleg eftirköst en hið raunverulega maraþon.

Ýmis tækifæri hafa gefist. Gamlir vinnufélagar úr Ís-, ég meina Glitni, mættu á svæðið og það kallaði á ölvun, sér í lagi þar sem námsmaðurinn komst í opinn bar í sterkari skilningi hugtaksins, þ.e. þar sem ókeypis áfengi kemur til þín. Slíkt hefur alltaf sína kosti og galla. Sömu helgi var tekin létt bæjarferð með alþjóðlegum hópi.

Helgina eftir gekk þakkargjörðarhátíðin í garð. Að sjálfsögðu var haldið upp á hana, U.S. style, horft á amerískan fótbolta (sem tekur fáránlega langan tíma) og svo kalkúnn étinn í hópi fjölskyldu og vina. Þá var líka fullt af Íslendingum í bænum þannig að við tókum góðan hitting yfir sushi og með því.

Þá var ég núna um helgina á smáskralli þar sem við hittum stelpu sem kvaðst vera dóttir Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York og mögulega næsta forseta Bandaríkjanna, en eftir google- og wikipedia-könnun hefur faðerni stúlkunnar verið dregið í efa. Hið sanna mun vonandi koma í ljós þannig að maður geti sett hana í “Semi-Celebrity” dálkinn yfir þá sem maður hefur séð hérna úti.

Annars er ég aftur byrjaður að hlaupa og mun keyra drykkjuna niður næstu vikurnar þar sem próftímabil er að hefjast. Þá er stutt í að niðurtalning í heimför hefjist. Þegar þetta er ritað eru 17 dagar þar til ég mæti á klakann, sem ber víst nafn með rentu þessa dagana. Á meðan hér úti hefur verið meira og minna 15+ stiga hiti heyrir maður fréttir af nístandi frosti og blindbyljum heima. Eftir hátt í 20 stiga hita í síðustu viku er hitinn reyndar kominn í eins stafs tölu og búast má við næturfrosti á næstu dögum svo að það virðist sem haustið sé endanlega að verða búið og vetur að taka yfir.

Friday, November 10, 2006

Post-Marathon vika og fyrsta Celebrity Sighting!

Nú er góð vika á enda komin. Eftir að hafa legið í skotgröfunum yfir prófum, verkefnum og maraþoni gafst loks tími til að anda léttar. Eftir maraþonið var lífið tekið létt enda fullta af vinum að skemmta sér með. Við fórum fínt út að borða og könnuðum hversu tryllt næturlíf New York borgar er á mánudags- og þriðjudagskvöldum. Síðan fórum við á Comedy Cellar þar sem var tekið maraþonsessjón (góður orðaleikur) með 10 grínistum í röð. Að vanda voru flestir góður en 2-3 læddust inn á milli sem hefðu betur sleppt því að mæta.

Amma mætti svo á svæðið með lambalæri og appolo-lakkrís sem var vel þegið.

Núna var ég svo að koma heim af heimildarmyndinni um hinn Kazakstanska Borat Sagdiyev. Það er nú ekki mikið að segja um hann, fólk þekkir hann. En það var gaman að sjá hvernig salurinn brást við því sem hann var að gera. En rúsínan í pylsuendanum var fyrsta fræga manneskjan sem ég hef séð hérna í New York. Og það var ekkert smástirni eins og Biff Henderson sem Bjössi og Elli sögðust hafa séð. Nei, það var hin smágerða, spænskættaða þokkagyðja Penelope Cruz sem skellti sér í bíó á föstudagskvöldi. Hún var litlu ljótari í eigin persónu en á hvíta tjaldinu en vinkonur hennar tvær voru nú ekki upp á marga fiska, voru meira svona tvær stelpur úr hverfinu.

Meira var það ekki að sinni.

Monday, November 06, 2006

Sælu-vælu-ælu-tilfinning
-Maraþonið klárað

Stingandi sársauki í lærum, kálfum og mjöðm, maginn herptur og á jaðri þess að knýja fram uppköst en markmiðinu náð: 42,2 km hlaupnir. Þegar komið var í markið átti ég erfitt með að átta mig á því hvort gleðin yfir að hafa klárað eða líkamleg vanlíðan væri meiri en þegar ég hrundi niður á grasbala og lagðist á bakið var það ljóst að sigurvíman var sársaukanum yfirsterkari.

