Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Friday, November 10, 2006

Post-Marathon vika og fyrsta Celebrity Sighting!

Nú er góð vika á enda komin. Eftir að hafa legið í skotgröfunum yfir prófum, verkefnum og maraþoni gafst loks tími til að anda léttar. Eftir maraþonið var lífið tekið létt enda fullta af vinum að skemmta sér með. Við fórum fínt út að borða og könnuðum hversu tryllt næturlíf New York borgar er á mánudags- og þriðjudagskvöldum. Síðan fórum við á Comedy Cellar þar sem var tekið maraþonsessjón (góður orðaleikur) með 10 grínistum í röð. Að vanda voru flestir góður en 2-3 læddust inn á milli sem hefðu betur sleppt því að mæta.

Amma mætti svo á svæðið með lambalæri og appolo-lakkrís sem var vel þegið.

Núna var ég svo að koma heim af heimildarmyndinni um hinn Kazakstanska Borat Sagdiyev. Það er nú ekki mikið að segja um hann, fólk þekkir hann. En það var gaman að sjá hvernig salurinn brást við því sem hann var að gera. En rúsínan í pylsuendanum var fyrsta fræga manneskjan sem ég hef séð hérna í New York. Og það var ekkert smástirni eins og Biff Henderson sem Bjössi og Elli sögðust hafa séð. Nei, það var hin smágerða, spænskættaða þokkagyðja Penelope Cruz sem skellti sér í bíó á föstudagskvöldi. Hún var litlu ljótari í eigin persónu en á hvíta tjaldinu en vinkonur hennar tvær voru nú ekki upp á marga fiska, voru meira svona tvær stelpur úr hverfinu.

Meira var það ekki að sinni.

Monday, November 06, 2006

Sælu-vælu-ælu-tilfinning
-Maraþonið klárað

Stingandi sársauki í lærum, kálfum og mjöðm, maginn herptur og á jaðri þess að knýja fram uppköst en markmiðinu náð: 42,2 km hlaupnir. Þegar komið var í markið átti ég erfitt með að átta mig á því hvort gleðin yfir að hafa klárað eða líkamleg vanlíðan væri meiri en þegar ég hrundi niður á grasbala og lagðist á bakið var það ljóst að sigurvíman var sársaukanum yfirsterkari.

Kukkan 4:45 á sunnudagsmorgun hringdi vekjaraklukkan. Eftir 6 mánaða æfingatímabil og vikulangt pastaát var Maraþondagurinn runninn upp. Ég fékk mér banana og maraþon-snickers og skellti í mig slatta af vatni og carbo-load drykk. Síðan var farið í gallann sem var búið að stilla upp kvöldið áður. Hópurinn hittist í anddyri hótelsins og fólk var greinilega spennt. Rútan lagði af stað klukkan sex og förinni var heitið til Staten Island þar sem hlaupið myndi hefjast. Við komum þangað um sjö-leytið og stigum út í kuldann, úti voru þrjár gráður. Við vorum þó við þessu búin, vorum með húfur, hanska, í tveimur peysum og síðbuxum yfir hlaupagallan, stuttbuxur og stuttermabol. Það var samt ekki laust við að maður hefði áhyggjur af hitastiginu, við vissum að það myndi hlýna eitthvað en þetta virkaði samt ekki eins og stuttbuxnaveður. Hlaupið átti að hefjast klukkan 10:10 svo að við tók þriggja klukkutíma bið í kuldanum. Við tylltum okkur á tún á biðsvæðinu og tókum því rólega fyrst, reyndum aðeins að drekka og borða og fara á salernið. Hið síðastnefnda tók einmitt mjög stóran hluta biðtímans þar sem enginn vildi lenda í því að þurfa að stoppa til að kasta vatni eða einhverju þaðan af meira í miðju hlaupi. Raðirnar voru líka langar á biðsvæðinu þannig við vorum mikið bara að bíða í röð á salernið, bara just in case að maður fyndi þörfina. Það var greinilega mikil stemmning hjá öllum, fólk í alls kyns múnderingum og búningum.

