Sælu-vælu-ælu-tilfinning
-Maraþonið klárað
Þegar til Brooklyn var komið (eftir tæpa 3 kílómetra) tók mannfjöldinn á móti okkur. Fyrst var áhorfendaskarinn frekar strjáll en mjög gaman að fá hvatningu heimamanna. Þegar lengra var komið inn í Brooklyn þéttist áhorfendahópurinn og allt í einu var fullt af hljómsveitum og alls konar tónlistaratriðum við hlaupabrautina. Ég heyrði meira að segja lúðrasveit spila Rocky-lagið Gonna Fly Now (sem er spilað þegar Rocky er að æfa eins og brjálæðingur og hlaupa upp tröppurnar í fyrstu myndinni) og áður en ég vissi af var ég farinn að hlaupa miklu hraðar. Um 20 kílómetrar af leiðinni voru í gegnum Brooklyn og Queens og heilt yfir var þetta skemmtilegasti kafli hlaupsins. Þétt var af áhorfendum og hljómsveitum nánast alla leiðina og mér leið ennþá vel líkamlega. Seint í Queens kom önnur brúin af fimm sem tók svolítið í.
Þá var komið að því að fara yfir Queensboro-brúnna yfir til Manhattan. Hún var brött, löng, dimm og áhorfendalaus og kaldur gusturinn frá East River kældi mann niður úr annars mjög þægilegum hita. Þarna fór fyrst að votta fyrir því að þetta yrði erfitt og rétt um 25 km búnir. Síðan var komið yfir á Manhattan þar sem áhorfendafjöldinn tók aftur við okkur. Á Manhattan skyldi hlaupið langa og beina leið upp í Bronx. Eftir um 28 km hlaup var líðanin orðin óbærileg, mig var farið að verkja aðeins í fæturnar og síðan var versta martröðin að verða að veruleika, ég þurfti að fara á salernið og ég hafði ekki séð slíkt í langan tíma og var farinn að verða mjög áhyggjufullur. En allt í einu birtist kamraklasi og ég stoppaði og létti á mér. Eftir það fannst mér ég aftur vera kominn í góðan gír, setti aftur á fullt og leið bara vel. Þessi “vellíðan” entist í svona 2 km þar til komið var að næstsíðustu brúnni sem er frá Manhattan til Bronx. Hún var brött og þegar yfir hana var komið var sársaukinn í fótunum aftur kominn.
Þegar ég fór í gegnum 20 mílu markið í Bronx (um 32 km) trúði ég varla að svona mikið væri eftir og var farinn að efast um að ég myndi klára þetta. Síðan tók síðasta brúin við yfir til Manhattan aftur. Héðan í frá var sársaukinn bara vaxandi og ég reyndi bara að telja mér einhvern veginn trú um að ég gæti haldið áfram án þess að stoppa og vonaði að ég sæi næsta skilti sem segði að enn ein mílan væri að baki. Mér fannst stöðugt verða lengra og lengra milli míluskiltanna og ég hugsaði nánast um eitt skref í einu, skildi ekkert af hverju ég hafði nokkurn tímann viljað gera þetta og ákvað að þetta helvíti skyldi ég aldrei nokkurn tímann ganga í gegnum aftur. Nú kallaði líkaminn á vökva og ég greip drykk á næstu drykkjarstöð og þambaði. Það skilaði sér bara í magaverk og gerði næstu mílu enn erfiðari en aftur var þambað á næstu drykkjustöð. Nú fór áhorfendafjöldinn aftur að þéttast eftir gisið Bronx-ið. Nú var síðasta brekkan eftir, upp að Central Park, þar sem endaspretturinn skyldi hlaupinn.