Kukkan 4:45 á sunnudagsmorgun hringdi vekjaraklukkan. Eftir 6 mánaða æfingatímabil og vikulangt pastaát var Maraþondagurinn runninn upp. Ég fékk mér banana og maraþon-snickers og skellti í mig slatta af vatni og carbo-load drykk. Síðan var farið í gallann sem var búið að stilla upp kvöldið áður. Hópurinn hittist í anddyri hótelsins og fólk var greinilega spennt. Rútan lagði af stað klukkan sex og förinni var heitið til Staten Island þar sem hlaupið myndi hefjast. Við komum þangað um sjö-leytið og stigum út í kuldann, úti voru þrjár gráður. Við vorum þó við þessu búin, vorum með húfur, hanska, í tveimur peysum og síðbuxum yfir hlaupagallan, stuttbuxur og stuttermabol. Það var samt ekki laust við að maður hefði áhyggjur af hitastiginu, við vissum að það myndi hlýna eitthvað en þetta virkaði samt ekki eins og stuttbuxnaveður. Hlaupið átti að hefjast klukkan 10:10 svo að við tók þriggja klukkutíma bið í kuldanum. Við tylltum okkur á tún á biðsvæðinu og tókum því rólega fyrst, reyndum aðeins að drekka og borða og fara á salernið. Hið síðastnefnda tók einmitt mjög stóran hluta biðtímans þar sem enginn vildi lenda í því að þurfa að stoppa til að kasta vatni eða einhverju þaðan af meira í miðju hlaupi. Raðirnar voru líka langar á biðsvæðinu þannig við vorum mikið bara að bíða í röð á salernið, bara just in case að maður fyndi þörfina. Það var greinilega mikil stemmning hjá öllum, fólk í alls kyns múnderingum og búningum.

Nú var farið að styttast í þetta. Planið hjá mér var að reyna að halda púlsinum nánast föstum í 165 slögum á mínútu, sem myndi þýða um 10km/klst meðalhraða, og svo bara að sjá hvað fæturnir bæru mann langt. Ef þetta gengi eftir ætti markmiðið að nást, að klára þetta á innan við fjórum og hálfum tíma. Mikilvægt yrði að láta mannfjöldann ekki draga sig inn í sinn hraða og trufla hlaupaplanið.

Klukkan 10:10 var síðan ræst eftir þjóðsöng og yfirflug herþotu. Lagt var af stað undir New York, New York með Frank Sinatra og við tók síðan Born to Run og stemmningin greip okkur algjörlega þegar við lögðum af stað í hópi 37.000 hlaupara yfir Verrazano brúna sem liggur frá Staten Island til Brooklyn. Hlaupið yfir brúna var hægt enda mjög troðið á brúnni sem dúaði undan mannfjöldanum.

Þegar til Brooklyn var komið (eftir tæpa 3 kílómetra) tók mannfjöldinn á móti okkur. Fyrst var áhorfendaskarinn frekar strjáll en mjög gaman að fá hvatningu heimamanna. Þegar lengra var komið inn í Brooklyn þéttist áhorfendahópurinn og allt í einu var fullt af hljómsveitum og alls konar tónlistaratriðum við hlaupabrautina. Ég heyrði meira að segja lúðrasveit spila Rocky-lagið Gonna Fly Now (sem er spilað þegar Rocky er að æfa eins og brjálæðingur og hlaupa upp tröppurnar í fyrstu myndinni) og áður en ég vissi af var ég farinn að hlaupa miklu hraðar. Um 20 kílómetrar af leiðinni voru í gegnum Brooklyn og Queens og heilt yfir var þetta skemmtilegasti kafli hlaupsins. Þétt var af áhorfendum og hljómsveitum nánast alla leiðina og mér leið ennþá vel líkamlega. Seint í Queens kom önnur brúin af fimm sem tók svolítið í.

