Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Monday, January 29, 2007

Skyndiáhlaup á Ísland

Eftir tæpar tvær vikur hérna í the U.S. of A. var ástæða til að skella sér aftur heim á hinn skammdegishrjáða Klaka. Ástæðan var brúðkaup Jóa Árna, eðaldrengs og æskuvinar. Ég flaug því heim á fimmtudagskvöldið síðasta, lenti á föstudagsmorgun, lagði mig í nokkra tíma og skellti mér svo í brúðkaupið. Það tókst vel í alla staði, fyrst falleg athöfn í kirkjunni sem endaði á “We are the champions” á orgeli og síðan glæsileg veisla í Rúgbrauðsgerðinni. Þar stal senunni frábær veislustjóri, Daníel Isebarn, sem lagði salinn með hárfínni blöndu af fimmaurum (Brúðkaupsgerðin mun sitja lengi eftir í minnum manna), góðlátlegu gríni og svívirðingum þar sem enginn var óhultur, hvort sem það voru foreldrar brúðhjónanna eða fyrrverandi forseti Alþingis. Eftir þessa glæsiveislu þótti kallinum að sjálfsögðu ástæða að taka Óliverinn. Þar rakst ég á fullt af góðkunningjum og í það heila var kvöldið bara frábært.

Kvöldið eftir var líka nokkuð gott þótt þynnkan hefði dregið úr manni nokkurn mátt. Kvöldið var hafið á léttri pungadrykkja með Jóa Ben og nafna mínum Gíslasyni og bæjarferð í kjölfarið. Nokkrir pöbbar voru teknir, þar á meðal Óliver aftur þar sem trylltur stríðsdans var stiginn.

Síðan kom ég aftur heim til NY á sunnudagskvöldið. Góð helgarferð með góðri keyrslu.

Gamla-gott vikunnar er að þessu sinni í bundnu máli og er einmitt sérlega viðeigandi fyrir þessa helgi. Það er stórljóðið “Veruleikinn snýr aftur” sem birtist á Skítnum 19.janúar 2004.


Veruleikinn snýr aftur

Nú helgin er liðin svo helvíti fljótt
og heilafrumurnar færri.
Og mánudagsins, myrkur sem nótt,
morgun svo asskoti nærri.

Á föstudegi fjörið hefst,
fyrsti sopinn er laptur.
En fyrsti bjórinn félaga krefst
og fljótlega sopið er aftur.

Gamanið ríkir með gleði við völd
og gleymast áhyggjur allar.
Fjörið er mikið og fagurt er kvöld,
nú fögnum við konur og kallar.

Lítið frábrugðið laugardagskvöld
líður á svipaðan hátt.
Aftur er gaman og gleði við völd
og gengur svo langt fram á nátt.

En svo kemur sunnunnar dagur
og sviptir mann vímunni.
Og þá upphefst þunglyndisbragur
Í þynnkuglímunni.

Já, glíman er hörð og glíman er römm,
nú glímir hver fylliraftur.
Því vínið er svikult og víman er skömm
og veruleikinn snýr aftur.

Monday, January 22, 2007

Mánudags-gamla-gottið

Hér að neðan er fyrsti vikulegi skammturinn af gömlum skrifum mínum af Skítnum Græna sem okkur þótti öllum svo vænt um. Þetta er pistill sem hefur lengi verið mér hjartfólginn og vona ég að sem flestir hafi gaman að.

Ertu hress?
[birt þann 10.mars 2003]

Fyrir tæplega hálfu tungli síðan fjallaði Björn um Njörðinn, merkilega dýrategund sem hefur náð ótrúlegri útbreiðslu á síðasta áratugnum. Annar merkilegur stofn er Hressi gaurinn. Hressi gaurinn er meindýr sem allir kannast við. Síðustu kynni mín af hressa gaurnum voru er einn slíkur labbaði inn á pizzastaðinn Devito’s og bað um tvo kjúklingabita, stóran franskar og stóra kók (laglegt hressi!). Það er nefnilega einn helsti eiginleiki hressa gaursins að hann telur sig vera fyndinn. Hressi gaurinn ferðast yfirleitt einn en þó kemur fyrir að hann birtist í fylgd nokkurra tímabundinna viðhlæjenda. Hendir hann jafnan mannskemmandi fimmaurum eins og fyrrnefndum í kringum sig í þeim tilgangi að bæta við þá sorglegu hjörð sem hann leiðir hverju sinni.

Annar stór eiginleiki hressa gaursins er sá að flestar þær sögur sem hann segir snúa að afrekum hans og mikilvægi. Flestar sögupersónur ævintýra hans eru kvenkyns og enda yfirleitt á því að lýsa hrifningu sinni á honum, biðja hann um að uppfylla þarfir sínar eða vegsama hann á annan hátt. Karlkyns sögupersónur eru minni háttar og lúta yfirleitt í lægra haldi fyrir hressa gaurnum. Þá er hressi gaurinn þeim eiginleika gæddur að, sama hversu góða sögu einhver nærstaddur á, þá getur hann alltaf toppað hana enda langhressastur.

