Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Thursday, March 01, 2007

Kvöldstund í Carnegie Hall

Á mánudagskvöldið fór ég í hina fornfrægu tónleikahöll Carnegie Hall. Höllin hefur frá 1890 hýst ýmsa stórlistamenn og menn muna kannski eftir því að Andy Kaufmann hélt sína frægu “Milk and Cookies” sýningu þar.

Tónleikarnir sem ég fór á voru til að styrkja og vekja athygli á neyð Tíbeta. Sem ötull baráttumaður fyrir sjálfstæði Tíbeta gat ég að sjálfsögðu ekki látið mig vanta á þetta. Það hafði ekkert með alla listamennina að gera sem voru á dagskránni. Alls voru um 10 mismunandi listamenn.

Fyrstir á svið voru tíbetskir ungmunkar sem hummuðu og blésu í trérör í allt of langan tíma. En þegar þeir luku sér loksins af tók betra við. Sigur Rós var meðal þeirra fyrstu, tóku tvö lög af stakri prýði og fengu rífandi viðtökur frá öllum salnum. Á eftir þeim kom Lou Reed, fyrrum söngvari Velvet Underground og stórsólóisti. Ég var mjög spenntur fyrir að sjá hann, enda á hann bæði Velvet-perlur sem og eigin gullmola á við “Walk on the Wild Side” og “Perfect Day”. Hann skeit hins vegar í brók. Mætti í einhverjum gulskræpóttum ælugalla, frekar sjúskaður á að líta og tók nýtt stöff, tvö lög. Skaut algjörlega framhjá. Á eftir honum kom síðan Debbie Harry, fyrrum söngkona pönk-sveitarinnar Blondie. Hún byrjaði á einhverju lítt þekktu lagi en tók síðan “Heart of Glass” við mikinn fögnuð. Þá kynnti hún líka til sögunnar besta flytjanda Ray Davies, fyrrum söngvara Kinks. Þau tóku saman “Lolu” og síðan tók Ray helstu slagara Kinks. Karlinn fékk alla höllina með sér í söng, var að reita af sér djóka milli laga og var í alla staði til hins mesta sóma. Lou Reed hefði betur mátt haga sér svona. Næstur á svið var Ben Harper, hvers tónleika ég fór á í Central Park í haust. Hann var fínn en mátti sín lítils í samnburði við Ray gamla. Þá var komið að Micheal Stipe, söngvara REM. Hann byrjaði á tveimur nýlegum lögum, eitthvað Jesús-tengt rugl og svo lag um Kurt Cobain. Hvort tveggja saug dauða rottu. Hann bjargaði andliti með því að enda á Everybody Hurts sem Patti Smith aðstoðaði hann með. Patti þessi Smith er orginal pönk-rokk-hippaljóðagella sem opnaði tónleikana á löngu og dramatísku ljóði um eitthvað, ég missti einbeitinguna fljótt. Síðan endaði Patti á að kyrja eitthvað “People are the Power”-lag sem hún samdi örugglega í Víetnam-stríðinu og hefur verið að raula síðan.

Í það heila var þetta ljómandi skemmtilegt kvöld. Flottir flutningar með nokkrum skitum inn á milli og mjög gaman að hafa komið inn í þessa mögnuðu höll.

Og gleðilegan bjórdag.

Þetta var flytjendalistinn:

Laurie Anderson
Ray Davies (fyrrum söngvari Kinks)
Philip Glass
Ben Harper
Debbie Harry (fyrrum söngkona Blondie)
Lou Reed (Velvet Underground og sólókarl)
Sigur Rós
Patti Smith
Micheal Stipe (REM)

2 Comments:

At 4:06 AM, Anonymous Anonymous said...

Hvernig voru Sigurrós? Gátu þeir ekki blautan eða voru þeir sæmilegir?

kv.

Ellert

 
At 11:32 AM, Blogger Bjarni Kristinn said...

Sigur Rós voru mjög góðir. Ég hef alltaf fílað þá þegar ég hef séð þá performa.

 

Post a Comment

<< Home