Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Thursday, August 24, 2006

Rútínulíf í New York í fæðingu

Vegna einnar áskorunar og tímabærleika hef ég ákveðið að birta hér með þriðju skýrsluna frá New York.

Þegar þetta er skrifað er ég nýkominn heim úr missjóni á latínó-tónleika í Battery Park, syðst á Manhattan. Þarna voru lúðrar þeyttir, bongótrommur slegnar og misfagrir tónar sungnir. Stemmningunni var að sjálfsögðu haldið uppi á spænsku enda eintómir Púertó Ríkanar á staðnum. Það er greinilega margt til í því sem Kramerinn sagði um þá: “They are a very festive people” því þarna dansaði fólk á öllum aldri í kringum sviðið. (Kramer skrifa ég og horfi út um gluggann á Tom’s Restaurant sem varð frægur í Seinfeld, hann er alltaf opinn held ég og er alltaf nóg að gera).

En á leiðinni heim af þessum tónleikum gaf ég betlara í fyrsta skipti pening síðan ég kom hingað út. Eins og áður hefur komið fram hef ég mest gaman að því betlurum sem reyna að skemmta manni, og helst á einhvern frumlegan hátt. Þessi labbaði með okkur Rabba eins og eitt og hálft stræti og fór með rímur, sem voru meira í takt við íslenskar ferskeytlur en rapp. Kauði talaði nú frekar óskýrt en ég heyrði rím eins og “brothers of two mothers” og eitthvað fleira og ákvað að splæsa á hann hátt í einum dal. Hann fær meira ef hann lærir að stuðla.

Um síðustu helgi fór ég líka á einhverja grín-spunakeppni um síðustu helgi. Sem sagt tvö lið sem glíma við spunaþrautir og eiga að reyna að skemmta áhorfendum. Þetta jafnast ekki alveg á við gott stand-up en ég hafði mjög gaman að þessu. Ég ætla einmitt að reyna að fara að drífa mig á eitt gott stand-up.

Á mánudaginn síðasta hófust stærðfræðibúðir (math camp) fyrir doktorsnemana í business skólanum þannig að ég er byrjaður að mæta í tíma. Þetta er nú reyndar mest upprifjun en skóli er þetta samt. Mér líst ekki jafnilla á hópinn eins og áður en ég mætti á staðinn. Þetta virðist bara ágætis fólk, þótt doktorsnemar séu. Það sem kom mér mest á óvart varðandi hópinn er það að í bekknum mínum er 19 ára rússnesk stelpa! Og hún er heldur ekkert svo ólagleg. Ótrúlegt hvað getur komið úr þessu berklaétna mafíuhræi sem Rússland nú er.

Síðustu dagar hafa annars farið í að koma íbúðinni í stand. Eftir nokkuð mislukkaða IKEA-ferð er ég þó kominn með það nauðsynlegast, rúm, borð og stóla í íbúðina. Ég er líka búinn að vera að reyna að koma mér í að þrífa slotið. Það gengur, þótt hægt sé. Síðan er ég nýkominn með rafmagnspíanó til að viðhalda slaghörpuhæfileikum mínum og líst mér bara vel á gripinn. Spurning hvað maður fær að vera lengi í friði áður en farið verður að kvarta undan tónunum fögru. Annars finn ég fyrir undarlegri ánægjutilfinningu með það að vera að byggja upp mitt eigið heimili. Að finna smám saman hvað vantar og stoppa í götin er merkilega gaman. Jafnvel að átta sig á því að mann vantar þvottabursta eða dósaoppnara og kaupa viðkomandi er einhvern veginn eins og að setja síðustu bitana í púsl sem maður er búinn að vera að dunda sér við lengi. Reyndar er nú þó nokkuð í að klára púslið en hvað um það.

Ég reyni að láta ekki jafnlangt líða milli skrifa næst.

P.S.
Varðandi heimsóknir reyni ég að hitta alla gestkomandi sem vilja hitta mig, og sér í lagi er ég bara réttbyrjaður í skólanum helgina 8.-10. september þannig að þá ætti að vera auðvelt að koma við hittingi (til að svara commenti frá síðasta pistli).

Contact-upplýsingar mínar eru annars:
e-mail: bjarnitorfason@gmail.com
Sími (USA): +1 646 457 0216

