Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Tuesday, May 15, 2007

Próf búin – afslöppun tekin við

Jæja, þá eru blessuð prófin búin. Eftir allt of langt tímabil lærdóms og lestrar er ég frjáls. Nú taka við rúmar tvær vikur hérna úti í Ný-Jórvíska vorinu. Veðrið er búið að vera þægilegt síðustu vikurnar, þetta 20+ og sól. Veðurspáin bendir ekki til annars en að það haldi áfram. Vonandi fer þetta ekki að detta upp fyrir 30, það er allt of mikið fyrir litla albinóastráka eins og mig.

Fór aftur á NBA-leik í gær. Þessi var öllu skemmtilegri en sá sem ég fór á í vetur. Nú tóku Nets á móti Cleveland Cavaliers í undanúrslitum austandeildarinnar og freistuðu þess að jafna einvígið í 2-2. Eftir æsispennandi lokasprett hafðist það ekki. Okkar menn fengu 10 sekúndur til að jafna, tveimur stigum undir, en Vince Carter skeit í brók, eins og oft áður í leiknum. Hann missti boltann út af, náði ekki einu sinni skoti. Nú virðist öll nótt úti fyrir mína menn í New Jersey.

Maður verður nú líka að tjá sig eitthvað um kosningarnar. Heilt yfir ágæt úrslit. Yfir litlu að kvarta nema því að Íslandshreyfingin náði ekki inn. Ef hún hefði gert það þá hefði stjórnin fallið og allar vinstri stjórnir nema 4-5 flokka stjórnir verið ómögulegar og þá værum við komin með stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í stað þess þurfum við að bíða og vona að menn sjái ljósið. Það er alveg ljóst að SS-stjórnin yrði sterk og nyti stuðnings mjög stórs hluta þjóðarinnar. Þetta er líklegasta stjórnin til að afnema ýmiss afturhaldsmál eins og að hefja afnám landbúnaðarkerfisins, fyrst með víkkun innflutningsheimilda. Þá munu mál eins og bjór í búðirnar og samkynhnegiða upp að altari ekki bíða lengi.

Nú eru líka metnaðarfull plön um að komast aftur í form. Það er af sem áður var þegar maður hljóp maraþon án þess að svitna. Próftörnin og nauðsynleg sykurneysla liggur þungt á mér og ekkert að gera nema að spretta úr spori.

Tuesday, May 01, 2007

2 niður, 2 eftir

Þá er próf nr.2 búið. Niðurstöður úr fyrstu tveimur prófunum eru þegar komnar og eru jákvæðar sem gefur byr undir báða vængi í undirbúningnum fyrir seinni prófin tvö. Það verður þó æ erfiðara að sitja við eftir því sem nær dregur frelsinu. Veðrið er nú líka orðið fast í bongó-stillingunni. Það er yfirleitt sól og svona 20 stig þessa dagana. Ég ætla að reyna að nýta blíðuna með hlaupum á morgnana í lestrinum svona til að stemma að einhverju leyti stigu við fitusöfnun. Tók eitt hlaup í morgun í Central Park sem er að springa út þessa dagana. Vorlitadýrðin er glæsileg; bleik, hvít, gul blóm á trjánum með mismunandi blæbrigðum af grænum.

Ég mun ná að kjósa héðan úr Jórvíkinni Nýju og hvet ég alla til að kjósa líka eins og Íslendinga er hefðin. Muna svo að það er bannað að kjósa flokka sem byrja á F.