Nú var farið að styttast í þetta. Planið hjá mér var að reyna að halda púlsinum nánast föstum í 165 slögum á mínútu, sem myndi þýða um 10km/klst meðalhraða, og svo bara að sjá hvað fæturnir bæru mann langt. Ef þetta gengi eftir ætti markmiðið að nást, að klára þetta á innan við fjórum og hálfum tíma. Mikilvægt yrði að láta mannfjöldann ekki draga sig inn í sinn hraða og trufla hlaupaplanið.

Klukkan 10:10 var síðan ræst eftir þjóðsöng og yfirflug herþotu. Lagt var af stað undir New York, New York með Frank Sinatra og við tók síðan Born to Run og stemmningin greip okkur algjörlega þegar við lögðum af stað í hópi 37.000 hlaupara yfir Verrazano brúna sem liggur frá Staten Island til Brooklyn. Hlaupið yfir brúna var hægt enda mjög troðið á brúnni sem dúaði undan mannfjöldanum.

Þegar til Brooklyn var komið (eftir tæpa 3 kílómetra) tók mannfjöldinn á móti okkur. Fyrst var áhorfendaskarinn frekar strjáll en mjög gaman að fá hvatningu heimamanna. Þegar lengra var komið inn í Brooklyn þéttist áhorfendahópurinn og allt í einu var fullt af hljómsveitum og alls konar tónlistaratriðum við hlaupabrautina. Ég heyrði meira að segja lúðrasveit spila Rocky-lagið Gonna Fly Now (sem er spilað þegar Rocky er að æfa eins og brjálæðingur og hlaupa upp tröppurnar í fyrstu myndinni) og áður en ég vissi af var ég farinn að hlaupa miklu hraðar. Um 20 kílómetrar af leiðinni voru í gegnum Brooklyn og Queens og heilt yfir var þetta skemmtilegasti kafli hlaupsins. Þétt var af áhorfendum og hljómsveitum nánast alla leiðina og mér leið ennþá vel líkamlega. Seint í Queens kom önnur brúin af fimm sem tók svolítið í.

Þá var komið að því að fara yfir Queensboro-brúnna yfir til Manhattan. Hún var brött, löng, dimm og áhorfendalaus og kaldur gusturinn frá East River kældi mann niður úr annars mjög þægilegum hita. Þarna fór fyrst að votta fyrir því að þetta yrði erfitt og rétt um 25 km búnir. Síðan var komið yfir á Manhattan þar sem áhorfendafjöldinn tók aftur við okkur. Á Manhattan skyldi hlaupið langa og beina leið upp í Bronx. Eftir um 28 km hlaup var líðanin orðin óbærileg, mig var farið að verkja aðeins í fæturnar og síðan var versta martröðin að verða að veruleika, ég þurfti að fara á salernið og ég hafði ekki séð slíkt í langan tíma og var farinn að verða mjög áhyggjufullur. En allt í einu birtist kamraklasi og ég stoppaði og létti á mér. Eftir það fannst mér ég aftur vera kominn í góðan gír, setti aftur á fullt og leið bara vel. Þessi “vellíðan” entist í svona 2 km þar til komið var að næstsíðustu brúnni sem er frá Manhattan til Bronx. Hún var brött og þegar yfir hana var komið var sársaukinn í fótunum aftur kominn.

Þegar ég fór í gegnum 20 mílu markið í Bronx (um 32 km) trúði ég varla að svona mikið væri eftir og var farinn að efast um að ég myndi klára þetta. Síðan tók síðasta brúin við yfir til Manhattan aftur. Héðan í frá var sársaukinn bara vaxandi og ég reyndi bara að telja mér einhvern veginn trú um að ég gæti haldið áfram án þess að stoppa og vonaði að ég sæi næsta skilti sem segði að enn ein mílan væri að baki. Mér fannst stöðugt verða lengra og lengra milli míluskiltanna og ég hugsaði nánast um eitt skref í einu, skildi ekkert af hverju ég hafði nokkurn tímann viljað gera þetta og ákvað að þetta helvíti skyldi ég aldrei nokkurn tímann ganga í gegnum aftur. Nú kallaði líkaminn á vökva og ég greip drykk á næstu drykkjarstöð og þambaði. Það skilaði sér bara í magaverk og gerði næstu mílu enn erfiðari en aftur var þambað á næstu drykkjustöð. Nú fór áhorfendafjöldinn aftur að þéttast eftir gisið Bronx-ið. Nú var síðasta brekkan eftir, upp að Central Park, þar sem endaspretturinn skyldi hlaupinn.