Tuesday, August 15, 2006

Hinir marglitu dropar mannhafsins

Nú er ég rúm vika síðan ég gat hætt að pæla í íbúðaleit og farið að njóta þess að lifa og leika mér í New York. Þegar maður fer að líta í kringum sig skilur maður af hverju New York er oft kölluð höfuðborg heimsins. Hér gefur að líta allra þjóða kvikindi og göturnar eru hrærigrautur af fólki af mismunandi þjóðernum, kynþáttum, stéttum, trúarbrögðum og hvaða flokkum sem maður getur greint fólk í. Reyndar sér maður hvernig mismunandi hópar eru fjölmennari eftir hverfum. Til dæmis er Columbia-háskólasvæðið eins og eyja í svörtu hafi. Á þeim 10-15 strætum sem háskólasvæðið nær yfir er mjög mikið af ungu fólki, einkum hvítir og asískir. Fyrir norðan og austan er síðan hið margrómaða Harlem hverfi og fyrir sunnan virðist síðan virðist síðan vera nokkuð fátækt hverfi, og í þessum hverfum eru svartir í meirihluti en spænskættaðir (hispanics) líka mjög fjölmennir. Í þessu sér maður ákveðna stéttaskiptingu kristallast, nánast allir sem eru að vinna við afgreiðslustörf, verkamannastörf og það sem maður getur ímyndað sér að séu láglaunastörf eru einmitt svartir og spænskættaðir á meðan t.d. prófessor og aðrir í skrifstofustörfum í háskólanum eru einmitt hvítir og asískir. Ég tók líka eftir mjög sérstakri stéttaskiptingu á veitingastað hér í hverfinu. Þar gengur maður inn og ungar, hvítar stúlkur vísa manni til borðs og taka pöntunina en síðan koma spænskættaðir strákar og hella í glösin hjá manni og taka af borðinu þegar maður er búinn. Auðvitað er ég mjög hlynntur því að hafa stelpur í framlínunni en þetta er samt mjög sérstakt að sjá.

Síðan fór ég suður í Soho og rölti þar um búðahverfi og inn í Kínabæ. Eins og nafnið gefur til kynna er þar mestmegnis fólk af kínverskum uppruna en líka nóg af túristum. Þar er mannmergðin eiginlega mest þar sem ég hef farið, a.m.k. miðað við pláss. Þar skelltum við Baldur okkur einmitt í hádegismat um daginn. Kallinn tók risarækjurnar með trompi. Eftir matinn fengum við svo gæfukökur. Mín sagði: “You will enjoy good health” og var ég bara nokkuð ánægður með það. Baldur fékk: “You enjoy public service”, ég veit ekki alveg hvað hann ætlar að gera við það. Annars fylgdu sex happatölur með gæfuspánni og þar sem ég vil endilega trúa því að ég muni njóta góðrar heilsu ætla ég bara líka að trúa því að þessar tölur séu happatölur. Ég ætla því að nota þær til að spila í víkingalottóinu um ókomna tíð. Einnig má líta á þetta sem vísindalega tilraun. Ég trúi almennt ekki á svona en annaðhvort vinn ég í víkingalottóinu eða ég afsanna alla hjátrú á einu bretti, hvor kosturinn fyrir sig er góður.

Rónar eru nú líka einn kapituli hérna. Um daginn vorum við Rabbi, sem er mættur á svæðið, að snæða kvöldverð úti og þá var einn sem hljóp fram og aftur fram hjá veitingastaðnum og öskraði. Eitthvað vildi hann nú segja en ég náði því ekki alveg. Af nógu er að taka af heimilislausu fólki hérna virðist vera. Ég hef einmitt séð “heimili” tveggja hérna rétt hjá. Þeir hafa þar búið um sig við tvo bekki og slappa þar af. Reyndar hljóp ég fram hjá þar áðan og þeir voru nú ekki heima en búslóðin var til staðar. Mikið er um betl, yfirleitt klassískt betl sem er ekki of agressíft. Síðan er það söluræðan í lestinni, þar sem fólk ferðast milli vagna og heldur fyrirlestur um ömurlegt líf sitt, það myndar mjög þvingaða stemmningu í lestinni. En best kann maður við þá sem reyna að gera manni eitthvað til gleði og yndisauka. Til dæmis sá ég einn um daginn sem var að reyna að taka One með U2 með gítar og eitt gítargrip að vopni en náði að gera gott show úr því með því að öskra bara nógu hátt og taka æði eins og gert var í gamla daga í Keflavík. Ruslatunnugraflararnir eru líka þó nokkrir og ég sá áðan einn sem var kominn í feitt, en hann var að rífa vel valdar myndir út úr klámblaði.

Annars er ég búinn að kíkja aðeins á næturlífið í East Village og Meat Packing District sem lítur bara vel út. Þá er ég búinn að kíkja á einhverja “alþjóðlega tónleika” sem reyndust algjört sorp, grískt, portúgalskt og afrískt öskur og væl og sitthvað fleira.

Rabbi dró mig í hlaup nr. 2, sjá hlaupadagbók.

Bæjó.

Monday, August 07, 2006

Fyrsta hlaupið

Þá er fyrsta hlaupið búið, léttir 8 km í 29°C hita. Hlaupadagbókin er opin, sjá link hægra megin.

Sunday, August 06, 2006

Strákurinn kominn í stórborgina

Fyrir rétt rúmri viku fjölgaði íbúum New York borgar um einn, þegar Bjarni nokkur Torfason mætti á svæðið. Fáir kipptu sér nú upp við það enda lítill dropi í mannhafið sem fyrir er.

