Bjarni Kristinn Torfason

-Lítill strákur í stórborg

Friday, September 29, 2006

Myndasíðan opnar!

Vegna fjölda áskorana og 1100 undirskrifta hvaðanæva að í Suðurlandskjördæmi hefur verið ákveðið að bjarni.com færi út starfsemi sína og birti ekki aðeins þjóðmálaumræðu og skemmtiefni í máli heldur mun bjarni.com jafnframt leitast við að birta myndir til þess að glæða pistla síðunnar lífi og sannleiksgildi.

Engu verður lofað varðandi uppfærslu myndasíðunnar og allar líkur eru á að þær verði ekki mjög tíðar. Reynt verður þó að bæta við myndum þegar þær berast ritstjórn.

Þar sem Rabbi hefur verið mun örari á myndavélinni er mjög stór hluti New York myndanna úr hans smiðju kominn og eru þær hér birtar með fullu samþykki þess góða drengs. Bjarni.com þakkar samstarfsviljann og bendir áfram á síðu Rafns í hlekk hér til hliðar þar sem finna má fjölmargar fleiri myndir.

Thursday, September 28, 2006

Allt á fullu

Skólinn hefur verið að komast á fullt síðustu tvær vikurnar og því ekki mjög mikið sem hefur verið að gerast utan hans.

Frá því ég reit síðast pistil hefur verið mikill gegnumgangur af Íslendingum; vinir og vinnufélagar hafa verið á leið hér í gegn með tilheyrandi kvöldverðum og drykkjum. Meðal annars fór ég á Sushi-stað með Jóa Árna, bræðrum okkar beggja og fleirum. Ég smakkaði nú aðeins á hráa fisknum en hélt mig samt aðallega í nautasteikinni sem þeir japönsku elduðu sérlega vel. Það er nú samt annars bara eins gott að maður er ekki í London því að maður má vart við því að hitta fleiri á jafnstuttum tíma án þess að missa allt niður um sig í skólanum.

Síðan fór ég líka í siglingu frá suðaustur-Manhattan út að Frelsisstyttunni. Maður fann hvernig hjartað barðist og náði varla að fela tárin þegar maður sá fánann blakta við kórónu hinnar frjálsu frúar. Í siglingunni var innifalinn matur sem allir sem að honum stóðu ættu að skammast sín fyrir: Grænmetisjukk og kalt pasta afgreitt með áðuróþekktum hægagangi. Eftir það var farið á klúbb þar sem karlinn skók sig í takt við dúndrandi rytmann. Síðan fór ég heim með leigubíl, hvers bílstjóri jós visku yfir mig um hvað bandarískir fjölmiðlar eru ömurlegir. Þegar að húsinu mínu var komið fékk ég svo að dúsa í aftursætinu í hátt í hálftíma á meðan hinn serbneski leigubílstjóri upplýsti mig um ýmsa leyndardóma heimsstjórnmálanna, sem ég fer kannski út í í öðrum pistli seinna.

Þá fór ég líka um daginn á “The Living Room” sem er bar/rokkklúbbur í Soho/East Village sem var mjög gaman. Þar léku misupprennandi tónlistamenn nýjustu verkin úr smiðju sinni og var megnið bara nokkuð gott.

Annars er vikan þannig hjá mér að ég á að skila heimaverkefnum mán, þri, mið og fim, og hvert tekur fleiri, fleiri klukkutíma. Þá eru mánudagar og þriðjudagar mjög langir í skólanum þannig að fyrri hluta vikunnar læri ég og sef og lítið annað. Síðan kemur fimmtudagur með Happy Hour þar sem maður fær sér kannski eins og einn eða tvo. Síðan er eins gott að maður taki föstudag (sem er frí í skólanum) og laugardag vel í lærdómnum því annars er næsta vika þar á eftir helvíti. Þetta bað ég víst um.

Vonandi líður ekki jafnlangt fram að næstu skýrslu. Annars virðist millipistlatíminn nú vaxa nokkuð veldislega þannig að kannski eru þessar vonir mínar til lítils.

Jæja, farinn á Happ Hour að njóta þess að það eru engin heimadæmi að skila á morgun.

Sunday, September 10, 2006

Skál fyrir reykleysi!