Þá var komið að því að fara yfir Queensboro-brúnna yfir til Manhattan. Hún var brött, löng, dimm og áhorfendalaus og kaldur gusturinn frá East River kældi mann niður úr annars mjög þægilegum hita. Þarna fór fyrst að votta fyrir því að þetta yrði erfitt og rétt um 25 km búnir. Síðan var komið yfir á Manhattan þar sem áhorfendafjöldinn tók aftur við okkur. Á Manhattan skyldi hlaupið langa og beina leið upp í Bronx. Eftir um 28 km hlaup var líðanin orðin óbærileg, mig var farið að verkja aðeins í fæturnar og síðan var versta martröðin að verða að veruleika, ég þurfti að fara á salernið og ég hafði ekki séð slíkt í langan tíma og var farinn að verða mjög áhyggjufullur. En allt í einu birtist kamraklasi og ég stoppaði og létti á mér. Eftir það fannst mér ég aftur vera kominn í góðan gír, setti aftur á fullt og leið bara vel. Þessi “vellíðan” entist í svona 2 km þar til komið var að næstsíðustu brúnni sem er frá Manhattan til Bronx. Hún var brött og þegar yfir hana var komið var sársaukinn í fótunum aftur kominn.

Þegar ég fór í gegnum 20 mílu markið í Bronx (um 32 km) trúði ég varla að svona mikið væri eftir og var farinn að efast um að ég myndi klára þetta. Síðan tók síðasta brúin við yfir til Manhattan aftur. Héðan í frá var sársaukinn bara vaxandi og ég reyndi bara að telja mér einhvern veginn trú um að ég gæti haldið áfram án þess að stoppa og vonaði að ég sæi næsta skilti sem segði að enn ein mílan væri að baki. Mér fannst stöðugt verða lengra og lengra milli míluskiltanna og ég hugsaði nánast um eitt skref í einu, skildi ekkert af hverju ég hafði nokkurn tímann viljað gera þetta og ákvað að þetta helvíti skyldi ég aldrei nokkurn tímann ganga í gegnum aftur. Nú kallaði líkaminn á vökva og ég greip drykk á næstu drykkjarstöð og þambaði. Það skilaði sér bara í magaverk og gerði næstu mílu enn erfiðari en aftur var þambað á næstu drykkjustöð. Nú fór áhorfendafjöldinn aftur að þéttast eftir gisið Bronx-ið. Nú var síðasta brekkan eftir, upp að Central Park, þar sem endaspretturinn skyldi hlaupinn.

Þegar í Central Park var komið voru samfelld hvatningaróp alla leiðina sem dró mann áfram. Þegar hingað var komið voru um 5 km eftir en nú var ég aftur kominn með trú um að ég gæti klárað þetta. Nú var bara að sannfæra sig um að það væri bara 20 mínútur eða hálftími eftir. Þar gerði áhrfendaskarinn bæði gott og vont. Stöðugt var öskrað: “Bara 15 mínútur eftir” eða “Bara tvær mílur eftir” og maður hélt haus haldandi að það væri satt en svo sá maður opinberu skiltin og fattaði að maður hafði verið blekktur til þess að draga mann áfram. Síðan var eina hugsunin: Þetta er alveg að verða búið, bara halda dampi í nokkrar mínútur enn. En skrefin þyngdust stöðugt, sársaukinn óx og þegar innan við míla var eftir var maginn farinn að herpast og ég hélt að ég yrði neyddur í uppköst þá og þegar. Síðan sá maður skiltin: Hálf míla, 800 metrar, 500 metrar, 300 yardar, 100 yardar og enn leið mér verr og verr en þegar um 10 metrar voru í mark fattaði ég að ég væri að klára þetta og sigurtilfinningin tók við. Eftir stutt rölt rakst ég á Bjössa og við lögðum okkur á grasbala, teygðum á þreyttum fótunum og létum sæluvímuna taka yfir. Ég var búinn að hlaupa hið margfræga Maraþon-hlaup 42,2 kílómetra. Þetta skyldi ég aldrei gera aftur!

Eftir þessa stuttu hvíld röltum við til að finna hina úr hópnum og það var mikil stemmning þegar við hittumst, umvafin állökum til að reyna að halda einhverjum hita í líkamanum. Hlaupið var búið og nú var bara eftir að koma sér niður á hótel til að henda sér í rúmið og vefja sænginni um sig. Um kvöldið fórum við síðan lurkum lamin í feita nautasteik og slöppuðum af yfir góðu víni. Langur dagur var að kvöldi komin og eftir einn drykk á hótelbarnum var ákveðið að halda í háttinn.

