Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Tuesday, August 15, 2006

Hinir marglitu dropar mannhafsins

Nú er ég rúm vika síðan ég gat hætt að pæla í íbúðaleit og farið að njóta þess að lifa og leika mér í New York. Þegar maður fer að líta í kringum sig skilur maður af hverju New York er oft kölluð höfuðborg heimsins. Hér gefur að líta allra þjóða kvikindi og göturnar eru hrærigrautur af fólki af mismunandi þjóðernum, kynþáttum, stéttum, trúarbrögðum og hvaða flokkum sem maður getur greint fólk í. Reyndar sér maður hvernig mismunandi hópar eru fjölmennari eftir hverfum. Til dæmis er Columbia-háskólasvæðið eins og eyja í svörtu hafi. Á þeim 10-15 strætum sem háskólasvæðið nær yfir er mjög mikið af ungu fólki, einkum hvítir og asískir. Fyrir norðan og austan er síðan hið margrómaða Harlem hverfi og fyrir sunnan virðist síðan virðist síðan vera nokkuð fátækt hverfi, og í þessum hverfum eru svartir í meirihluti en spænskættaðir (hispanics) líka mjög fjölmennir. Í þessu sér maður ákveðna stéttaskiptingu kristallast, nánast allir sem eru að vinna við afgreiðslustörf, verkamannastörf og það sem maður getur ímyndað sér að séu láglaunastörf eru einmitt svartir og spænskættaðir á meðan t.d. prófessor og aðrir í skrifstofustörfum í háskólanum eru einmitt hvítir og asískir. Ég tók líka eftir mjög sérstakri stéttaskiptingu á veitingastað hér í hverfinu. Þar gengur maður inn og ungar, hvítar stúlkur vísa manni til borðs og taka pöntunina en síðan koma spænskættaðir strákar og hella í glösin hjá manni og taka af borðinu þegar maður er búinn. Auðvitað er ég mjög hlynntur því að hafa stelpur í framlínunni en þetta er samt mjög sérstakt að sjá.

Síðan fór ég suður í Soho og rölti þar um búðahverfi og inn í Kínabæ. Eins og nafnið gefur til kynna er þar mestmegnis fólk af kínverskum uppruna en líka nóg af túristum. Þar er mannmergðin eiginlega mest þar sem ég hef farið, a.m.k. miðað við pláss. Þar skelltum við Baldur okkur einmitt í hádegismat um daginn. Kallinn tók risarækjurnar með trompi. Eftir matinn fengum við svo gæfukökur. Mín sagði: “You will enjoy good health” og var ég bara nokkuð ánægður með það. Baldur fékk: “You enjoy public service”, ég veit ekki alveg hvað hann ætlar að gera við það. Annars fylgdu sex happatölur með gæfuspánni og þar sem ég vil endilega trúa því að ég muni njóta góðrar heilsu ætla ég bara líka að trúa því að þessar tölur séu happatölur. Ég ætla því að nota þær til að spila í víkingalottóinu um ókomna tíð. Einnig má líta á þetta sem vísindalega tilraun. Ég trúi almennt ekki á svona en annaðhvort vinn ég í víkingalottóinu eða ég afsanna alla hjátrú á einu bretti, hvor kosturinn fyrir sig er góður.

