Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Monday, March 26, 2007

Póker og vændi

Nú er ég að sigla inn í endasprettinn af þessu fyrsta ári mínu í Columbia og ljóst að þær 6 vikur sem eftir eru verða helvíti strembnar. Nú verður hver áfengisdropi sem drekka skal settur í nefnd til þess að meta hvort hann eigi rétt á sér. Nú eykst líka gleðijaðarkostnaður hverrar lesinnar blaðsíðu þar sem veðrið er að batna með hverjum deginum. Nú er orðið að jafnaði 10-15 stig og upp úr og yfirleitt léttskýjað.

Annars tókum við viskí-klúbb um helgina í fyrsta skipti síðan í október. Viskíin eru smám samana að færast upp skalann og sumir a.m.k. farnir að kunna að meta sopann. Ég er enn ekki í þeim hópi. Hins vegar tók strákurinn sig til og vann pókerinn í þetta skiptið. Minn fyrsti sigur eftir tvo ósigra. Ágóðinn rennur þó allur í flotta flösku fyrir næsta klúbb þannig að þetta er meira upp á heiðurinn er hagnaðinn.

Síðan verð ég að lýsa undrun minni á því hversu lögleiðing vændis hefur farið hljóðlega í gegn, að því er virðist. Ekkert heyrðist um þetta fyrr en fyrsta opinbera íslenska karlhóran kærði fjármálaráðherr. Mér finnst þessi löggjöf frekar undarleg, bæði kaup og sala vændis er lögleg en síðan er nánast bannað að tala um að maður sé að velta því fyrir sér að ná sér í vændiseinstakling, eða þá að gerast slíkur. Síðan hefur ekki einn femínisti látið á sér kræla varðandi þetta. Ég geri mér grein fyrir því að rökin fyrir þessari lögleiðingu eru þau að það skuli svipta tilneyddar vændiskonur sök til þess að auka ekki neyð þeirra frekar en af hverju er enginn feministi að snappa yfir því að kaupandinn skuli enn vera löglegur, til dæmis? Ef klámkompaní má ekki halda hópefli á Íslandi, hvernig má það vera að kaup vændis séu í lagi? Eru femínistar kannski bara farnir á vertíð? Hysterísk hjarðhegðun stýrir greinilega umræðunni á Íslandi.

Og moggabloggið er algjör vitleysumagnari. Moggabloggið er nú með um 20.000 bloggara að því er mér skilst sem keppast hver um að svara hinum. Að mörgu leyti er þetta frábært og þarna er kominn vettvangur fyrir fólk sem hefur eitthvað að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Hins vegar er þarna líka kominn vettvangur fyrir algjöra bavíana sem hafa ekki neitt skynsamlegt að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Þannig geta stórar fréttir runnið óséðar í gegn á meðan smámál magnast upp í stærðarinnar vitleysu.

Vil annars mæla með einum moggabloggara sem er jafnan hnitmiðaður og lætur ekki glepja sig í eitthvað bull: Ívar Páll Jónsson .

Thursday, March 22, 2007

Dauði og skattar og þorrablót

Ég fór á mitt fyrsta þorrablót á laugardaginn. Mörgum þykir það kannski merkilegt en hitt þykir kannski merkilegra að þar borðaði ég skyr í fyrsta skipti, a.m.k. svo að ég muni til. Það var úr búi Sigga skyrs sem rekur skyrgerð hér ytra og get ég með góðri samvisku sagt að þetta hafi verið besta skyr sem ég hef smakkað. Annars var blótið hið ágætasta. Það kom mér á óvart hversu mikið af ætum mat var á svæðinu og ég hefði alveg getað sleppt því að slengja í mig pizzusneið áður en ég mætti. Annars var spilað, sungið og dansað og almennt ríkti gleðin. Undirritaður var í hópi hressari manna, aðallega framan af, en þegar mikið stendur til vill það oft brenna við að menn vanmeta aðstæður og eigið þol og það fór svo að ég flaug of hátt á lánuðum vængjum. Ég firra mig að sjálfsögðu allri ábyrgð og kenni veikindum og óvæntum brennivínsstaupum um að hafa farið út af fyrirfram útreiknaðri leið enda hárfín vísindi þar á ferð.

