Rútínulíf í New York í fæðingu
Vegna einnar áskorunar og tímabærleika hef ég ákveðið að birta hér með þriðju skýrsluna frá New York.
Þegar þetta er skrifað er ég nýkominn heim úr missjóni á latínó-tónleika í Battery Park, syðst á Manhattan. Þarna voru lúðrar þeyttir, bongótrommur slegnar og misfagrir tónar sungnir. Stemmningunni var að sjálfsögðu haldið uppi á spænsku enda eintómir Púertó Ríkanar á staðnum. Það er greinilega margt til í því sem Kramerinn sagði um þá: “They are a very festive people” því þarna dansaði fólk á öllum aldri í kringum sviðið. (Kramer skrifa ég og horfi út um gluggann á Tom’s Restaurant sem varð frægur í Seinfeld, hann er alltaf opinn held ég og er alltaf nóg að gera).
En á leiðinni heim af þessum tónleikum gaf ég betlara í fyrsta skipti pening síðan ég kom hingað út. Eins og áður hefur komið fram hef ég mest gaman að því betlurum sem reyna að skemmta manni, og helst á einhvern frumlegan hátt. Þessi labbaði með okkur Rabba eins og eitt og hálft stræti og fór með rímur, sem voru meira í takt við íslenskar ferskeytlur en rapp. Kauði talaði nú frekar óskýrt en ég heyrði rím eins og “brothers of two mothers” og eitthvað fleira og ákvað að splæsa á hann hátt í einum dal. Hann fær meira ef hann lærir að stuðla.
Um síðustu helgi fór ég líka á einhverja grín-spunakeppni um síðustu helgi. Sem sagt tvö lið sem glíma við spunaþrautir og eiga að reyna að skemmta áhorfendum. Þetta jafnast ekki alveg á við gott stand-up en ég hafði mjög gaman að þessu. Ég ætla einmitt að reyna að fara að drífa mig á eitt gott stand-up.
Á mánudaginn síðasta hófust stærðfræðibúðir (math camp) fyrir doktorsnemana í business skólanum þannig að ég er byrjaður að mæta í tíma. Þetta er nú reyndar mest upprifjun en skóli er þetta samt. Mér líst ekki jafnilla á hópinn eins og áður en ég mætti á staðinn. Þetta virðist bara ágætis fólk, þótt doktorsnemar séu. Það sem kom mér mest á óvart varðandi hópinn er það að í bekknum mínum er 19 ára rússnesk stelpa! Og hún er heldur ekkert svo ólagleg. Ótrúlegt hvað getur komið úr þessu berklaétna mafíuhræi sem Rússland nú er.
Síðustu dagar hafa annars farið í að koma íbúðinni í stand. Eftir nokkuð mislukkaða IKEA-ferð er ég þó kominn með það nauðsynlegast, rúm, borð og stóla í íbúðina. Ég er líka búinn að vera að reyna að koma mér í að þrífa slotið. Það gengur, þótt hægt sé. Síðan er ég nýkominn með rafmagnspíanó til að viðhalda slaghörpuhæfileikum mínum og líst mér bara vel á gripinn. Spurning hvað maður fær að vera lengi í friði áður en farið verður að kvarta undan tónunum fögru. Annars finn ég fyrir undarlegri ánægjutilfinningu með það að vera að byggja upp mitt eigið heimili. Að finna smám saman hvað vantar og stoppa í götin er merkilega gaman. Jafnvel að átta sig á því að mann vantar þvottabursta eða dósaoppnara og kaupa viðkomandi er einhvern veginn eins og að setja síðustu bitana í púsl sem maður er búinn að vera að dunda sér við lengi. Reyndar er nú þó nokkuð í að klára púslið en hvað um það.
Ég reyni að láta ekki jafnlangt líða milli skrifa næst.
P.S.
Varðandi heimsóknir reyni ég að hitta alla gestkomandi sem vilja hitta mig, og sér í lagi er ég bara réttbyrjaður í skólanum helgina 8.-10. september þannig að þá ætti að vera auðvelt að koma við hittingi (til að svara commenti frá síðasta pistli).
Contact-upplýsingar mínar eru annars:
e-mail: bjarnitorfason@gmail.com
Sími (USA): +1 646 457 0216