Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Monday, January 22, 2007

Mánudags-gamla-gottið

Hér að neðan er fyrsti vikulegi skammturinn af gömlum skrifum mínum af Skítnum Græna sem okkur þótti öllum svo vænt um. Þetta er pistill sem hefur lengi verið mér hjartfólginn og vona ég að sem flestir hafi gaman að.

Ertu hress?
[birt þann 10.mars 2003]

Fyrir tæplega hálfu tungli síðan fjallaði Björn um Njörðinn, merkilega dýrategund sem hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á síðasta áratugnum. Annar merkilegur stofn er Hressi gaurinn. Hressi gaurinn er meindýr sem allir kannast við. Síðustu kynni mín af hressa gaurnum voru er einn slíkur labbaði inn á pizzastaðinn Devito’s og bað um tvo kjúklingabita, stóran franskar og stóra kók (laglegt hressi!). Það er nefnilega einn helsti eiginleiki hressa gaursins að hann telur sig vera fyndinn. Hressi gaurinn ferðast yfirleitt einn en þó kemur fyrir að hann birtist í fylgd nokkurra tímabundinna viðhlæjenda. Hendir hann jafnan mannskemmandi fimmaurum eins og fyrrnefndum í kringum sig í þeim tilgangi að bæta við þá sorglegu hjörð sem hann leiðir hverju sinni.

Annar stór eiginleiki hressa gaursins er sá að flestar þær sögur sem hann segir snúa að afrekum hans og mikilvægi. Flestar sögupersónur ævintýra hans eru kvenkyns og enda yfirleitt á því að lýsa hrifningu sinni á honum, biðja hann um að uppfylla þarfir sínar eða vegsama hann á annan hátt. Karlkyns sögupersónur eru minni háttar og lúta yfirleitt í lægra haldi fyrir hressa gaurnum. Þá er hressi gaurinn þeim eiginleika gæddur að, sama hversu góða sögu einhver nærstaddur á, þá getur hann alltaf toppað hana enda langhressastur.

Loks verður að geta þriðja stóra eiginleika hressa gaursins en það er almennur hávaði. Hinn hressi verður ávallt að láta fólk vita af nærveru sinni og gerir það jafnan með mikilli fyrirferð. Hressi gaurinn líkist að þessu leyti mikið systur sinni, Hávaðamellunni, sem reyndar hefur ekki verið gerð nógu góð skil á skítnum en aldrei að vita hvenær það gerist.

Nú ættu flestir lesendur að vera komnir að þeirri spurningu hvort þeir séu hressi gaurinn. Ef fleiri en einn eiginleiki á við ætti lesandi að fara að hugsa sig um og velta fyrir sér afhressun.

Þó skal þessi geta að stundarhressleiki er ekki talinn vítaverður enda sé viðkomandi hressi gaur þá einnig fulli kallinn. Viðmiðunarregla um hvort maður er fulli gaurinn er: “Ef þú veist ekki hver er fulli kallinn þá ert það þú.” Þó skal maður ekki vera fulli kallinn að jafnaði enda sé maður þá hressi gaurinn að jafnaði.

Að lokum verður að benda þeim ógæfusömu einstaklingum sem falla undir skilgreiningu hressa gaursins að einkar slæmt og varasamt er að vera einnig Njörður. Hinn hressi Njörður er eitt óvinsælasta dýr merkurinnar og á sér jafnan leiðinlega lífdaga.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home