Nú er fyrsta vikan í skólanum búin og síðasta alvöru fylleríið í einhvern tíma var tekið á föstudagskvöldið. Þá kom Jói Árna í bæinn ásamt bróður sínum og við Magnús hittum þá og fleiri í mat og drykkju. Við hófum leikinn á flottum japönskum stað og fórum síðan á einhverja bari, þar á meðal helvíti flottan “roof top” bar. Allt var þetta í hinu endurreista Kjötpökkunarhverfi (Meat Packing District). Kvöldið var í alla staði mjög gott. Það sem mér finnst hins vegar ein mesta snilldin við bari og klúbba í New York er sú staðreynd að hvergi má reykja innandyra. Fyrir utan að manni líður miklu betur um kvöldið þá er dagurinn eftir svo miklu bærilegri fyrir vikið. Þynnkan hérna úti er eiginlega bara þreyta. Hausverkur er í lágmarki og ekki vottar fyrir ógleði. Síðan er náttúrulega frábært að geta bara pantað heim hvaða mat sem manni dettur í hug í þynnkunni á spottprís eða bara rölt út í tvær mínútur og vera kominn á fínan stað. Það er gott að vera þunnur í New York.

Það er líka ástæða að lyfta glasi fyrir Business skólanum í Columbia. Langflestir nemendur hans eru MBA-nemar og stór hluti þess náms er tengslamyndun sem óumflýjanlega kallar á drykkju. Þar sem MBA-nemar eru líka framtíðarstarfskraftar margra banka og stórfyrirtækja er auðvelt að láta þessi fyrirtæki borga fyrir drykkjuna. Þess vegna er á hverjum fimmtudegi kl.18 boðið upp á mat og drykk af öllu tagi og þar sem við doktorsnemarnir erum svo fáir miðað við MBA-nemana (og söguleg gögn sýna að doktorsnemar drekka líka minna) fáum við að fljóta með. Þetta vikulega gilli ber hið viðeigandi nafn, Happy Hour (þýðist: “Vísindaferð mínus rútur mínus fyrirlestur”). Svo vill líka svo heppilega til að það eru ekki tímar á föstudögum svo að þessi “litli föstudagur”, sem fimmtudagur er, getur alveg orðið stór ef aðstæður krefjast.

Eftir síðasta happy hour fórum við síðan nokkur suður í Battery Park og tókum Staten Island ferjuna að kvöldlagi. Þessi ferja fer, eins og nafnið gefur til kynna, til Staten Island frá Manhattan og til baka. Ferðin tekur um 45 mínútur fram og til baka, er ókeypis og frá ferjunni gefur að líta frábært útsýni yfir Manhattan og annað í kring. Ég hvet alla sem koma til New York að gefa sér tíma til að fara í ferjuna, helst bæði um dag og kvöld.

Wednesday, September 06, 2006

Grín og tónlist

Sem mikill áhugamaður um grín, hvað sem hæfileikum á því sviði líður, hef ég ákveðið að kanna eins marga grínklúbba og ég get hér í borg. Um auðugan garð er að gresja og google auðveldaði að sjálfsögðu leitna, birti kort af helstu klúbbum í New York ásamt stjörnugjöf og fleiru.

En ég fór sem sagt á fyrsta klúbbinn núna um helgina. Það var Grínkjallarinn, eða Comedy Cellar, sem varð fyrir valinu. Það var eiginlega vegna þess að ég hafði farið þangað einu sinni áður með Óla bróður, greiningar-Gvara og fleirum, sem túristi, áður en ég varð innfæddur New York búi. Kjallarinn sveik ekki, var nokkuð góður þótt mér hafi nú reyndar fundist fyrra skiptið betra. Fullmikið var af “auðveldu djókunum”, þ.e. kynlíf, kynþættir og almennt nóg af blótsyrðum, en samt eitthvað af góðu gríni þar sem “ekkert” var krufið til mergjar að hætti meistara Seinfelds. Einn niður, haugur eftir.

Síðan fór ég á tónleika með Ben Harper í gær með Signýju, Maríu og Brynjólfi og fleirum. Þeir voru haldnir í Central Park í ausandi rigningu og myndaðist ágætisútihátíðarstemmning. Annars voru þessi fyrstu kynni mín af Ben bara nokkuð góð, ágætismelódíurokkari.

Þar til seinna.

Sunday, September 03, 2006

Allt á fullu

Það er búið að vera nóg að gera að undanförnu. Math Camp hefur haldið manni uppteknum á daginn og svo er alltaf eitthvað að gerast á kvöldin.

Um daginn fór ég í fyrsta skipti á afrískan matsölustað. Maturinn þar var ýmiss konar gúllaskássur og grænmetisjukk sem maður ýmist skóflaði beint upp í sig eða skellti í eitthvað pönnukökubrauð og borðaði þannig. Þetta var ljómandi góður matur, helst til kryddaður fyrir Íslendinginn sem hættir sér sjaldan í neitt meira krydd en salt. Síðan var herlegheitunum auðvitað skolað niður með afrískum bjór, sem ég mæli ekkert sérstaklega með, voðalega þunnur eitthvað. Og varðandi þunnan bjór þá er ég búinn að finna mesta pissbjór sem ég hef smakkað, Coors Light, sem er enn þynnri en stóri bróðirinn í amerísku hlandi, Bud Light.