Þegar í Central Park var komið voru samfelld hvatningaróp alla leiðina sem dró mann áfram. Þegar hingað var komið voru um 5 km eftir en nú var ég aftur kominn með trú um að ég gæti klárað þetta. Nú var bara að sannfæra sig um að það væri bara 20 mínútur eða hálftími eftir. Þar gerði áhrfendaskarinn bæði gott og vont. Stöðugt var öskrað: “Bara 15 mínútur eftir” eða “Bara tvær mílur eftir” og maður hélt haus haldandi að það væri satt en svo sá maður opinberu skiltin og fattaði að maður hafði verið blekktur til þess að draga mann áfram. Síðan var eina hugsunin: Þetta er alveg að verða búið, bara halda dampi í nokkrar mínútur enn. En skrefin þyngdust stöðugt, sársaukinn óx og þegar innan við míla var eftir var maginn farinn að herpast og ég hélt að ég yrði neyddur í uppköst þá og þegar. Síðan sá maður skiltin: Hálf míla, 800 metrar, 500 metrar, 300 yardar, 100 yardar og enn leið mér verr og verr en þegar um 10 metrar voru í mark fattaði ég að ég væri að klára þetta og sigurtilfinningin tók við. Eftir stutt rölt rakst ég á Bjössa og við lögðum okkur á grasbala, teygðum á þreyttum fótunum og létum sæluvímuna taka yfir. Ég var búinn að hlaupa hið margfræga Maraþon-hlaup 42,2 kílómetra. Þetta skyldi ég aldrei gera aftur!

Eftir þessa stuttu hvíld röltum við til að finna hina úr hópnum og það var mikil stemmning þegar við hittumst, umvafin állökum til að reyna að halda einhverjum hita í líkamanum. Hlaupið var búið og nú var bara eftir að koma sér niður á hótel til að henda sér í rúmið og vefja sænginni um sig. Um kvöldið fórum við síðan lurkum lamin í feita nautasteik og slöppuðum af yfir góðu víni. Langur dagur var að kvöldi komin og eftir einn drykk á hótelbarnum var ákveðið að halda í háttinn.

Núna, daginn eftir, eru flestir vöðvar likamans nokkuð sárir og stífir en heilt yfir er líðanin nokkuð góð. Nú munum við borða vel næstu dagana og njóta þess að hafa æft í hálft ár, náð að yfirvinna sársaukann og klárað hlaupið sem gekk af gríska sendiboðanum dauðum á sínum tíma. Núna virðist allt erfiðið í æfingatímabilinu, bindindið mánuðinn fyrir hlaupið og sársaukinn í hlaupinu alveg hafa verið sælutilfinningarinnar virði. Jafnvel núna, innan við sólarhring frá því ég var sjálfum mér öskuillur fyrir að hafa ákveðið að fara út í þetta, er ég farinn að gæla við það að kannski gæti ég viljað gera þetta aftur. Tíminn mun leiða það í ljós og hver veit hvað gerist. En eftir stendur að ég kláraði þetta, og á tímanum sem ég ætlaði mér, 4:22:43, innan við fjóran og hálfan tíma og í dag á ég heiminn!

Fyrir þá sem vilja eitthvað skoða varðandi hlaupið er þetta heimasíða þess:

www.nycmarathon.com

Hér að neðan fylgja svo opinberir millitímar mínir og lokatíminn ásamt niðurstöðum úr Garmin-græjunni:

Opinberir tímar:
Lokatími: 4:22:43

5 km: 0:29:49
10 km: 0:59:25
15 km: 1:29:00
20 km: 1:59:07
25 km: 2:30:35
30 km: 3:04:26
35 km: 3:35:57
40 km: 4:08:53
42,2 km: 4:22:43

Garmin:
Vegalengd: 42,09 km
Tími: 4:22:39
Meðalhraði: 9,6 km/klst (6:14 mín/km)
Meðalpúls: 164 slög/mín
Brennsla: 3258 kaloríur
Hækkun: 2159m