Skál fyrir reykleysi!
Nú er fyrsta vikan í skólanum búin og síðasta alvöru fylleríið í einhvern tíma var tekið á föstudagskvöldið. Þá kom Jói Árna í bæinn ásamt bróður sínum og við Magnús hittum þá og fleiri í mat og drykkju. Við hófum leikinn á flottum japönskum stað og fórum síðan á einhverja bari, þar á meðal helvíti flottan “roof top” bar. Allt var þetta í hinu endurreista Kjötpökkunarhverfi (Meat Packing District). Kvöldið var í alla staði mjög gott. Það sem mér finnst hins vegar ein mesta snilldin við bari og klúbba í New York er sú staðreynd að hvergi má reykja innandyra. Fyrir utan að manni líður miklu betur um kvöldið þá er dagurinn eftir svo miklu bærilegri fyrir vikið. Þynnkan hérna úti er eiginlega bara þreyta. Hausverkur er í lágmarki og ekki vottar fyrir ógleði. Síðan er náttúrulega frábært að geta bara pantað heim hvaða mat sem manni dettur í hug í þynnkunni á spottprís eða bara rölt út í tvær mínútur og vera kominn á fínan stað. Það er gott að vera þunnur í New York.
Það er líka ástæða að lyfta glasi fyrir Business skólanum í Columbia. Langflestir nemendur hans eru MBA-nemar og stór hluti þess náms er tengslamyndun sem óumflýjanlega kallar á drykkju. Þar sem MBA-nemar eru líka framtíðarstarfskraftar margra banka og stórfyrirtækja er auðvelt að láta þessi fyrirtæki borga fyrir drykkjuna. Þess vegna er á hverjum fimmtudegi kl.18 boðið upp á mat og drykk af öllu tagi og þar sem við doktorsnemarnir erum svo fáir miðað við MBA-nemana (og söguleg gögn sýna að doktorsnemar drekka líka minna) fáum við að fljóta með. Þetta vikulega gilli ber hið viðeigandi nafn, Happy Hour (þýðist: “Vísindaferð mínus rútur mínus fyrirlestur”). Svo vill líka svo heppilega til að það eru ekki tímar á föstudögum svo að þessi “litli föstudagur”, sem fimmtudagur er, getur alveg orðið stór ef aðstæður krefjast.
Eftir síðasta happy hour fórum við síðan nokkur suður í Battery Park og tókum Staten Island ferjuna að kvöldlagi. Þessi ferja fer, eins og nafnið gefur til kynna, til Staten Island frá Manhattan og til baka. Ferðin tekur um 45 mínútur fram og til baka, er ókeypis og frá ferjunni gefur að líta frábært útsýni yfir Manhattan og annað í kring. Ég hvet alla sem koma til New York að gefa sér tíma til að fara í ferjuna, helst bæði um dag og kvöld.
2 Comments:
Bara að láta vita að þú ert lesinn. Gaman að þessum smásögum frá eplinu.
Gummi
SÆLIR!
Þakka fyrir magnað kvöld. Þetta var helvíti gaman og vel tekið á því að Íslendinga-sið.
Hlakka til að koma aftur og hitta þig. Vonandi verður þú farinn að borða sushi af krafti þá enda er það herramannsmatur. Get samt ekki neitað því að bjór-beljan var eiginlega betri en óeldaði fiskurinn....
Kv
Jói
Post a Comment
<< Home