Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Tuesday, February 27, 2007

Þorrasturlun
-opið bréf til Íslendinga í New York og víðar

Kæru vinir.

Á hverju ári höldum við Íslendingar upp á þá fornu tækni sem fólst í því að taka ólíklegustu innyfli, útyfli og aðra dýraafganga og gera úr þeim geymsluþolinn herramannsmat. Eins og þið vitið væntanlega flest ætlar Íslendingafélagið hér í New York að halda slíkan fögnuð eftir réttrúmlega hálfan mánuð, laugardaginn 17. mars. Áhuginn á blótinu hefur verið í veldisvexti síðan tilkynnt var um það, miðasala er nú í algleymingi og fer hver að verða síðastur að verða sér úti um miða. Búist er við sturlaðri stemmningu og er stórtímaritið “Fólk tímarit”, eða “People Magazine” eins og það heitir á frummálinu, með mikinn viðbúnað vegna The Curse of Thorri Party eins og þeir orða það svo skemmtilega.

Ef þetta dugði ekki til að sannfæra ykkur þá má benda strákunum á að New York er ein helsta módelgeymsla Íslendinga og aldrei að vita að ungmódelin flykkist á blótið til að innbyrða blóðmör og hamsatólg nú þegar þyngdarlágmörk eru farin að ryðja sér til rúms í tískuheiminum. Fyrir stelpurnar nægir væntanlega að vita að ég mæti.

Ég hvet því alla til að skella sér á miða hið snarasta og byrja að pússa ballskóna. Allar nánari upplýsingar má finna hér og ef menn vilja taka forskot á sæluna og kíkja á salinn má sjá hann hér. Og endilega dragið þá Íslendinga sem þið þekkið með.

Fyrir þá sem ekki borða umræddan þorramat má búast við því að einhverji taki skrens á mac fyrir blótið að íslenskum sið þótt vissulega væri það líka mjög skemmtilegt ef einhverjir myndu sleppa því alfarið að borða og drekka þeim mun meira í staðinn. Slíkt getur ekki gert neitt nema æsa leikana.

Svona fyrifram þá vil ég segja að þótt ég viti að þau ykkar sem láta sannfærast af þessum fortölum mínum og mæta verði mér mjög þakklát þá þurfið þið ekki að þakka mér. Það er mér næg umbunun að vita að ég hef aukið gleðina í heiminum.

Með von um að ég sjái ykkur þar,
Bjarni.

Monday, February 26, 2007

Listirnar

Var að koma heim eftir kvöld í leikhúsinu og svo að horfa á Óskarsverðlaunaafhendinguna.

Ég fór í kvöld í annað skipti á söngleik hér í New York, en það var söngleikurinn Fantasticks (ég er ekki að misrita, það er skrifað svona). Þetta er víst “longest running musical” á einhvern mælikvarða og átti Tom Jones hlut í samningu þessa söngleiks. Hann er svokallaður “off-broadway” sem þýðir að þetta er ekki einn af stóru söngleikjunum sem eru í gangi. Þetta var í litlu leikhúsi, voðalega létt og svona mátulega skemmtilegt. Áður hafði ég farið á Lion King sem var mun skemmtilegra. Það var risauppfærsla, með flottri tónlist og búningum, stórum flytjendahópi og í stóru leikhúsi. Mæli mun frekar með einhverju slíku ef fólk vill fara á söngleik en fínt að hafa prófað þetta.