Núna, daginn eftir, eru flestir vöðvar likamans nokkuð sárir og stífir en heilt yfir er líðanin nokkuð góð. Nú munum við borða vel næstu dagana og njóta þess að hafa æft í hálft ár, náð að yfirvinna sársaukann og klárað hlaupið sem gekk af gríska sendiboðanum dauðum á sínum tíma. Núna virðist allt erfiðið í æfingatímabilinu, bindindið mánuðinn fyrir hlaupið og sársaukinn í hlaupinu alveg hafa verið sælutilfinningarinnar virði. Jafnvel núna, innan við sólarhring frá því ég var sjálfum mér öskuillur fyrir að hafa ákveðið að fara út í þetta, er ég farinn að gæla við það að kannski gæti ég viljað gera þetta aftur. Tíminn mun leiða það í ljós og hver veit hvað gerist. En eftir stendur að ég kláraði þetta, og á tímanum sem ég ætlaði mér, 4:22:43, innan við fjóran og hálfan tíma og í dag á ég heiminn!

Fyrir þá sem vilja eitthvað skoða varðandi hlaupið er þetta heimasíða þess:

www.nycmarathon.com

Hér að neðan fylgja svo opinberir millitímar mínir og lokatíminn ásamt niðurstöðum úr Garmin-græjunni:

Opinberir tímar:
Lokatími: 4:22:43

5 km: 0:29:49
10 km: 0:59:25
15 km: 1:29:00
20 km: 1:59:07
25 km: 2:30:35
30 km: 3:04:26
35 km: 3:35:57
40 km: 4:08:53
42,2 km: 4:22:43

Garmin:
Vegalengd: 42,09 km
Tími: 4:22:39
Meðalhraði: 9,6 km/klst (6:14 mín/km)
Meðalpúls: 164 slög/mín
Brennsla: 3258 kaloríur
Hækkun: 2159m

Sunday, October 08, 2006

Íslendingavika


Síðan ég birti síðast hef ég aðallega verið að læra og hanga með Íslendingum.

Á föstudaginn fyrir viku var fyrsti mánaðarlegi fundur Viskíklúbbsins á Columbiasvæðinu. Þetta er í grunnatriðum hópur íslenskra karlmanna á svæðinu sem vilja menntast um viskí og spila póker samhliða menntuninni. Mjög góð og mikilsverð hugmynd og fyrstu kynni mín voru mjög jákvæð, þrátt fyrir að vera lítill viskímaður, enn sem komið er a.m.k. Meðlimir sem einhverjir gætu kannast við eru fyrir utan mig og Rabba Magnús bróðir, Brynjólfur Stefánsson, Úlf Nielsen Herdísarmaður og Freyr Hermannsson Þórissonar.

Síðan um laugardagskvöldið fór ég reyndar líka stuttlega út með klassíska hópnum, Igor, Pascal, Oyu og Mariu, og reyndar hinum kanadíska Jeremy. Ekki mikið um það að segja.

Síðasta fimmtudag hélt Rabbi síðan upp á afmæli móður sinnar samhliða því að fagna innflutningi í nýja íbúð. Það var hin ágætasta Íslendingasamkoma.

Í dag setti ég persónulegt met í hlaupavegalengd er ég lagði rúmlega 25 þúsund metra að baki á rúmlega tveimur og hálfri klukkustund. Síðan var Gummi hennar Brynju í bænum þessa helgi þannig að ég fór út að borða með þeim og hitti vini þeirra úr Cornell.

Það mætti sjá ákveðið mynstur í því að hanga með Íslendingum. Kannski ætti maður að fara að leggja meiri áherslu á að kynnast nýju (útlensku) fólki. En hvað um það, aðalatriðið er að njóta þess tíma sem maður hefur utan skóla og hlaupa.

Annars eru núna 4 vikur í hlaupið mikla þannig að hlaupametnaður er í algleymingi, verið er að besta hinar ýmsu hliðar hlaupanna. Ég er að prófa mig áfram með orkugel og er að byggja besta mögulega lagalista fyrir hlaupið, til þess að hámarka árangur. Vonandi skilar þessi undirbúningur árangri, og umfram allt: Vonandi dríf ég í mark.

