Helgi á Íslandi
Helgi Hjörvar er á Íslandi. Meira var það ekki að sinni.
Nei, djók. Smá glens fyrir langþreytta lesendur sem bjarni.com hefur vanrækt upp á síðkastið.
Eftir að hafa þreytt miðannaprófin var förinni heitið heim til Íslands. Orðinn vanur þeim þægindum að fljúga í hálftómum flugvélum var það mjög slæm tilbreyting að ferðast í fullri vél á leiðinni heim. Ég var sem sagt í gluggasæti með konu, köllum hana þétta, mér við hlið, fullvaxinn karlmann fyrir framan og lítið barn fyrir aftan. Konan myndaði þrýstipúða í hliðinni, maðurinn hallaði sér vel aftur þegar ég í augnabliksbrjálæði gaf honum möguleika á því og barnastóllinn fyrir aftan mig skorðaði mig þannig að ég gat ekki hallað mínu sæti aftur. Allt saman mjög óheppilegt og flugið til baka var mun þægilegra þegar frelsi þess að hafa engan við hliðina á mér sneri aftur. Þegar ég kom heim var bjartur og fallegur morgun, ólíkt svartnættinu sem mætti mér um jólin. Þótt ég timdi varla að sofa daginn frá mér varð ég að gera það til þess að vera með orku til þess að trylla lýðinn um kvöldið, enda búinn að setja talsverða pressu á sjálfan mig með umfjöllun og skoðanakönnun um viðreynslur.
Niðurstöður þeirrar könnunar sönnuðu hið fornkveðna að hagsmunir viðreynanda og áhorfenda viðreynslunnar fara sjaldan saman. Þrátt fyrir að lesendur hafi verið nokkuð ósammála um hvaða aðferð væri best var einhugur um það að haglabyssan skyldi verða notuð, helst afsöguð. Þá fékk ég það líka staðfest að a.m.k. tvær stúlkur/konur lesa bjarni.com þar sem “Vertu bara þú sjálfur” fékk tvö atkvæði. Þegar á hólminn var komið var að sjálfsögðu öll ákvarðanataka út um gluggann og handahófskennt vopnaval með áfengiseitrun varð niðurstaðan. Þrátt fyrir, eflaust, mikinn spenning lesenda verð ég að valda vonbrigðum og gefa ekkert upp um árangur veiðiferðarinnar. Slíkt bæri vott um dómgreindarleysi auk þess sem ég er nærgætnari en svo að taka ekki tillit til tilfinninga þeirrar stúlku/stúlkna sem kunna að hafa komið við sögu.
Annars var helgin bara helvíti góð. Alltaf gaman að koma heim, hitta fjölskyldu og vini og komast í bolta.
Fyrir tilviljun horfði ég á tvær myndir í gær sem fjölluðu um sjónhverfingamenn frá því um 1900. Mér finnst alltaf magnað þegar svona myndir koma í pörum. Sem dæmi um fyrri pör má nefna Volcano/Dante´s Peak og Armageddon/Deep Impact. Sjónhverfingatvennan The Illusionist/The Prestige skaut nú líklega hinum ref fyrir rass enda leiðum að líkjast. Vil ekki segja mikið um þær. Þær eru frekar keimlíkar, en ég ráðlegg þeim sem eru að leita sér að góðri mynd um sjónhverfingalistamenn frá 1900 að velja sér Prestige frekar.
1 Comments:
Tvö prik frá mér fyrir Helga Hjörvar djókinn! Meira svona
Post a Comment
<< Home