Annars hafa téð veikindi haldið áfram að valda mér leiðindum og er ég búinn að vera hóstandi eins og argasti berklasjúklingur. Akkúrat það sem maður þarf á að halda þegar skólinn er að fara á fullt aftur. Annars var ég í dag í fyrsta tíma í kúrsi sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz kennir. Hörkugaman að fá svona nagla sem er á stöðugri ferð og flugi að segja fólk hvernig eigi að stýra hinum ýmsu hagkerfum. Hann var skemmtilegur í fyrsta tíma og vonandi verður svo áfram.

Nú er árstíð skattframtala í algleymingi og er ég svo heppinn þetta árið að telja fram í öðru veldi og vel það. Hið klassíska íslenska skattframtal er svo sem ekki mikið verk, þótt það flæki aðeins málin að vera ekki á Íslandi, en svo er það gleðin að fá að telja fram hér í Bandaríkjunum í fyrsta skipti. Hér þarf ég að skila inn tveimur framtölum, fyrir New York ríki og alríkið.

Að lokum vil ég óska öllum íbúum norðurhvels jarðar með það að nú er dagurinn orðinn nóttunni yfirsterkari og vex nú aðeins styrkur fram á sumarið. Ég ætlaði að segja einhvern svæsinn Grænlendingabrandara hérna en læt það vera að sinni.

Saturday, March 17, 2007

Skíðavor

Eftir að ég kom heim frá Íslandi eftir síðustu helgi datt inn slík og þvílík rjómablíða að Íslendingurinn skildi ekkert hvaðan á sig stóð veðrið. Á þriðjudag var 15 stig og á miðvikudag skreið hitinn yfir 20 stig ásamt sól. Báða dagana var tækifærið gripið til að hlaupa 10km í Central Park og seinni daginn stóð manni hreint ekki á sama með hitann. Líkaminn hafði engan veginn við að kæla mann niður. Í gær, föstudag, tóku dyntir New York-veðursins við og hitinn fór svolítið undir frostmark og það snjóaði vel.

Það var reyndar mjög heppilegt þar sem við höfðum ákveðið að fara á skíði á umræddum föstudegi. Við fórum á fimmtudegi með tveimur félögum okkar heim til annars þeirra í dæmigert bandarísk smábæjarúthverfi í New Jersey. Þar elduðu foreldrar hans fyrir okkur og við gistum í gestaherbergjum hússins. Á föstudeginum héldum við síðan upp í Pokonos-fjöllin og skíðuðum um eftirmiðdaginn fram á kvöld. Síðan var haldið heim á leið í þó nokkurri snjókomu. Við keyrðum fram hjá og sáum nokkur bílslys og ökumaðurinn í okkar bíl ætlaði að gera okkur vitlausa með hægum akstri. Við Íslendingarnir töldum okkur aldeilis kunna að keyra hraðar og öruggar í snjónum. Síðan tókum við rútu aftur inn á Manhattan seint um kvöldið og skelltum okkur í háttinn. Í kvöld mun ég síðan hlæja að íslenskum matarsiðum á margfrægu Þorrablóti Íslendingafélagsins í New York. Flugferðin heim, öll þessi veðrabrigði og líkamsrækt hafa reyndar farið eitthvað illa í ónæmiskerfið og fer ég léttkvefaður og hálsbólginn á blótið. En ekki þýðir að kvarta. Ekki hefði Egill Skallagrímsson látið kvefpest stöðva sig í að fara í gott blót.

Fyrir þá sem ekki fylgjast með neinum öðrum vefmiðlum en bjarni.com er rétt að benda á breytingar á kynferðislögum Íslendinga. Til dæmis verður vændi til framfærslu gert löglegt, ekki veit ég hvort kaupandi vændis er lögbrjótur eður ei. Síðan verður samræðisaldur hækkaður úr 14 ára í 15. Mörgum finnst þetta enn fulllágt og margt til í því. Manni finnst erfitt að sjá að það sé rétt að fertugir karlar, nú eða konur, kræki sér í 15 ára unglamb. Hins vegar fyndist manni erfitt að refsa 16 ára strák, nú eða stelpu, fyrir að sænga með 15 ára stelpu, nú eða strák. Þess vegna væri kannski æskilegt að bæta við einhverju svona “gráu svæði” sem myndi leysa þetta vandamál. Þarna er kannski loksins komið tækifæri fyrir hina margfrægu gullnu hjásvæfureglu til að komast í lög. Þ.e. að allir megi sofa hjá öllum sem eru yfir 18 ára en þar sem einstaklingar undir 18 ára koma við sögu skuli eftirfarandi regla gilda:

“Skal yngri/yngsti einstaklingur í mökum ávallt hafa í minnsta lagi náð þeim aldri sem reiknast út frá aldri eldri/elsta einstaklings í téðum mökum:

(hæsti aldur)/2 +7”

Pæling.