Friday, September 29, 2006

Myndasíðan opnar!

Vegna fjölda áskorana og 1100 undirskrifta hvaðanæva að í Suðurlandskjördæmi hefur verið ákveðið að bjarni.com færi út starfsemi sína og birti ekki aðeins þjóðmálaumræðu og skemmtiefni í máli heldur mun bjarni.com jafnframt leitast við að birta myndir til þess að glæða pistla síðunnar lífi og sannleiksgildi.

Engu verður lofað varðandi uppfærslu myndasíðunnar og allar líkur eru á að þær verði ekki mjög tíðar. Reynt verður þó að bæta við myndum þegar þær berast ritstjórn.

Þar sem Rabbi hefur verið mun örari á myndavélinni er mjög stór hluti New York myndanna úr hans smiðju kominn og eru þær hér birtar með fullu samþykki þess góða drengs. Bjarni.com þakkar samstarfsviljann og bendir áfram á síðu Rafns í hlekk hér til hliðar þar sem finna má fjölmargar fleiri myndir.

Thursday, September 28, 2006

Allt á fullu

Skólinn hefur verið að komast á fullt síðustu tvær vikurnar og því ekki mjög mikið sem hefur verið að gerast utan hans.

Frá því ég reit síðast pistil hefur verið mikill gegnumgangur af Íslendingum; vinir og vinnufélagar hafa verið á leið hér í gegn með tilheyrandi kvöldverðum og drykkjum. Meðal annars fór ég á Sushi-stað með Jóa Árna, bræðrum okkar beggja og fleirum. Ég smakkaði nú aðeins á hráa fisknum en hélt mig samt aðallega í nautasteikinni sem þeir japönsku elduðu sérlega vel. Það er nú samt annars bara eins gott að maður er ekki í London því að maður má vart við því að hitta fleiri á jafnstuttum tíma án þess að missa allt niður um sig í skólanum.

Síðan fór ég líka í siglingu frá suðaustur-Manhattan út að Frelsisstyttunni. Maður fann hvernig hjartað barðist og náði varla að fela tárin þegar maður sá fánann blakta við kórónu hinnar frjálsu frúar. Í siglingunni var innifalinn matur sem allir sem að honum stóðu ættu að skammast sín fyrir: Grænmetisjukk og kalt pasta afgreitt með áðuróþekktum hægagangi. Eftir það var farið á klúbb þar sem karlinn skók sig í takt við dúndrandi rytmann. Síðan fór ég heim með leigubíl, hvers bílstjóri jós visku yfir mig um hvað bandarískir fjölmiðlar eru ömurlegir. Þegar að húsinu mínu var komið fékk ég svo að dúsa í aftursætinu í hátt í hálftíma á meðan hinn serbneski leigubílstjóri upplýsti mig um ýmsa leyndardóma heimsstjórnmálanna, sem ég fer kannski út í í öðrum pistli seinna.

Þá fór ég líka um daginn á “The Living Room” sem er bar/rokkklúbbur í Soho/East Village sem var mjög gaman. Þar léku misupprennandi tónlistamenn nýjustu verkin úr smiðju sinni og var megnið bara nokkuð gott.

Annars er vikan þannig hjá mér að ég á að skila heimaverkefnum mán, þri, mið og fim, og hvert tekur fleiri, fleiri klukkutíma. Þá eru mánudagar og þriðjudagar mjög langir í skólanum þannig að fyrri hluta vikunnar læri ég og sef og lítið annað. Síðan kemur fimmtudagur með Happy Hour þar sem maður fær sér kannski eins og einn eða tvo. Síðan er eins gott að maður taki föstudag (sem er frí í skólanum) og laugardag vel í lærdómnum því annars er næsta vika þar á eftir helvíti. Þetta bað ég víst um.

Vonandi líður ekki jafnlangt fram að næstu skýrslu. Annars virðist millipistlatíminn nú vaxa nokkuð veldislega þannig að kannski eru þessar vonir mínar til lítils.

Jæja, farinn á Happ Hour að njóta þess að það eru engin heimadæmi að skila á morgun.