1.mars - Fyrsta hlaup - Vor í lofti
Eftir kaldan janúar og ískaldan febrúar er loks farið að hylla undir bjartari tíma. Dagarnir eru farnir að lengjast lítillega en það sem mikilvægara er hitinn er farinn að rísa viku frá viku.
Ég er búinn að bíða eftir því lengi að geta tekið fram hlaupaskóna að nýju og hlaupið í sólinni í Central Park og loksins kom tækifærið. Ég fór reyndar fullgeyst til að byrja með, eins og kýrnar á vorin, og sprakk á limminu eftir 5 km. En rölti síðan og skokkaði til skiptis aðra 5. Síðan hljóp ég upp á campusinn, þar sem nemendur eru greinilega farnir að finna vorlyktina því aðaltröppurnar á campusnum voru þéttsetnar af fólki sem baðaði sig í sólinni. Síðan fór ég í gymmið, tók nokkur tæki og sneri heim á leið. Á leiðinni niður umræddar þéttsetnar tröppur, er ég labba niður, helvíti reffilegur í hlaupagallanum eftir lyftingar og hlaup, skrikar mér fótur og ég hryn niður tröppurnar og ligg kylliflatur. Fólk allt í kring brosti létt og spurði mig, af almennilegri New York kurteisi, hvort ekki væri í lagi með mig. Ég játti því og rölti svo heim á leið, aðeins minna kúl en nokkrum sekúndum áður en samt helvíti reffilegur.
En frábært að vorið skuli vera farið að láta í sig glitta og ljóst að nú fer hlaupum að fjölga jafnt og þétt.
2 Comments:
Ein vinkona mín sagði mér að hver nemandi dytti amk einu sinni í þessum tröppum á Columbia ferli sínum. Helst þegar þær væru fullar af fólki til vitnis. Það er þá amk komið hjá þér.
Þér er velkomið að sjá um mitt fall líka ;)
Fall er faraheill. Gott að þú skulir vera farinn að hreyfa þig aftur. Við Binna vorum farnar að hafa áhyggjur af þér.
Bestu kveðjur,
Aðalheiður
Post a Comment
<< Home