Stærsti sigurvegari Óskarsins í ár var án efa Martin Scorsese með mynd sína Departed, sem fékk alls fern verðlaun, besta mynd, besti leikstjóri, besta ófrumsamda handritið og klippingu. Það hefði verið spurning hver fengi leikstjóraverðlaunin ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að Scorsese hefur aldrei fengið verðlaunin og mörgum finnst hann eiga þetta inni. Leikaraverðlaunin fóru að þessu sinni bæði til túlkenda frægra persóna mannkynssögunnar; Forrest Whittaker í hlutverki mannætunnar Idi Amins og Helen Mirren sem Englandsdrottning. Annars má segja með þetta árið að verðlaunin dreifðust býsna jafnt yfir myndirnar. Til dæmis var ég mjög ánægður með það að Little Miss Sunshine fékk tvenn verðlaun, fyrir handrit og leik í aukahlutverki. Lágstemmd en stórskemmtilega mynd þar á ferð. Ein óvæntustu verðlaunin voru veitt fyrir besta aukaleik kvenna þar sem fyrrum Idol-keppandinn Jennifer Hudson bar sigur úr býtum og náði næstum að komast með tærnar þar sem Gwyneth Paltrow hafði hælana í að væla í þakkarræðunni.

Sú mynd sem má vera svekktust með útkomuna er Babel, sem hafði verið talin líklega til afreka. Þá fengu Bréfin frá Iwo Jima lítið í sinn hlut. Clint Eastwood þarf svo sem ekkert á neinum skratufjöðrum að halda, hvorki fyrir arfleifð sína né fyrir sjálfan sig því hann hefur unnið allt. Hins vegar finnst mér að þessi hugmynd hans um að skrifa um sömu orrustuna frá báðum hliðum vera það mikilvæg, að mér hefði fundist gaman að hann fengi eitthvað. Hann fékk reyndar æðstu orðu Frakklands fyrir þetta framlag sitt til gagnkvæms skilnings og heimsfriðar þannig að hann fékk væntanlega næga viðurkenningu. Annar sem líklegur er til að hljóta viðurkenningar fyrir sitt framlag til heimsins er Al Gore sem uppskar líka eins vel og hann gat búist við. Heimildamyndin, An Inconvenient Truth, sem hann er hjartað og sálin í fékk tvenn verðlaun. Pólitísk skilaboð Hollywood eru skýr og það kæmi mér ekki á óvart að þessi fyrrum verðandi forseti Bandaríkjanna fengi á endanum friðarverðlaun Nóbels fyrir þessa vakningarherferð sína.

Síðan er ég að fara á tónleika í Carnegie Hall á morgun/í dag (mánudag) sem verður betur skýrt frá á morgun eða hinn.

Vil minnast á að ég fór á Bubba-Gump Shrimp veitingastaðinn á Times Square. Hann var eins og við var að búast, eins ofurtúristalegur og hægt var, maturinn lala og Forrest Gump í gangi á öllum veggjum. Það er svo sem almenn regla að maður á ekki að borða nálægt Times Square og ef fólk neyðist til þess þá mæli ég með Olive Garden, hann er hvað skástur þarna.

Að lokum vil ég hvetja alla til þess að fylgjast með því þegar hlutabréfamarkaðurinn opnar á morgun. Eftir frábærar fréttir af lánshæfismati bankanna er annað ómögulegt en að þeir stökkvi á morgun. Persónulega spái ég því að bankarnir hækki um 4-5% á morgun og haldi svo áfram að hækka á næstu dögum og vikum. Þeir sem ekki enn eru stokknir á lestina ættu að gera það ef þetta springur ekki þeim mun hærra upp á morgun.

Monday, February 19, 2007

Körfubolti

Ég fékk ágætisskammt af körfubolta síðustu vikuna. Fyrst á leik í deildinni og svo sá ég stjörnuleikinn. Niðurstaðan er að þetta er óttalegt drasl.

Á þriðjudaginn fór ég sem sagt með Magnúsi bróður á New Jersey Nets vs. San Antonio Spurs í New Jersey. Ég hef farið á einn annan NBA-leik áður, á Knicks-leik síðasta vor. Báðir þessir leikir báru þess sterk merki að heimaliðið sem ég varð auðvitað að styðja gat ekki blautan. New Jersey er reyndar enn í einhverjum séns á að komast í úrslitakeppnina en hann virðist ekki mikill. San Antonio labbaði yfir þá í öðrum leikhluta og hélt síðan 20 stiga mun út leikinn og þegar ég segi labba þá meina ég labba. Það voru engin átök í þessu, þetta var bara hægt og rólegt og menn leggja sig greinilega ekki 100% í alla leiki.

