Dauði og skattar og þorrablót
Ég fór á mitt fyrsta þorrablót á laugardaginn. Mörgum þykir það kannski merkilegt en hitt þykir kannski merkilegra að þar borðaði ég skyr í fyrsta skipti, a.m.k. svo að ég muni til. Það var úr búi Sigga skyrs sem rekur skyrgerð hér ytra og get ég með góðri samvisku sagt að þetta hafi verið besta skyr sem ég hef smakkað. Annars var blótið hið ágætasta. Það kom mér á óvart hversu mikið af ætum mat var á svæðinu og ég hefði alveg getað sleppt því að slengja í mig pizzusneið áður en ég mætti. Annars var spilað, sungið og dansað og almennt ríkti gleðin. Undirritaður var í hópi hressari manna, aðallega framan af, en þegar mikið stendur til vill það oft brenna við að menn vanmeta aðstæður og eigið þol og það fór svo að ég flaug of hátt á lánuðum vængjum. Ég firra mig að sjálfsögðu allri ábyrgð og kenni veikindum og óvæntum brennivínsstaupum um að hafa farið út af fyrirfram útreiknaðri leið enda hárfín vísindi þar á ferð.
Annars hafa téð veikindi haldið áfram að valda mér leiðindum og er ég búinn að vera hóstandi eins og argasti berklasjúklingur. Akkúrat það sem maður þarf á að halda þegar skólinn er að fara á fullt aftur. Annars var ég í dag í fyrsta tíma í kúrsi sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz kennir. Hörkugaman að fá svona nagla sem er á stöðugri ferð og flugi að segja fólk hvernig eigi að stýra hinum ýmsu hagkerfum. Hann var skemmtilegur í fyrsta tíma og vonandi verður svo áfram.
Nú er árstíð skattframtala í algleymingi og er ég svo heppinn þetta árið að telja fram í öðru veldi og vel það. Hið klassíska íslenska skattframtal er svo sem ekki mikið verk, þótt það flæki aðeins málin að vera ekki á Íslandi, en svo er það gleðin að fá að telja fram hér í Bandaríkjunum í fyrsta skipti. Hér þarf ég að skila inn tveimur framtölum, fyrir New York ríki og alríkið.
Að lokum vil ég óska öllum íbúum norðurhvels jarðar með það að nú er dagurinn orðinn nóttunni yfirsterkari og vex nú aðeins styrkur fram á sumarið. Ég ætlaði að segja einhvern svæsinn Grænlendingabrandara hérna en læt það vera að sinni.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home