Listirnar
Var að koma heim eftir kvöld í leikhúsinu og svo að horfa á Óskarsverðlaunaafhendinguna.
Ég fór í kvöld í annað skipti á söngleik hér í New York, en það var söngleikurinn Fantasticks (ég er ekki að misrita, það er skrifað svona). Þetta er víst “longest running musical” á einhvern mælikvarða og átti Tom Jones hlut í samningu þessa söngleiks. Hann er svokallaður “off-broadway” sem þýðir að þetta er ekki einn af stóru söngleikjunum sem eru í gangi. Þetta var í litlu leikhúsi, voðalega létt og svona mátulega skemmtilegt. Áður hafði ég farið á Lion King sem var mun skemmtilegra. Það var risauppfærsla, með flottri tónlist og búningum, stórum flytjendahópi og í stóru leikhúsi. Mæli mun frekar með einhverju slíku ef fólk vill fara á söngleik en fínt að hafa prófað þetta.
Stærsti sigurvegari Óskarsins í ár var án efa Martin Scorsese með mynd sína Departed, sem fékk alls fern verðlaun, besta mynd, besti leikstjóri, besta ófrumsamda handritið og klippingu. Það hefði verið spurning hver fengi leikstjóraverðlaunin ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að Scorsese hefur aldrei fengið verðlaunin og mörgum finnst hann eiga þetta inni. Leikaraverðlaunin fóru að þessu sinni bæði til túlkenda frægra persóna mannkynssögunnar; Forrest Whittaker í hlutverki mannætunnar Idi Amins og Helen Mirren sem Englandsdrottning. Annars má segja með þetta árið að verðlaunin dreifðust býsna jafnt yfir myndirnar. Til dæmis var ég mjög ánægður með það að Little Miss Sunshine fékk tvenn verðlaun, fyrir handrit og leik í aukahlutverki. Lágstemmd en stórskemmtilega mynd þar á ferð. Ein óvæntustu verðlaunin voru veitt fyrir besta aukaleik kvenna þar sem fyrrum Idol-keppandinn Jennifer Hudson bar sigur úr býtum og náði næstum að komast með tærnar þar sem Gwyneth Paltrow hafði hælana í að væla í þakkarræðunni.
Sú mynd sem má vera svekktust með útkomuna er Babel, sem hafði verið talin líklega til afreka. Þá fengu Bréfin frá Iwo Jima lítið í sinn hlut. Clint Eastwood þarf svo sem ekkert á neinum skratufjöðrum að halda, hvorki fyrir arfleifð sína né fyrir sjálfan sig því hann hefur unnið allt. Hins vegar finnst mér að þessi hugmynd hans um að skrifa um sömu orrustuna frá báðum hliðum vera það mikilvæg, að mér hefði fundist gaman að hann fengi eitthvað. Hann fékk reyndar æðstu orðu Frakklands fyrir þetta framlag sitt til gagnkvæms skilnings og heimsfriðar þannig að hann fékk væntanlega næga viðurkenningu. Annar sem líklegur er til að hljóta viðurkenningar fyrir sitt framlag til heimsins er Al Gore sem uppskar líka eins vel og hann gat búist við. Heimildamyndin, An Inconvenient Truth, sem hann er hjartað og sálin í fékk tvenn verðlaun. Pólitísk skilaboð Hollywood eru skýr og það kæmi mér ekki á óvart að þessi fyrrum verðandi forseti Bandaríkjanna fengi á endanum friðarverðlaun Nóbels fyrir þessa vakningarherferð sína.
Síðan er ég að fara á tónleika í Carnegie Hall á morgun/í dag (mánudag) sem verður betur skýrt frá á morgun eða hinn.
Vil minnast á að ég fór á Bubba-Gump Shrimp veitingastaðinn á Times Square. Hann var eins og við var að búast, eins ofurtúristalegur og hægt var, maturinn lala og Forrest Gump í gangi á öllum veggjum. Það er svo sem almenn regla að maður á ekki að borða nálægt Times Square og ef fólk neyðist til þess þá mæli ég með Olive Garden, hann er hvað skástur þarna.
Að lokum vil ég hvetja alla til þess að fylgjast með því þegar hlutabréfamarkaðurinn opnar á morgun. Eftir frábærar fréttir af lánshæfismati bankanna er annað ómögulegt en að þeir stökkvi á morgun. Persónulega spái ég því að bankarnir hækki um 4-5% á morgun og haldi svo áfram að hækka á næstu dögum og vikum. Þeir sem ekki enn eru stokknir á lestina ættu að gera það ef þetta springur ekki þeim mun hærra upp á morgun.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home