Síðan var stjörnuhelgin núna að líða. Hún var haldin í Las Vegas þetta skiptið og hún fer þannig fram að á föstudegi er nýliðaleikur, milli bestu nýliða austur- og vesturdeildarinnar. Daginn eftir eru svo hæfileikakeppnirnar þar sem ber hæst þriggjastiga- og troðslukeppnina. Reyndar var núna óvenjuleg keppni þar sem gamli refurinn og núverandi vínarbrauð, Charles Barkley, fór í kapphlaup við 67 ára gamlan dómara og marði sigur. Það er alltaf gaman að troðslukeppninni, sjá hvað mönnum dettur í hug en vandinn er samt bara sá að það er búið að gera flest og lítið nýtt að sjá. Þess vegna fannst mér eiginleg þriggjastigakeppnin skemmtilegri, hún er hröð, mikill metnaður og menn eru að gera sitt allra besta. Á sunndeginum er svo stjörnuleikurinn sjálfur þar sem allir bestu leikmenn austurs og vesturs mæta. Þetta er óttalegur súkkulaðikúluleikur þar sem enginn spilar vörn og öllum finnst allt voðafyndið og menn eiga bara að troða sem mest. Leikurinn fór enda 153-132 og það var bara ekkert varið í hann. Það er ekkert mál að troða og eitthvað ef maður er 2,10 metrar og það er enginn að reyna að stoppa mann. Þetta er svona eins og að horfa á fyrirgjafaleik í fótbolta, algjört fret. Það var reyndar gaman að sjá gamlar troðslur úr alvöru leikjum endursýndar, sem er líka highlight síðustu 50 ára.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta hægur leikur og menn spila allt of marga leiki yfir tímabilið þannig að það leggur sig enginn alveg í þetta. Síðan gengur körfubolti náttúrulega umfram allt út á það að vera stór og samkeppnin er í sjálfu sér ekki mikil þar sem búið er að sía út svo stóran hluta þjóðarinnar sem er undir tveimur metrum. Annað en til dæmist í fótbolta þar sem meira og minna hver einasti maður fittar inn í kríteríuna ef svo má segja. Úrslitakeppnin á það reyndar til að vera skemmtileg, þegar menn eru farnir að gefa sig alla í leikinn. Þannig að kannski kíkir maður á það þegar vora tekur.

Síðan fór ég í partý til Jóa Wiium sem var að klára einhver próf í sínu námi á föstudeginum. Það var fínt geim sem teygði sig vel inn í nóttina. Annars eru núna midterms að fara að detta inn þannig að það gæti farið svo að maður verði rólegri næstu vikurnar en ella. En enginn veit hvað framtiðin ber í skauti sér fyrr en öll er nema þótt síður sé þannig að við sjáum hvað setur um síðir.

Monday, February 12, 2007

Í rólegri kantinum

Á fimmtudagskvöldið voru teknir nokkrir skyldubjórar, hvað er fimmtudagur án smá öls? Ég, Rabbi og tvær íslenskar stelpur tókum nokkra á local-stað. Þar sem við Rabbi vorum enn heitir eftir Justin voru tekin nokkur lauflétt spor og þóttum við taka okkur sérstaklega vel út á gólfinu.

Föstudagurinn var eins rólegur og hann getur orðið, ég passaði bara litla pjakk.

Á laugardeginum mætti svo Gummi Kristjáns á svæðið og hélt upp á afmælið sitt. Það var farið á Tapas-bar, ég held að það sé í fyrsta skipti sem ég fer á svoleiðis. Fínt að prófa það, skemmtileg stemmning að vera með haug af smáréttum og narta sitt á hvað. Síðan var farið á léttpöbbarölt í kuldanum sem er búinn að vera ógurlegur síðustu tvær vikurnar. Allt að 10 stiga frost, og 18 með vindkælingu. Bölvað drasl.