Þegar í Central Park var komið voru samfelld hvatningaróp alla leiðina sem dró mann áfram. Þegar hingað var komið voru um 5 km eftir en nú var ég aftur kominn með trú um að ég gæti klárað þetta. Nú var bara að sannfæra sig um að það væri bara 20 mínútur eða hálftími eftir. Þar gerði áhrfendaskarinn bæði gott og vont. Stöðugt var öskrað: “Bara 15 mínútur eftir” eða “Bara tvær mílur eftir” og maður hélt haus haldandi að það væri satt en svo sá maður opinberu skiltin og fattaði að maður hafði verið blekktur til þess að draga mann áfram. Síðan var eina hugsunin: Þetta er alveg að verða búið, bara halda dampi í nokkrar mínútur enn. En skrefin þyngdust stöðugt, sársaukinn óx og þegar innan við míla var eftir var maginn farinn að herpast og ég hélt að ég yrði neyddur í uppköst þá og þegar. Síðan sá maður skiltin: Hálf míla, 800 metrar, 500 metrar, 300 yardar, 100 yardar og enn leið mér verr og verr en þegar um 10 metrar voru í mark fattaði ég að ég væri að klára þetta og sigurtilfinningin tók við. Eftir stutt rölt rakst ég á Bjössa og við lögðum okkur á grasbala, teygðum á þreyttum fótunum og létum sæluvímuna taka yfir. Ég var búinn að hlaupa hið margfræga Maraþon-hlaup 42,2 kílómetra. Þetta skyldi ég aldrei gera aftur!
Eftir þessa stuttu hvíld röltum við til að finna hina úr hópnum og það var mikil stemmning þegar við hittumst, umvafin állökum til að reyna að halda einhverjum hita í líkamanum. Hlaupið var búið og nú var bara eftir að koma sér niður á hótel til að henda sér í rúmið og vefja sænginni um sig. Um kvöldið fórum við síðan lurkum lamin í feita nautasteik og slöppuðum af yfir góðu víni. Langur dagur var að kvöldi komin og eftir einn drykk á hótelbarnum var ákveðið að halda í háttinn.
Núna, daginn eftir, eru flestir vöðvar likamans nokkuð sárir og stífir en heilt yfir er líðanin nokkuð góð. Nú munum við borða vel næstu dagana og njóta þess að hafa æft í hálft ár, náð að yfirvinna sársaukann og klárað hlaupið sem gekk af gríska sendiboðanum dauðum á sínum tíma. Núna virðist allt erfiðið í æfingatímabilinu, bindindið mánuðinn fyrir hlaupið og sársaukinn í hlaupinu alveg hafa verið sælutilfinningarinnar virði. Jafnvel núna, innan við sólarhring frá því ég var sjálfum mér öskuillur fyrir að hafa ákveðið að fara út í þetta, er ég farinn að gæla við það að kannski gæti ég viljað gera þetta aftur. Tíminn mun leiða það í ljós og hver veit hvað gerist. En eftir stendur að ég kláraði þetta, og á tímanum sem ég ætlaði mér, 4:22:43, innan við fjóran og hálfan tíma og í dag á ég heiminn!
Fyrir þá sem vilja eitthvað skoða varðandi hlaupið er þetta heimasíða þess:
Hér að neðan fylgja svo opinberir millitímar mínir og lokatíminn ásamt niðurstöðum úr Garmin-græjunni:
Lokatími: 4:22:43
10 km: 0:59:25
15 km: 1:29:00
20 km: 1:59:07
25 km: 2:30:35
30 km: 3:04:26
35 km: 3:35:57
40 km: 4:08:53
42,2 km: 4:22:43
Vegalengd: 42,09 km
Tími: 4:22:39
Meðalhraði: 9,6 km/klst (6:14 mín/km)
Meðalpúls: 164 slög/mín
Brennsla: 3258 kaloríur
Hækkun: 2159m
4 Comments:
Til hamingju með að hafa klárað þetta.
Þetta hlýtur að hafa verið gríðarlega erfitt eins og sést á skrifum þínum
Góður!
Til hamingju!
Ásta María
Til hamingju!
Þetta var flott hjá þér þó ég hafi nú viljað sjá þig taka þetta á undir 4 og 20. Kannski ef þú hefðir ekki þurft að kasta af þér vatni og svitnað því í staðin að þú hefðir náð því.
Annars hélt ég að þú hefðir ekki meikað þetta þar sem að ég fékk ekki e-mail um að þú hafir klárað. Spurningin er þá sú: Kláraðir þú hlaupið og kerfið hjá NY-Marþoninu virkaði ekki - eða virkaði kerfið bara vel og þessi bloggfærsla er uppspuni?
Post a Comment
<< Home