Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Thursday, September 28, 2006

Allt á fullu

Skólinn hefur verið að komast á fullt síðustu tvær vikurnar og því ekki mjög mikið sem hefur verið að gerast utan hans.

Frá því ég reit síðast pistil hefur verið mikill gegnumgangur af Íslendingum; vinir og vinnufélagar hafa verið á leið hér í gegn með tilheyrandi kvöldverðum og drykkjum. Meðal annars fór ég á Sushi-stað með Jóa Árna, bræðrum okkar beggja og fleirum. Ég smakkaði nú aðeins á hráa fisknum en hélt mig samt aðallega í nautasteikinni sem þeir japönsku elduðu sérlega vel. Það er nú samt annars bara eins gott að maður er ekki í London því að maður má vart við því að hitta fleiri á jafnstuttum tíma án þess að missa allt niður um sig í skólanum.

Síðan fór ég líka í siglingu frá suðaustur-Manhattan út að Frelsisstyttunni. Maður fann hvernig hjartað barðist og náði varla að fela tárin þegar maður sá fánann blakta við kórónu hinnar frjálsu frúar. Í siglingunni var innifalinn matur sem allir sem að honum stóðu ættu að skammast sín fyrir: Grænmetisjukk og kalt pasta afgreitt með áðuróþekktum hægagangi. Eftir það var farið á klúbb þar sem karlinn skók sig í takt við dúndrandi rytmann. Síðan fór ég heim með leigubíl, hvers bílstjóri jós visku yfir mig um hvað bandarískir fjölmiðlar eru ömurlegir. Þegar að húsinu mínu var komið fékk ég svo að dúsa í aftursætinu í hátt í hálftíma á meðan hinn serbneski leigubílstjóri upplýsti mig um ýmsa leyndardóma heimsstjórnmálanna, sem ég fer kannski út í í öðrum pistli seinna.

Þá fór ég líka um daginn á “The Living Room” sem er bar/rokkklúbbur í Soho/East Village sem var mjög gaman. Þar léku misupprennandi tónlistamenn nýjustu verkin úr smiðju sinni og var megnið bara nokkuð gott.

Annars er vikan þannig hjá mér að ég á að skila heimaverkefnum mán, þri, mið og fim, og hvert tekur fleiri, fleiri klukkutíma. Þá eru mánudagar og þriðjudagar mjög langir í skólanum þannig að fyrri hluta vikunnar læri ég og sef og lítið annað. Síðan kemur fimmtudagur með Happy Hour þar sem maður fær sér kannski eins og einn eða tvo. Síðan er eins gott að maður taki föstudag (sem er frí í skólanum) og laugardag vel í lærdómnum því annars er næsta vika þar á eftir helvíti. Þetta bað ég víst um.

Vonandi líður ekki jafnlangt fram að næstu skýrslu. Annars virðist millipistlatíminn nú vaxa nokkuð veldislega þannig að kannski eru þessar vonir mínar til lítils.

Jæja, farinn á Happ Hour að njóta þess að það eru engin heimadæmi að skila á morgun.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home