Rónar eru nú líka einn kapituli hérna. Um daginn vorum við Rabbi, sem er mættur á svæðið, að snæða kvöldverð úti og þá var einn sem hljóp fram og aftur fram hjá veitingastaðnum og öskraði. Eitthvað vildi hann nú segja en ég náði því ekki alveg. Af nógu er að taka af heimilislausu fólki hérna virðist vera. Ég hef einmitt séð “heimili” tveggja hérna rétt hjá. Þeir hafa þar búið um sig við tvo bekki og slappa þar af. Reyndar hljóp ég fram hjá þar áðan og þeir voru nú ekki heima en búslóðin var til staðar. Mikið er um betl, yfirleitt klassískt betl sem er ekki of agressíft. Síðan er það söluræðan í lestinni, þar sem fólk ferðast milli vagna og heldur fyrirlestur um ömurlegt líf sitt, það myndar mjög þvingaða stemmningu í lestinni. En best kann maður við þá sem reyna að gera manni eitthvað til gleði og yndisauka. Til dæmis sá ég einn um daginn sem var að reyna að taka One með U2 með gítar og eitt gítargrip að vopni en náði að gera gott show úr því með því að öskra bara nógu hátt og taka æði eins og gert var í gamla daga í Keflavík. Ruslatunnugraflararnir eru líka þó nokkrir og ég sá áðan einn sem var kominn í feitt, en hann var að rífa vel valdar myndir út úr klámblaði.

Annars er ég búinn að kíkja aðeins á næturlífið í East Village og Meat Packing District sem lítur bara vel út. Þá er ég búinn að kíkja á einhverja “alþjóðlega tónleika” sem reyndust algjört sorp, grískt, portúgalskt og afrískt öskur og væl og sitthvað fleira.

Rabbi dró mig í hlaup nr. 2, sjá hlaupadagbók.

Bæjó.

7 Comments:

At 8:13 PM, Blogger Ellert said...

"Hinir marglitu dropar mannhafsins"??

Ertu andsetinn af Þorsteini Joð?

Að öðru leyti nettur pistill.Hvernig er það, á ekkert að taka út klósettmenninguna þarna - viðhalda hefð skítsmanna?

Annars kíkti ég á síðasta "hlaupið" þitt. Hvernig stóðst hnéð þetta álag?

yfir og út

 
At 12:51 AM, Blogger Bjarni Kristinn said...

Ég er að æfa mig til að ég geti orðið fréttaritari Stöðvar 2 í New York. Þá get ég coverað næstu hryðjuverkaárás með óþarfa málskrúð.

Hnéð gaf sig ekki en ég finn að það er tæpt. Ég held minni strategíu: Taka nokkur svona stutt hlaup, 4-5 km með 2-3 daga fresti og sjá hvernig hnéð þróast. Vonandi er þetta bara eitthvað sem grær þegar vöðvarnir í kring styrkjast en ekki eitthvað brjósk eða eitthvað í liðnum sjálfum að gefa sig.

 
At 11:34 AM, Anonymous Anonymous said...

Blessaður,

Flottir pistlar. Gaman að vita til þess að þú sért að gera eitthvað af viti þarna úti.

Ég kem flöskudaginn 8 september, gaman væri að athuga með hitting. Sjáumst,
Jói
email: johaarn ö hi.is

 
At 1:19 PM, Anonymous Anonymous said...

BoTo, á ekkert að pumpa fleiri pistlum inn?

Ritstífla í gangi?

kv.

Maraþon Elli

 
At 4:25 PM, Anonymous Anonymous said...

"Pain is weakness leaving the body!" segja þeir í ameríska hernum.

"Ekkert væl - hlaupa með stæl!" segjum við í M. Group.

Þetta eru frasar sem þú átt að segja hundrað sinnum á dag fram að hlaupi.

 
At 7:59 AM, Anonymous Anonymous said...

RICE segir kanninn líka stundum

Rest
Ice
Compress
Elevate

Tinna

 
At 10:34 AM, Anonymous Anonymous said...

Sorrí ég ætla mér nú ekki að predika neitt óþarflega mikið, en hef þó einhverja þekkingu á þessu hlaupastússi. Það er því eitt til viðbótar...

Reyna alltaf að vera Á MALBIKI FREKAR EN STEYPU. Það er kannski erfitt að finna götur í NY þar sem ekki eru bílar en ef þær finnast þá endilega að koma sér af gangstéttinni eða finna malbikaða stíga í CP.

 

Post a Comment

<< Home