Komandi vika verður vonandi hress og skemmtileg. NBA-leikur á morgun og svo plönuð djömm á fimmtudag og föstudag. Vonandi næ ég að gera eitthvað sem þess virði er að minnast á eftir helgi.

Ég læt annars eitt gamlagott fylgja. Þessar lífsreglur þarf að minna reglulega á þannig að menn verði ekki eins og kjánar.


Klæddu þig eins og maður, maður

Ég reif mig aðeins upp úr venjunni um síðustu helgi og skellti mér í sund í þynnkunni. Ég dýfði mér í pottana í Laugardalnum með félaga mínum og ræddi menn og málefni eins og gömul kempa. Þegar ég var svo að klæða mig sá ég svona gamla kempu, nokkuð vel í holdum og komin með þó nokkur ár í reynslubankann, vera að klæða sig. Öllu heldur sá ég hann þegar hann var kominn í báða sokkana og ekkert annað. Þetta er sjón sem ég vil helst ekki sjá aftur. Þetta brýtur í bága við allt sem mér finnst gott og eðlilegt varðandi það hvernig maður á að klæða sig.

Þegar karlmaður klæðir sig eru tvö grundvallarsjónarmið sem þarf að taka tillit til. Það eru annars vegar útlitssjónarmið og hins vegar hagnýt sjónarmið. Almennt skal klæða sig þannig að á sérhverjum tímapunkti væri hægt að labba inn á mann og maður liti ekki út eins og kjáni. Einnig skal reyna að hámarka hluta líkama sem er hulinn þegar hver flík er klædd á. Það eru mest megnis karlmenn sem eru í kring og almennt vilja þeir sem minnst af öðrum karlmönnum sjá. Þá aðeins má víkja frá þessari reglu ef slíkt skapar sérstaka örðugleika við íklæðningu eða ef miklum þægindum er fórnað.

Grundvallarregla

Fyrsta flík sem líkaminn er klæddur í skal ávallt vera nærbrók. Það er fátt kjánalegra en maður í sokkum eða bol einum saman. Þessi regla er aðeins frávíkjanleg ef ekki er ætlunin að vera í nokkurri nærbrók (eða vera commando eins og sagt er). Þá skal jafnan klæða sig fyrst í innstu brókina, hver sem hún má vera.

Viðmiðunarregla 1

Að undanskillinni nærbrók skal aldrei vera tveimur flíkum meira á efri líkama heldur en neðri eða öfugt. Til dæmis skal ekki klæða sig í bol og peysu áður en í buxurnar er komið. Einnig er óeðlilegt að ef tvennar buxur, svo sem stillongs og ytri buxur, eru planaðar í klæðnaðinum að í þær báðar sé farið áður en eitthvað er komið á efri hlutann. Helsta undantekningin frá þessari reglu er sú að ef endanlegur alklæðnaður brýtur gegn reglunni er ekkert við því að gera. Til dæmis ef alklæðnaður samanstendur af nærbuxum, sokkum, bol, peysu, jakka og buxum er ómögulegt annað en á einhverjum tímapunkti verði tveimur flíkum meira á efri hluta líkamans.

Viðmiðunarregla 2

Sokkar eru lítils háttar atriði í alklæðnaði í samanburði við aðra þætti. Íklæðning þeirra er ekki forgangsatriði og skal að jafnaði vera komin flík á efri og neðri hluta líkamans (fyrir utan nærbrók) áður en sokkarnir eru settir á fæturna. Engu að síður eru sokkar hluti af innsta lagi klæðnaðarins svo að eðlilegt er að röðin komi að sokkunum þegar ein flík að ofan og ein að neðan er íklædd. Helstu undanþágur frá þessari reglu eru ef sokkar eru sérstaklega erfiðir í að klæðast, til dæmis vegna stærðar, eða ef almenn lýti eru á fótum sem ástæða er að hylja.

