Allt á fulluÞað er búið að vera nóg að gera að undanförnu. Math Camp hefur haldið manni uppteknum á daginn og svo er alltaf eitthvað að gerast á kvöldin.
Um daginn fór ég í fyrsta skipti á afrískan matsölustað. Maturinn þar var ýmiss konar gúllaskássur og grænmetisjukk sem maður ýmist skóflaði beint upp í sig eða skellti í eitthvað pönnukökubrauð og borðaði þannig. Þetta var ljómandi góður matur, helst til kryddaður fyrir Íslendinginn sem hættir sér sjaldan í neitt meira krydd en salt. Síðan var herlegheitunum auðvitað skolað niður með afrískum bjór, sem ég mæli ekkert sérstaklega með, voðalega þunnur eitthvað. Og varðandi þunnan bjór þá er ég búinn að finna mesta pissbjór sem ég hef smakkað, Coors Light, sem er enn þynnri en stóri bróðirinn í amerísku hlandi, Bud Light.
Ég tók síðan kóreskt kvöld með liði úr Math Camp-inu (ein stelpan er kóresk). Við byrjuðum á því að fara á kóreskan veitingastað þar sem tekið var kóreskt grill. Byrjað var á einhvers konar grænmetis/sjávarréttarpönnukökum sem voru allt í lagi. Set-up-ið á grillinu var síðan þannig að það var grill á miðju borðinu, síðan var komið með fullt af meðlæti á borðið og fullt af kjöti sem við mölluðum síðan á grillinu. Kjötið var síðan tekið, dýpt í ýmsar sósur, sett í kálblað ásamt meðlæti og borðað þannig. Þar sem ég var sá eini af þessum sex manna hópi sem ekki var af asísku bergi brotinn kom það mikið á óvart og vakti lukku að ég kynni að beita prjónum. Eftir matinn var síðan farið á kóreska kvikmyndarhátíð og horft á myndina, “The Wedding Campaign” (ég brýt hér með regluna um að nota ekki enskan titil non-enskrar myndar í íslensku samhengi en ég horfði nú á hana í ensku umhverfi og með enskum texta). Ágætismynd ef menn verða æstir í að sjá kóreska ræmu.
Þá fór ég á djassbar um daginn. Ég fíla djass ágætlega en hef varla eirð í mér að gera ekkert nema að horfa á djass, fyrir mér er djass (og flest önnur tónlist reyndar) eitthvað sem maður hefur í bakgrunninum á meðan maður ræðir heimsmálin. Annars finnst mér stemmningin í kringum djass mjög athyglisverð. Í tónleikum almennt er það þannig að tónlistarmenn spila til áhorfenda og áhorfendur hylla flytjendurna með lófataki og ýmsum látum. Í djassi finnst mér tónlistarmennirnir vera meira að spila fyrir sig og hvern annan. Þeir virðast vera það sannfærðir um hæfileika sína að þeir þurfa ekki beint að leita til áheyrenda til að fá viðurkenningu, ekki það að auðvitað er klapp alltaf vel þegið. Síðan er mjög mikið um sóló og það eru ekki bara staka gítarhetjur eins og í rokki. Í djassi þurfa allir að taka sitt sóló, hvort sem maður þeytir lúðra, spilar á gítar, bassa, trommur eða hvað. Hvert sóló er síðan afmarkað af því að áheyrendur klappa. Við flest sóló var klappað en þegar trommarinn, hinn margreyndi Tootsie Green, þandi drumburnar virtust áhorfendur ekki alveg vera með á nótunum og klöppuöu ekki. Hann tók þá bara þeim mun fleiri og lengri sóló þar til áhorfendur föttuðu hvað var að gerast og splæstu klappi á kallinn. Mér sýndust hinir hljóðfæraleikararnir líka vera orðnir svolítið þreyttir á þessu sólóæði Tootsie. Fyrir þá djasstónlistamenn og aðra djassáhugamenn sem eru að lesa þetta er þetta alls ekki gagnrýni á djassið heldur meira pæling um hvernig hæfileikadýrkun sem er svo víða kemur öðruvísi fram í djassi. En þetta var mjög gott vibe.
Undarlegasta reynsla mín hérna úti enn sem komið er var síðan þegar farið var á alvöru New York klúbb. Þegar við komum á svæðið kom í ljós að þetta var einhvers konar svart/latínó rappklúbbur og þegar við komum inn voru rapparar, frá Púertó Ríkó eða einhverju álíka, að þeyta spænskum rímum yfir viðstadda við góðan róm. Aftur sá ég að suðræna ástríðan leynir sér ekki, enda gríðarmikill rass- og klofnúningur í gangi. Ég get nú ekki sagt að ég hafi alveg dottið inn í latínó-rappið, ekki alveg með rytmann í þetta.
Síðan er náttúrulega allt fullt af Íslendingum alltaf á ferðinni hérna. Ég og Rabbi skelltum okkur í gærkvöldi að hitta Brynju Sigurðar, sem er að vinna hér í borg, og Gumma Kristjáns, sem er hér um helgina. Annars er Rabbi líka með blogg sem menn geta kíkt á. Þar sem sniðmengi þess sem við erum að gera er nokkuð stórt geta þeir, sem fá ekki nægar fréttir af Bjarnanum sínum, fengið einhverjar fregnir þar. Hann er líka að taka myndir eins og óður þannig að það gæti glatt margt augað. Linkurinn er hér við hliðina.