Wednesday, March 14, 2007

Helgi á Íslandi

Helgi Hjörvar er á Íslandi. Meira var það ekki að sinni.

Nei, djók. Smá glens fyrir langþreytta lesendur sem bjarni.com hefur vanrækt upp á síðkastið.

Eftir að hafa þreytt miðannaprófin var förinni heitið heim til Íslands. Orðinn vanur þeim þægindum að fljúga í hálftómum flugvélum var það mjög slæm tilbreyting að ferðast í fullri vél á leiðinni heim. Ég var sem sagt í gluggasæti með konu, köllum hana þétta, mér við hlið, fullvaxinn karlmann fyrir framan og lítið barn fyrir aftan. Konan myndaði þrýstipúða í hliðinni, maðurinn hallaði sér vel aftur þegar ég í augnabliksbrjálæði gaf honum möguleika á því og barnastóllinn fyrir aftan mig skorðaði mig þannig að ég gat ekki hallað mínu sæti aftur. Allt saman mjög óheppilegt og flugið til baka var mun þægilegra þegar frelsi þess að hafa engan við hliðina á mér sneri aftur. Þegar ég kom heim var bjartur og fallegur morgun, ólíkt svartnættinu sem mætti mér um jólin. Þótt ég timdi varla að sofa daginn frá mér varð ég að gera það til þess að vera með orku til þess að trylla lýðinn um kvöldið, enda búinn að setja talsverða pressu á sjálfan mig með umfjöllun og skoðanakönnun um viðreynslur.

Niðurstöður þeirrar könnunar sönnuðu hið fornkveðna að hagsmunir viðreynanda og áhorfenda viðreynslunnar fara sjaldan saman. Þrátt fyrir að lesendur hafi verið nokkuð ósammála um hvaða aðferð væri best var einhugur um það að haglabyssan skyldi verða notuð, helst afsöguð. Þá fékk ég það líka staðfest að a.m.k. tvær stúlkur/konur lesa bjarni.com þar sem “Vertu bara þú sjálfur” fékk tvö atkvæði. Þegar á hólminn var komið var að sjálfsögðu öll ákvarðanataka út um gluggann og handahófskennt vopnaval með áfengiseitrun varð niðurstaðan. Þrátt fyrir, eflaust, mikinn spenning lesenda verð ég að valda vonbrigðum og gefa ekkert upp um árangur veiðiferðarinnar. Slíkt bæri vott um dómgreindarleysi auk þess sem ég er nærgætnari en svo að taka ekki tillit til tilfinninga þeirrar stúlku/stúlkna sem kunna að hafa komið við sögu.

Annars var helgin bara helvíti góð. Alltaf gaman að koma heim, hitta fjölskyldu og vini og komast í bolta.

Fyrir tilviljun horfði ég á tvær myndir í gær sem fjölluðu um sjónhverfingamenn frá því um 1900. Mér finnst alltaf magnað þegar svona myndir koma í pörum. Sem dæmi um fyrri pör má nefna Volcano/Dante´s Peak og Armageddon/Deep Impact. Sjónhverfingatvennan The Illusionist/The Prestige skaut nú líklega hinum ref fyrir rass enda leiðum að líkjast. Vil ekki segja mikið um þær. Þær eru frekar keimlíkar, en ég ráðlegg þeim sem eru að leita sér að góðri mynd um sjónhverfingalistamenn frá 1900 að velja sér Prestige frekar.

Sunday, March 04, 2007

Midterms og svo heim

Ágæt helgi er senn að baki. Tvei íslenskir bankapjakkar voru á ferð í gegn og við Rabbi tókum þá út á lífið, út að borða og svo á klúbbana í Meat-Packing.

Annars standa nú yfir reglubundin leiðindi, næsta vika er uppfull af prófum. En þegar þeim lýkur ætla ég að verðlauna sjálfan mig með dirty weekend in Iceland. Af því tilefni finnst mér ástæða til að slengja fram einu gamlagotti sem fjallar um ýmsar leiðir til að nálgast hið margfræga hitt kyn. Þessi pistill var birtur á Skítnum þann 9.september, 2004. Njótið heil.