Ég tók síðan kóreskt kvöld með liði úr Math Camp-inu (ein stelpan er kóresk). Við byrjuðum á því að fara á kóreskan veitingastað þar sem tekið var kóreskt grill. Byrjað var á einhvers konar grænmetis/sjávarréttarpönnukökum sem voru allt í lagi. Set-up-ið á grillinu var síðan þannig að það var grill á miðju borðinu, síðan var komið með fullt af meðlæti á borðið og fullt af kjöti sem við mölluðum síðan á grillinu. Kjötið var síðan tekið, dýpt í ýmsar sósur, sett í kálblað ásamt meðlæti og borðað þannig. Þar sem ég var sá eini af þessum sex manna hópi sem ekki var af asísku bergi brotinn kom það mikið á óvart og vakti lukku að ég kynni að beita prjónum. Eftir matinn var síðan farið á kóreska kvikmyndarhátíð og horft á myndina, “The Wedding Campaign” (ég brýt hér með regluna um að nota ekki enskan titil non-enskrar myndar í íslensku samhengi en ég horfði nú á hana í ensku umhverfi og með enskum texta). Ágætismynd ef menn verða æstir í að sjá kóreska ræmu.

Þá fór ég á djassbar um daginn. Ég fíla djass ágætlega en hef varla eirð í mér að gera ekkert nema að horfa á djass, fyrir mér er djass (og flest önnur tónlist reyndar) eitthvað sem maður hefur í bakgrunninum á meðan maður ræðir heimsmálin. Annars finnst mér stemmningin í kringum djass mjög athyglisverð. Í tónleikum almennt er það þannig að tónlistarmenn spila til áhorfenda og áhorfendur hylla flytjendurna með lófataki og ýmsum látum. Í djassi finnst mér tónlistarmennirnir vera meira að spila fyrir sig og hvern annan. Þeir virðast vera það sannfærðir um hæfileika sína að þeir þurfa ekki beint að leita til áheyrenda til að fá viðurkenningu, ekki það að auðvitað er klapp alltaf vel þegið. Síðan er mjög mikið um sóló og það eru ekki bara staka gítarhetjur eins og í rokki. Í djassi þurfa allir að taka sitt sóló, hvort sem maður þeytir lúðra, spilar á gítar, bassa, trommur eða hvað. Hvert sóló er síðan afmarkað af því að áheyrendur klappa. Við flest sóló var klappað en þegar trommarinn, hinn margreyndi Tootsie Green, þandi drumburnar virtust áhorfendur ekki alveg vera með á nótunum og klöppuöu ekki. Hann tók þá bara þeim mun fleiri og lengri sóló þar til áhorfendur föttuðu hvað var að gerast og splæstu klappi á kallinn. Mér sýndust hinir hljóðfæraleikararnir líka vera orðnir svolítið þreyttir á þessu sólóæði Tootsie. Fyrir þá djasstónlistamenn og aðra djassáhugamenn sem eru að lesa þetta er þetta alls ekki gagnrýni á djassið heldur meira pæling um hvernig hæfileikadýrkun sem er svo víða kemur öðruvísi fram í djassi. En þetta var mjög gott vibe.

Undarlegasta reynsla mín hérna úti enn sem komið er var síðan þegar farið var á alvöru New York klúbb. Þegar við komum á svæðið kom í ljós að þetta var einhvers konar svart/latínó rappklúbbur og þegar við komum inn voru rapparar, frá Púertó Ríkó eða einhverju álíka, að þeyta spænskum rímum yfir viðstadda við góðan róm. Aftur sá ég að suðræna ástríðan leynir sér ekki, enda gríðarmikill rass- og klofnúningur í gangi. Ég get nú ekki sagt að ég hafi alveg dottið inn í latínó-rappið, ekki alveg með rytmann í þetta.

Síðan er náttúrulega allt fullt af Íslendingum alltaf á ferðinni hérna. Ég og Rabbi skelltum okkur í gærkvöldi að hitta Brynju Sigurðar, sem er að vinna hér í borg, og Gumma Kristjáns, sem er hér um helgina. Annars er Rabbi líka með blogg sem menn geta kíkt á. Þar sem sniðmengi þess sem við erum að gera er nokkuð stórt geta þeir, sem fá ekki nægar fréttir af Bjarnanum sínum, fengið einhverjar fregnir þar. Hann er líka að taka myndir eins og óður þannig að það gæti glatt margt augað. Linkurinn er hér við hliðina.