Skíðavor
Eftir að ég kom heim frá Íslandi eftir síðustu helgi datt inn slík og þvílík rjómablíða að Íslendingurinn skildi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Á þriðjudag var 15 stig og á miðvikudag skreið hitinn yfir 20 stig ásamt sól. Báða dagana var tækifærið gripið til að hlaupa 10km í Central Park og seinni daginn stóð manni hreint ekki á sama með hitann. Líkaminn hafði engan veginn við að kæla mann niður. Í gær, föstudag, tóku dyntir New York-veðursins við og hitinn fór svolítið undir frostmark og það snjóaði vel.
Það var reyndar mjög heppilegt þar sem við höfðum ákveðið að fara á skíði á umræddum föstudegi. Við fórum á fimmtudegi með tveimur félögum okkar heim til annars þeirra í dæmigert bandarísk smábæjarúthverfi í New Jersey. Þar elduðu foreldrar hans fyrir okkur og við gistum í gestaherbergjum hússins. Á föstudeginum héldum við síðan upp í Pokonos-fjöllin og skíðuðum um eftirmiðdaginn fram á kvöld. Síðan var haldið heim á leið í þó nokkurri snjókomu. Við keyrðum fram hjá og sáum nokkur bílslys og ökumaðurinn í okkar bíl ætlaði að gera okkur vitlausa með hægum akstri. Við Íslendingarnir töldum okkur aldeilis kunna að keyra hraðar og öruggar í snjónum. Síðan tókum við rútu aftur inn á Manhattan seint um kvöldið og skelltum okkur í háttinn. Í kvöld mun ég síðan hlæja að íslenskum matarsiðum á margfrægu Þorrablóti Íslendingafélagsins í New York. Flugferðin heim, öll þessi veðrabrigði og líkamsrækt hafa reyndar farið eitthvað illa í ónæmiskerfið og fer ég léttkvefaður og hálsbólginn á blótið. En ekki þýðir að kvarta. Ekki hefði Egill Skallagrímsson látið kvefpest stöðva sig í að fara í gott blót.
Fyrir þá sem ekki fylgjast með neinum öðrum vefmiðlum en bjarni.com er rétt að benda á breytingar á kynferðislögum Íslendinga. Til dæmis verður vændi til framfærslu gert löglegt, ekki veit ég hvort kaupandi vændis er lögbrjótur eður ei. Síðan verður samræðisaldur hækkaður úr 14 ára í 15. Mörgum finnst þetta enn fulllágt og margt til í því. Manni finnst erfitt að sjá að það sé rétt að fertugir karlar, nú eða konur, kræki sér í 15 ára unglamb. Hins vegar fyndist manni erfitt að refsa 16 ára strák, nú eða stelpu, fyrir að sænga með 15 ára stelpu, nú eða strák. Þess vegna væri kannski æskilegt að bæta við einhverju svona “gráu svæði” sem myndi leysa þetta vandamál. Þarna er kannski loksins komið tækifæri fyrir hina margfrægu gullnu hjásvæfureglu til að komast í lög. Þ.e. að allir megi sofa hjá öllum sem eru yfir 18 ára en þar sem einstaklingar undir 18 ára koma við sögu skuli eftirfarandi regla gilda:
“Skal yngri/yngsti einstaklingur í mökum ávallt hafa í minnsta lagi náð þeim aldri sem reiknast út frá aldri eldri/elsta einstaklings í téðum mökum:
(hæsti aldur)/2 +7”
Pæling.
2 Comments:
Er ekki ruglandi að tala um hæsta aldur? Miðast reglan líka við fjölkvæni?
Þessi tillaga á aðeins við um mök sem slík en ekki lögfestan hjúskap. Þannig að, já, reglan miðast við mök tveggja eða fleiri einstaklinga enda myndi ég aldrei leggja til reglur sem miðast að því að gera tveggja manna mökum hærra undir höfði en öðrum mökum.
Fjölkvæni er svo allt annað mál og efni í annan pistil.
Post a Comment
<< Home