Vopnaval

Eins og einhverjir lesendur Skítsins kannski vita er ég einhleypur. Hvers vegna það er veit ég ekki alveg. Sambandsviljinn er alveg fyrir hendi svo að ekki er það vandamálið. Því hlýtur annað tveggja eiginlega að vera satt: Annaðhvort er ég mjög óáhugaverður eða ég er að beita röngum aðferðum í tilraunum mínum til þess að komast í kynni við hitt kynið. Ef hið fyrra er rétt er lítið við því að gera og raunar frekar niðurdrepandi. Gerum því ráð fyrir að það sé seinna atriðið sem sé satt.

Viðreynsla getur í grundvallaratriðum endað á tvo vegu: Með árangri eða höfnun. Það sem knýr mann til viðreynslu er að sjálfsögðu löngunin til þess að ná téðum árangri og það sem heldur aftur af manni er óttinn við höfnunina. Spurningin er bara hvort löngunin til árangurs yfirstígur óttann við höfnun. Í raun snýst þetta um væntar afleiðingar viðreynslunnar, þ.e. hvers virði telur maður árangurinn, hversu slæmt er að láta hafna sér og hverjar líkurnar á hvoru fyrir sig eru.

Mér sýnast fjórar aðferðir koma til greina:

i) Sniperinn.

Hérna er eingöngu stefnt að besta mögulega árangri. Þessi aðferð felst í því að kanna alla möguleika, meta hvern og einn vel og vandlega, velja það skotmark sem hefur hæst árangursgildi og jafnframt jákvætt væntigildi og eyða öllum nauðsynlegum tíma og orku í viðkomandi skotmark.

ii) Hálfsjálfvirka.

Þessi aðferð felst í því að hámarka væntigildi kvölds. Hér er reynt við allt sem hefur jákvætt væntigildi. Aðferðin gengur út á það að á endanum hlýtur eitthvað að takast sem maður kann að meta án þess að líða mikið fyrir hafnanir. Lítið vægi er sett á höfnun.

iii) Shotgun.

Þessi aðferð felst í því að hámarka líkur á einhverjum árangri. Hún gengur út á að reyna hratt og örugglega við allt sem maður sér. Viðreynsluhraðinn er svo keyrður meira upp eftir því sem á kvöldið líður. Svo fremi sem maður sé ekki stórslys ætti að vera ómögulegt að ná ekki árangri með þessari aðferð. Árangurinn getur hins vegar verið mjög umdeildur. Ekkert vægi er sett á höfnun.

iv) Byssustingur.

Þessi aðferð felst í því að lágmarka líkur á höfnun. Hér er beðið eftir algjöru dauðafæri. Bráðin er lokkuð hægt og rólega án þess að taka nokkra alvöru áhættu á höfnun. Þegar alveg ljóst er í hvað stefnir er látið til skarar skríða. Þessi aðferð er ekki mjög afkastamikil en ætti að skila manni mjög öruggum og traustum árangri þegar hún gengur.

Allar hafa þessar aðferðir kosti og galla og eflaust eru til fleiri. Sjálfur held ég að ég beiti byssustingnum of mikið. Hann er hægvirkt veiðitæki sem áhættufælnir sækja oft í. Ég hef séð menn í shotgun-ham og á erfitt með að sjá sjálfan mig með haglarann að vopni. Fyrir áhorfendur er þó shotgun líklegast með hæst skemmtanagildi.

Friday, March 02, 2007

1.mars - Fyrsta hlaup - Vor í lofti

Eftir kaldan janúar og ískaldan febrúar er loks farið að hylla undir bjartari tíma. Dagarnir eru farnir að lengjast lítillega en það sem mikilvægara er hitinn er farinn að rísa viku frá viku.