Föstudagskvöldið fyrir brottför var að sjálfsögðu nýtt til að mála Reykjavík rauða og svo tók barnaafmæli við á laugardeginum. Þaðan lá leiðin út á flugvöll. Eftir rúmlega fimm tíma flug með vinalegum íslenskum flugfreyjum var maður allt í einu kominn í gin ljónsins. Allir töluðu útlensku og helst það hratt og með nógu skrítnum hreim að litli strákurinn varð að segja “Sorry?” með tilheyrandi pirringi.

Eftir hálftímalanga bílferð í týpískum gulum taxa, þar á meðal í gegnum Harlem komst ég í íbúðina sem ég átti eftir að gista í næstu vikuna. Þegar ég settist inn í þessa litlu íbúð, með gluggum inn í port á laugardagskvöldi var ekki laust við að ég saknaði Reykjavíkurdjammsins og barnaafmælisins. Lítill strákur var nú kominn í stórborg.

Það auðveldaði mér nokkuð aðlögunina að hitta Baldur sem var að heimsækja New York frá Boston. Hann kynnti mig fyrir hinu heillandi hverfi, Williamsburg í Brooklyn. Þetta hverfi er mun lágreystara en Manhattan, mun minni erill og er víst orðið mjög vinsælt meðal listamanna þar sem leiguverð á Manhattan hefur hrakið flesta tekjulitla í burtu. Að sjálfsögðu dró Baldur mig á indí-tónleika sem haldnir voru í gamalli sundlaug í Williamsburg. Stemmningin var mjög skemmtileg, fólk lék sér með bolta, spilaði dodge ball, renndi sér í vatnskastala og bara sötraði bjór og hafði gaman. Auðveldur fyrsti dagur.

Síðan tók lífsbaráttan við, íbúðaleitin hófst á mánudeginum. Ég var reyndar búinn að komast inn í íbúðakerfi Columbia en að velja úr því sem til var átti eftir að reynast erfiðara en ég hélt. Kerfið virkar þannig að maður fær ákveðinn forgang á hverjum degi, síðan sér maður lauslega hvað stendur til boða og velur sér íbúð/herbergi til að skoða. Ef enginn forgangshærri tekur þá íbúð/herbergi sem maður skoðar þá getur maður annaðhvort a) Tekið íbúðina/herbergið eða b) Sagt nei, takk og þá er komið “Strike one” og maður hefur bara fjögur strike. Eftir það verður maður að taka því sem manni býðst. Ef einhver forgangshærri tekur svo íbúðina telur hún ekki. Þannig að það voru miklar leikjafræðipælingar varðandi það hvaða íbúðir skyldi skoða enda vill maður nýta strike-in eins vel og maður getur. Síðan voru mér líka tímamörk sett því aðeins ein vika var eftir á úthlutuninni.

Til að bæta ofan á þetta var methiti, 37 stig, og sól til þess að steikja litla föla strákinn.

Tvö strike voru tekin fyrsta daginn enda lítið merkilegt í boði, lítil dimm herbergi og herbergi á jarðhæð (með rimlum fyrir gluggum) og ekkert sérlega vel staðsett, voru það sem stóð til boða. Daginn eftir kom ekkert nýtt inn og ekki hýrnaði brúnin við það. Næsta dag datt inn studíó-íbúð á fyrstu hæð (með rimlum að sjálfsögðu) en einhver á undan mér í forgang tók hana (og sá ég ekki eftir henni). Á fjórða og næstsíðasta degi duttu inn tvær vel staðsettar stúdíó-íbúðir. Önnur var algjör draumaíbúð, enda missti ég hana til forgangshærri keppinautar en hina tók ég á síðasta degi vikunnar.

Baráttunni var lokið. Ég veit ekki hvort ég kem út úr henni sem sigurvegari en ég held að ég hafi ekki tapað. Íbúðin er ekki stór á íslenskan mælikvarða (30-40 fm að grunnfleti) en ég held að hún sé bara allt í lagi á New York mælikvarða. Hún er ekki björt. En hún er vel staðsett. Þannig að eftir stendur að þegar húsgögn verða keypt inn í hana þarf að beita miklu hyggjuviti til að nýta pláss og birtu sem best.

Nú taka við tvær vikur af aðgeraleysi og lestri (ég er búinn með eina og hálfa af þeim fjórum bókum sem skólinn vill að ég sé búinn að lesa áður en skólinn sjálfur hefst). Ég er búinn að taka einn góðan verslunarleiðangur í miðbæinn, kaupa mér flest dry-fit sem til er fyrir hlaupin. Ég er reyndar ekki byrjaður að hlaupa (ber fyrir mig önnum og hita) en stefni að því að taka fyrsta hlaup á morgun. Síðan mun ég reyna að viðhalda hlaupadagbók til þess að þjálfarinn geti tekið upp svipuna þegar þarf.

Frekari fréttir munu berast þegar þær gerast.

Strákurinn kveður.