Loks verður að geta þriðja stóra eiginleika hressa gaursins en það er almennur hávaði. Hinn hressi verður ávallt að láta fólk vita af nærveru sinni og gerir það jafnan með mikilli fyrirferð. Hressi gaurinn líkist að þessu leyti mikið systur sinni, Hávaðamellunni, sem reyndar hefur ekki verið gerð nógu góð skil á skítnum en aldrei að vita hvenær það gerist.

Nú ættu flestir lesendur að vera komnir að þeirri spurningu hvort þeir séu hressi gaurinn. Ef fleiri en einn eiginleiki á við ætti lesandi að fara að hugsa sig um og velta fyrir sér afhressun.

Þó skal þessi geta að stundarhressleiki er ekki talinn vítaverður enda sé viðkomandi hressi gaur þá einnig fulli kallinn. Viðmiðunarregla um hvort maður er fulli gaurinn er: “Ef þú veist ekki hver er fulli kallinn þá ert það þú.” Þó skal maður ekki vera fulli kallinn að jafnaði enda sé maður þá hressi gaurinn að jafnaði.

Að lokum verður að benda þeim ógæfusömu einstaklingum sem falla undir skilgreiningu hressa gaursins að einkar slæmt og varasamt er að vera einnig Njörður. Hinn hressi Njörður er eitt óvinsælasta dýr merkurinnar og á sér jafnan leiðinlega lífdaga.

Saturday, January 20, 2007

Gamalt og gott

Fjölmargir lesendur bjarna.com hafa komið að máli við mig og kvartað undan lágri pistlatíðni á síðunni. Oft er lítið við því að gera þar sem líf doktorsnemans getur orðið býsna þurrt í þó nokkurn tíma og þykir Bjarnanum þá oft skárra að birta ekkert heldur en að kreista blóð úr steini. Þar sem bjarna.com er hins vegar mjög umhugað um kröfuharða lesendur sína hefur verið ákveðið að brydda upp á ákveðinni nýbreytni. Á hverjum mánudegi verða héðan í frá birtar gamlar perlur Bjarnans af hinum Græna Skít heitnum eins og birgðir endast. Pistlarnir voru, eins og alþjóð veit, oft á tíðum algjörlega óborganlegir og verður síst of mikið að birta þá aftur marga hverja. Vonandi verður þetta lesendum bjarna.com einhver huggun þegar námið sverfur að og líf mitt verður leiðinlegra en Dr.Phil þáttur.

Friday, January 19, 2007

Fyrsta dagarnir og fyrsta djammið

Hélt áfram að sjá áhugavert mannlíf í bænum. Í þetta skiptið var það grimmdarlegur maður sem var að búinn að sérhæfa sig í krákuhljóðum af ýmsu tagi. Hann stóð sig sérlega vel, náði að tjá hin ýmsu hughrif krákunnar með fádæma tilbrigðum.

Annars hafa fyrstu dagar New York verunnar einkennst af öllu nema námi, hver þarf enda nám? Á fyrstu dögunum er lögð áhersla á að massa gymmið. Lykilatriði að skafa af sér jólasteikurnar og meðfylgjandi öl. Fyrr en varir verður maður orðinn vöðvafjall með fituhlutfall undir 5% og má ekki smeygja sér í þröngan bol án þess að þurfa að berja af sér æsta ungpíuhópa. Heimadæmin eru samt að byrja að hrannast upp og því er eins gott að tvíhöfðinn verði byggður upp sem fyrst!

Síðan var fyrsta djammið tekið í gær, fimmtudag. Byrjað var á Happy Hour í skólanum og svo farið á local bari Columbia-svæðisins til þess að sjá hvað nýársmarkaðurinn hafði upp á að bjóða. Heppnaðist bara nokkuð vel.

Í það heila byrjar endurkoman bara vel. Fyrstu tvær vikurnar á Íslandi voru líka frábærar þannig að ég leyfi mér að taka svolítið djúpt í árinni og segi bara eins og Kevin Federline: “Árið 2007 hefur bara byrjað alveg frábærlega hjá mér.” Vonandi verður áframhald á því.

Monday, January 15, 2007

Aftur í Stóra Eplinu

Nú er ég aftur kominn til New York eftir rúmlega þriggja vikna stórgott frí á Íslandi. Eftir gleði, gaman, sukk og svínarí á Stormskerinu er víst aftur komið að náminu.

Ég skellti mér strax á fyrsta degi niður í bæ í verslunarhugleiðingum. Ég fór beint niður á Times Square þar sem ég fékk strax skammt af New York. Á lestarstöðinni sat kona og spilaði á sög með fiðluboga. Gaman að því þótt maður hefði nú lítinn áhuga á að eiga svona á plötu. Síðan fór ég í Virgin Megastore þar sem ég sá þéttvaxinn “bróður” stíga dans út um alla verslun. Dansinn hafði nú ekki mikil áhrif á mig en megn svitalyktin af kauða olli því að ég hélt alltaf um 5 metra fjarlægð milli mín og hans. Á röltinu frá Tímatorginu sá ég svo öllu hæfileikaríkari rytmalistamann en sá var vopnaður ýmsum prikum, málningafötum og öðrum ílátum og framdi hið fínasta stomp við nokkuð góðar undirtektir nærstaddra. Alltaf gaman að góðum götulistamönnum.

Annars hefst skólinn á miðvikudag og þá fer allt á fullt.