Þessar reglur eiga við klæðnað karlmanna en nokkuð samsvarandi reglur ættu að gilda um konur, eðlilegt er að nærbrók og svo brjóstahaldari séu fyrstu skref íklæðningar kvenna. Svo væri eðlilegt að pils/buxur/sokkabuxur kæmu næstar. Þó eru málefnaleg rök fyrir því að, ef ætlunin er að vera í sérlega þröngum bol eða toppi, þá sé klætt í hann áður en neðri hlutinn er hulinn. Þessar hugleiðingar mínar geta þó aldrei verið annað en vangaveltur þar sem ég hef ekki kynnst því að klæða mig í alklæðnað kvenna og þeim vandræðum og sjónarmiðum sem kunna að vakna er íklæðningin er tvinnuð saman við farðaásetningu og þess háttar.

Thursday, February 08, 2007

Tónleikar með Justin Timberlake!

Ég var að koma af tónleikum í Madison Square Garden með hinum eina sanna JT. Þetta var mögnuð upplifun. Justin er án efa stærsta poppstjarnan í dag og sýndi í kvöld hvers vegna.

Við Rabbi vorum á leiðinni á tónleika með Margréti Eir niður í bæ í kvöld þegar Rabbi mundi eftir tónleikum með Justin Timberlake. Hann hafði reynt að fá miða á þá en það var löngu uppselt. Við ákváðum því að stoppa við í Madison Square Garden, á leiðinni til Margrétar, til þess að sjá hvort nokkuð væri mögulegt að fá miða fyrir utan. Eftir nokkrar samningaviðræður við nokkuð vafasama gaura og könnun á gæðum miðanna slógum við til. Margrét var því kvödd með söknuði og við röltum inn í höllina í miðjum hópnum af 15 ára stelpum.

Pink var á sviðinu þegar við komum í hús. Ég hef nú ekki mikið um hennar tónlist að segja en hún gerði ágætis loftfimleikashow með tveimur bikini-vinkonum sínum. Eftir að hún lauk sér af tók við millibilskafli á meðan sviðið var undirbúið fyrir JT. Allt í einu trylltist svo höllin og eftir að við náðum að átta okkur á því hvaðan mestu lætin komu sáum við að fasteignagreifinn Donald Trump var mættur við gríðarlegan fögnuð. Hann tók því ágætlega og þurfti í kjölfarið að sitja fyrir á nokkrum myndum og gefa eiginhandaráritanir. Aftur trylltist höllin og við staðsettum lætin og þá var Sean Puffy Puff Daddy P.Diddy Combs mættur á svæðið við svipaðan fögnuð og Trumparinn, enda menn með svipaðan bakgrunn.

Þá tók við nokkur bið en svo dimmuðust ljósin og komið var að því. Tónlistin hófst, crowd-ið trylltist og þá kom Justin upp úr sviðsgólfinu í hvítum jakkafötum og þakið ætlaði af húsinu. Hann byrjaði rólega, tók síðan sínar helstu partýbombur eins og Seniorita, SexyBack og fleiri lög sem heyrast á hverju kvöldi á Oliver. Síðan tók hann sér hlé og heitasti producerinn í dag, hinn íturvaxni Timbaland, þeytti skífur og glamraði. Þá mætti Justin aftur, spilaði nokkur af sínum hressari, róaði sig síðan niður í lögum eins og Cry Me a River. Undir blálokin tók hann síðan lag úr Saturday Night Live við gríðarlegan fögnuð. Það er lagið “Dick in a Box” sem hefur farið sigurför um netið og má meðal annars finna hérna á youtube.

