Dagar víns og rósa – aðallega vínsFrá því síðasti pistill var ritaður hefur verið öllu minni pressa heldur en fyrir maraþon og midterms. Kúrsar hafa verið rólegri og ég hef almennt verið rólegri yfir kúrsunum. Þá hefur líkamanum hrörnað hratt og örugglega þar sem hlaupum var alfarið skipt út fyrir áfengisneyslu þannig að í stað þess að hlaupa um þrisvar í viku, u.þ.b. eitt maraþon á viku, hafa verið tekin hátt í þrjú fyllerí á viku, flest í skemmtiskokkflokknum, eitt til tvö hálfmaraþon og eitt maraþon-fyllerí sem hafði mun meiri líkamleg eftirköst en hið raunverulega maraþon.
Ýmis tækifæri hafa gefist. Gamlir vinnufélagar úr Ís-, ég meina Glitni, mættu á svæðið og það kallaði á ölvun, sér í lagi þar sem námsmaðurinn komst í opinn bar í sterkari skilningi hugtaksins, þ.e. þar sem ókeypis áfengi kemur til þín. Slíkt hefur alltaf sína kosti og galla. Sömu helgi var tekin létt bæjarferð með alþjóðlegum hópi.
Helgina eftir gekk þakkargjörðarhátíðin í garð. Að sjálfsögðu var haldið upp á hana, U.S. style, horft á amerískan fótbolta (sem tekur fáránlega langan tíma) og svo kalkúnn étinn í hópi fjölskyldu og vina. Þá var líka fullt af Íslendingum í bænum þannig að við tókum góðan hitting yfir sushi og með því.
Þá var ég núna um helgina á smáskralli þar sem við hittum stelpu sem kvaðst vera dóttir Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York og mögulega næsta forseta Bandaríkjanna, en eftir google- og wikipedia-könnun hefur faðerni stúlkunnar verið dregið í efa. Hið sanna mun vonandi koma í ljós þannig að maður geti sett hana í “Semi-Celebrity” dálkinn yfir þá sem maður hefur séð hérna úti.
Annars er ég aftur byrjaður að hlaupa og mun keyra drykkjuna niður næstu vikurnar þar sem próftímabil er að hefjast. Þá er stutt í að niðurtalning í heimför hefjist. Þegar þetta er ritað eru 17 dagar þar til ég mæti á klakann, sem ber víst nafn með rentu þessa dagana. Á meðan hér úti hefur verið meira og minna 15+ stiga hiti heyrir maður fréttir af nístandi frosti og blindbyljum heima. Eftir hátt í 20 stiga hita í síðustu viku er hitinn reyndar kominn í eins stafs tölu og búast má við næturfrosti á næstu dögum svo að það virðist sem haustið sé endanlega að verða búið og vetur að taka yfir.