Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Monday, March 26, 2007

Póker og vændi

Nú er ég að sigla inn í endasprettinn af þessu fyrsta ári mínu í Columbia og ljóst að þær 6 vikur sem eftir eru verða helvíti strembnar. Nú verður hver áfengisdropi sem drekka skal settur í nefnd til þess að meta hvort hann eigi rétt á sér. Nú eykst líka gleðijaðarkostnaður hverrar lesinnar blaðsíðu þar sem veðrið er að batna með hverjum deginum. Nú er orðið að jafnaði 10-15 stig og upp úr og yfirleitt léttskýjað.

Annars tókum við viskí-klúbb um helgina í fyrsta skipti síðan í október. Viskíin eru smám samana að færast upp skalann og sumir a.m.k. farnir að kunna að meta sopann. Ég er enn ekki í þeim hópi. Hins vegar tók strákurinn sig til og vann pókerinn í þetta skiptið. Minn fyrsti sigur eftir tvo ósigra. Ágóðinn rennur þó allur í flotta flösku fyrir næsta klúbb þannig að þetta er meira upp á heiðurinn er hagnaðinn.

Síðan verð ég að lýsa undrun minni á því hversu lögleiðing vændis hefur farið hljóðlega í gegn, að því er virðist. Ekkert heyrðist um þetta fyrr en fyrsta opinbera íslenska karlhóran kærði fjármálaráðherr. Mér finnst þessi löggjöf frekar undarleg, bæði kaup og sala vændis er lögleg en síðan er nánast bannað að tala um að maður sé að velta því fyrir sér að ná sér í vændiseinstakling, eða þá að gerast slíkur. Síðan hefur ekki einn femínisti látið á sér kræla varðandi þetta. Ég geri mér grein fyrir því að rökin fyrir þessari lögleiðingu eru þau að það skuli svipta tilneyddar vændiskonur sök til þess að auka ekki neyð þeirra frekar en af hverju er enginn feministi að snappa yfir því að kaupandinn skuli enn vera löglegur, til dæmis? Ef klámkompaní má ekki halda hópefli á Íslandi, hvernig má það vera að kaup vændis séu í lagi? Eru femínistar kannski bara farnir á vertíð? Hysterísk hjarðhegðun stýrir greinilega umræðunni á Íslandi.

Og moggabloggið er algjör vitleysumagnari. Moggabloggið er nú með um 20.000 bloggara að því er mér skilst sem keppast hver um að svara hinum. Að mörgu leyti er þetta frábært og þarna er kominn vettvangur fyrir fólk sem hefur eitthvað að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Hins vegar er þarna líka kominn vettvangur fyrir algjöra bavíana sem hafa ekki neitt skynsamlegt að segja til þess að hafa virkileg áhrif á þjóðarumræðuna. Þannig geta stórar fréttir runnið óséðar í gegn á meðan smámál magnast upp í stærðarinnar vitleysu.

Vil annars mæla með einum moggabloggara sem er jafnan hnitmiðaður og lætur ekki glepja sig í eitthvað bull: Ívar Páll Jónsson .

1 Comments:

At 9:05 PM, Anonymous Anonymous said...

Well said.

 

Post a Comment

<< Home