En í það heila þá hef ég aldrei áður upplifað þvílíka popptónleika og aldrei séð einn mann eiga crowdið jafngjörsamlega, nema kannski þegar ég kemst í vibe-ið og á gólfið á Oliver. En það var óhugnarlegt til þess að hugsa að hann var þarna með fleiri þúsund konur sem hefðu allar lagst flatar við minnstu bendingu. Það er alveg ljóst að Justin er búinn að reka af sér slyðruorðið frá N´Sync og er orðinn miklu meira. Hann minnir að milu leyti á goðið sitt, Micheal Jackson, og blandar saman lagahöfundar-, söng-, hljóðfæra- og danshæfileikum sínum til að búa til hina últimötu poppstjörnu. Þessi pjakkur sem er árinu yngri en ég skilgreinir bara einfaldlega töff í dag. Þegar ég verð stór ætla ég að verða eins og hann.

Farinn í söng- og danstíma.

Tuesday, February 06, 2007

Síðasta vikan

Ég hef verið duglegur við að reyna að njóta Nýju Jórvíkur síðustu dagana. Eftir að hafa skilað af mér skiladæmum á fimmtudagskvöldið síðasta var Happy Hour tekinn. Ég náði nú reyndar bara rétt í rassinn á ókeypis bjórnum en Rabbi hafði þá verið iðinn við kolann og innbyrt á við tvo þannig að eftir að okkur var hent út úr business skólanum lá leiðin á local pöbbana þar sem ég reyndi að ná upp forskotinu sem Rabbi hafði. Ég náði því nú aldrei en náði samt marktæktri ölvun. Hins vegar voru hverfisbúllurnar ekki jafnheillandi og tveimur vikum fyrr. Það virðist sem upphafsannartryllingurinn sé runninn af college-píunum.

Kvöldið eftir fórum við ásamt íslensku pari á ágæta tónleika þar sem stærsta nafnið var Chris Garneau sem fæstir kannast væntanlega við. Garneau var ágætur þrátt fyrir að vera þveröfugur, mjög róleg píanó-ballöðu-tónlist sem sumum fyndist kannski fullmikið væl. En í það heila fínir tónleikar og fínt kvöld.

Laugardagskvöldið var rólyndismatur með nokkrum Íslendingum og svo nokkrir öllarar.

Sunnudagskvöldið var síðan stærsti hátíðardagur Bandaríkjanna á eftir Þakkargjörðinni, það er Super Bowl. Brynja Sig er greinilega með mikil sambönd í Harlem því hún kom okkur í rosapartý í því ágæta hverfi. Þar komum við inn í þokkalega stóra íbúð með þremur sjónvörpum, þar af tveimur 40+ tommu plasmadjöflum. Í það heila hafa líklega komið um 50-70 manns og við vorum svona 5 hvít! Restin var locallinn úr Harlem, blanda af svörtum og hispanics. Mjög sérstakt að vera allt í einu orðinn svona rosalegur minnihlutahópur og mjög gaman að sjá alvöru tjáningu ólíkt því sem þekkist hjá hvíta manninum.

Leikurinn sjálfur byrjaði ótrúlega með snertimarki eftir upphafsspyrnuna sem hefur aldrei áður gerst í Super Bowl. Skömmu seinna kom annað flott snertimark en eftir það var þetta steindautt drasl. Rigning olli mörgum mistökum og leikurinn varð mjög hægur og vélrænn. Hálfleikssýningin kryddaði leikinn þó nokkuð. Það var hinn eini sanni Prins sem tróð upp. Hann endaði dagskrána á því að taka hið ljúfsára Purple Rain í rigningunni og purpuraupplýstri stúkunni við gríðarlegan fögnuð bæði viðstaddra á leiknum og í partýinu. Í það heila mjög skemmtileg upplifun.

Vonandi heldur maður áfram að vera svona duglegur.

Ég hvet fólk, sem áhuga hefur, að kíkja á myndasíðuna hans Rabba til að sjá þetta allt í myndmáli.