Skyndiáhlaup á Ísland
Kvöldið eftir var líka nokkuð gott þótt þynnkan hefði dregið úr manni nokkurn mátt. Kvöldið var hafið á léttri pungadrykkja með Jóa Ben og nafna mínum Gíslasyni og bæjarferð í kjölfarið. Nokkrir pöbbar voru teknir, þar á meðal Óliver aftur þar sem trylltur stríðsdans var stiginn.
Síðan kom ég aftur heim til NY á sunnudagskvöldið. Góð helgarferð með góðri keyrslu.
Gamla-gott vikunnar er að þessu sinni í bundnu máli og er einmitt sérlega viðeigandi fyrir þessa helgi. Það er stórljóðið “Veruleikinn snýr aftur” sem birtist á Skítnum 19.janúar 2004.
Veruleikinn snýr aftur
Nú helgin er liðin svo helvíti fljótt
og heilafrumurnar færri.
Og mánudagsins, myrkur sem nótt,
morgun svo asskoti nærri.
Á föstudegi fjörið hefst,
fyrsti sopinn er laptur.
En fyrsti bjórinn félaga krefst
og fljótlega sopið er aftur.
Gamanið ríkir með gleði við völd
og gleymast áhyggjur allar.
Fjörið er mikið og fagurt er kvöld,
nú fögnum við konur og kallar.
Lítið frábrugðið laugardagskvöld
líður á svipaðan hátt.
Aftur er gaman og gleði við völd
og gengur svo langt fram á nátt.
En svo kemur sunnunnar dagur
og sviptir mann vímunni.
Og þá upphefst þunglyndisbragur
Í þynnkuglímunni.
Já, glíman er hörð og glíman er römm,
nú glímir hver fylliraftur.
Því vínið er svikult og víman er skömm
og veruleikinn snýr aftur.