Ég er búinn að bíða eftir því lengi að geta tekið fram hlaupaskóna að nýju og hlaupið í sólinni í Central Park og loksins kom tækifærið. Ég fór reyndar fullgeyst til að byrja með, eins og kýrnar á vorin, og sprakk á limminu eftir 5 km. En rölti síðan og skokkaði til skiptis aðra 5. Síðan hljóp ég upp á campusinn, þar sem nemendur eru greinilega farnir að finna vorlyktina því aðaltröppurnar á campusnum voru þéttsetnar af fólki sem baðaði sig í sólinni. Síðan fór ég í gymmið, tók nokkur tæki og sneri heim á leið. Á leiðinni niður umræddar þéttsetnar tröppur, er ég labba niður, helvíti reffilegur í hlaupagallanum eftir lyftingar og hlaup, skrikar mér fótur og ég hryn niður tröppurnar og ligg kylliflatur. Fólk allt í kring brosti létt og spurði mig, af almennilegri New York kurteisi, hvort ekki væri í lagi með mig. Ég játti því og rölti svo heim á leið, aðeins minna kúl en nokkrum sekúndum áður en samt helvíti reffilegur.

En frábært að vorið skuli vera farið að láta í sig glitta og ljóst að nú fer hlaupum að fjölga jafnt og þétt.

Thursday, March 01, 2007

Kvöldstund í Carnegie Hall

Á mánudagskvöldið fór ég í hina fornfrægu tónleikahöll Carnegie Hall. Höllin hefur frá 1890 hýst ýmsa stórlistamenn og menn muna kannski eftir því að Andy Kaufmann hélt sína frægu “Milk and Cookies” sýningu þar.

Tónleikarnir sem ég fór á voru til að styrkja og vekja athygli á neyð Tíbeta. Sem ötull baráttumaður fyrir sjálfstæði Tíbeta gat ég að sjálfsögðu ekki látið mig vanta á þetta. Það hafði ekkert með alla listamennina að gera sem voru á dagskránni. Alls voru um 10 mismunandi listamenn.

Fyrstir á svið voru tíbetskir ungmunkar sem hummuðu og blésu í trérör í allt of langan tíma. En þegar þeir luku sér loksins af tók betra við. Sigur Rós var meðal þeirra fyrstu, tóku tvö lög af stakri prýði og fengu rífandi viðtökur frá öllum salnum. Á eftir þeim kom Lou Reed, fyrrum söngvari Velvet Underground og stórsólóisti. Ég var mjög spenntur fyrir að sjá hann, enda á hann bæði Velvet-perlur sem og eigin gullmola á við “Walk on the Wild Side” og “Perfect Day”. Hann skeit hins vegar í brók. Mætti í einhverjum gulskræpóttum ælugalla, frekar sjúskaður á að líta og tók nýtt stöff, tvö lög. Skaut algjörlega framhjá. Á eftir honum kom síðan Debbie Harry, fyrrum söngkona pönk-sveitarinnar Blondie. Hún byrjaði á einhverju lítt þekktu lagi en tók síðan “Heart of Glass” við mikinn fögnuð. Þá kynnti hún líka til sögunnar besta flytjanda Ray Davies, fyrrum söngvara Kinks. Þau tóku saman “Lolu” og síðan tók Ray helstu slagara Kinks. Karlinn fékk alla höllina með sér í söng, var að reita af sér djóka milli laga og var í alla staði til hins mesta sóma. Lou Reed hefði betur mátt haga sér svona. Næstur á svið var Ben Harper, hvers tónleika ég fór á í Central Park í haust. Hann var fínn en mátti sín lítils í samnburði við Ray gamla. Þá var komið að Micheal Stipe, söngvara REM. Hann byrjaði á tveimur nýlegum lögum, eitthvað Jesús-tengt rugl og svo lag um Kurt Cobain. Hvort tveggja saug dauða rottu. Hann bjargaði andliti með því að enda á Everybody Hurts sem Patti Smith aðstoðaði hann með. Patti þessi Smith er orginal pönk-rokk-hippaljóðagella sem opnaði tónleikana á löngu og dramatísku ljóði um eitthvað, ég missti einbeitinguna fljótt. Síðan endaði Patti á að kyrja eitthvað “People are the Power”-lag sem hún samdi örugglega í Víetnam-stríðinu og hefur verið að raula síðan.

Í það heila var þetta ljómandi skemmtilegt kvöld. Flottir flutningar með nokkrum skitum inn á milli og mjög gaman að hafa komið inn í þessa mögnuðu höll.

Og gleðilegan bjórdag.

Þetta var flytjendalistinn:

Laurie Anderson
Ray Davies (fyrrum söngvari Kinks)
Philip Glass
Ben Harper
Debbie Harry (fyrrum söngkona Blondie)
Lou Reed (Velvet Underground og sólókarl)
Sigur Rós
Patti Smith
Micheal Stipe (REM)